Tryggvi Ólafsson fæddist á Vatnsskarðshólum í Mýrdal 7. desember 1924. Hann andaðist á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík 5. mars 2013.

Tryggvi var sonur hjónanna Sigurbjartar Sigríðar Jónsdóttur, f. 3. janúar 1894 í Reynisholti í Mýrdal, d. 18. júní 1979 á Skeiðflöt, og Ólafs Grímssonar, f. 24. febrúar 1897 á Skeiðflöt, d. 13. nóvember 1943 á Skeiðflöt í Mýrdal. Bróðir Tryggva er Eyþór, f. á Skeiðflöt 20. janúar 1936.

Tryggvi ólst upp á Skeiðflöt og hlaut hefðbundna barnaskólamenntun ásamt veganesti góðra foreldra sinna.

Hann starfaði alla tíð við búið á Skeiðflöt, fyrst með foreldrum sínum, en við fráfall föður síns árið 1943 tók hann við búforræði ásamt móður sinni og var síðar í félagsbúi með Eyþóri bróður sínum og fjölskyldu hans. Einnig kom hann að sjósókn, ásamt mörgum tilfallandi samvinnuverkefnum eins og tíðkaðist til sveita.

Tryggvi hafði mikinn áhuga á búskap og þótti vænt um sinn búpening sem hann sinnti jafnan af alúð. Hann var verklaginn og vinnusamur og féll sjaldan verk úr hendi. Einnig var hann laghentur þegar kom að viðgerðum og smíðum og nýtti vel það efni sem til var hverju sinni. Tryggvi var mikill náttúruunnandi og sunnudagarnir oftast notaðir til ferðalaga með börnin á heimilinu. Hann var veðurglöggur og spáði mikið í veður og tíðarfar.

Síðustu æviár sín dvaldist hann á Hjallatúni í Vík.

Tryggvi verður jarðsunginn frá Skeiðflatarkirkju í dag, 16. mars 2013, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það er aðfangadagskvöld, pakkarnir undir trénu heilla, en samt er mesti glansinn á stórum strigapokum. Innihaldið er eitthvað sem Tryggvi frændi var búinn að vera að bauka við í kjallaranum á kvöldin og reynist vera forláta sleðar. Mikill var ákafinn, morguninn eftir, að bruna niður brekkurnar við bæinn, okkur krökkunum til mikillar gleði. Núna, áratugum seinna þegar við kveðjum okkar kæra föðurbróður, er erfitt að koma að í fáum orðum öllum þeim góðu minningum sem lifa með okkur. Rekandi félagsbú með Eyþóri og Huldu foreldrum okkar, seinna með Eyþóri og Sæunni, og búandi undir sama þaki má segja að Tryggvi hafi frekar verið aukapabbi en frændi. Hlutverk sem hann sinnti af alúð og gagnkvæmri væntumþykju. Á vorin í sauðburði var Tryggvi í essinu sínu, og voru það oft langir dagar hjá þeim bræðrum. Hann hafði yndi af því að vasast í sauðfé og þekkti allar sínar kindur. Mikið var alltaf gaman að sjá hann tölta út á túnið, kalla, og hjörðin kom hlaupandi til hans og fylgdi honum heim í fjárhús. Á sumrin voru dagarnir stundum lengi að líða þegar við röltum um túnið að raka dreifar, nokkuð sem okkur þótti tilgangslítið þá, en var einmitt gott dæmi um nýtni og hirðusemi þeirra bræðra. Svo þegar vetraði biðu nýskerptir skautarnir á snaganum. Tryggvi var þrælfimur á skautum og kom okkur á bragðið. Einn veturinn smíðaði hann skautasleða, setti á hann segl og svo var Dyrhólaósinn tekinn á meiri ferðinni. Þótt áhugi Tryggva væri flestum stundum við bústörfin gaf hann sér samt tíma til að sinna öðrum hugðarefnum; spilamennsku, lestri góðra bóka og ferðalögum. Hann smíðaði dót handa okkur krökkunum ásamt öðrum hlutum sem að gagni máttu koma við bústörfin. Ævintýralegasti smíðisgripur Tryggva var vafalaust fleyta sem hann smíðaði úr timbri og stórum plastbrúsum. Fleki þessi, sem þótti æði glannalegur, var sjósettur á lóninu fyrir neðan bæinn, en síðan á Dyrhólaós og hafði þá verið keyptur utanborðsmótor á græjuna. Næsta skref var að fara út á sjó og róa til fiskjar. Reyndist þetta hin mesta happafleyta. Seinna festu þeir bræður kaup á plastbát sem einnig var notaður í sjóróðra upp á gamla móðinn eða til skemmtisiglinga þeim og okkur til ómældrar ánægju.

Eitt af því sem stendur upp úr í minningunni um Tryggva eru allir þeir bíltúrar og ferðalög sem hann fór með okkur systkinin ásamt þeim krökkum sem voru í sveit á Skeiðflöt á hverjum tíma. Farkosturinn var gamli Gipsy og var oft þétt setinn bekkurinn. Þótt oftast væri ferðast innan sveitar tókst yfirleitt að uppgötva eitthvað nýtt í hvert skipti. Ung að árum höfðum við klifið flest markverðustu fjöllin í Mýrdalnum og kynnst allri þeirri náttúru sem sveitin hefur upp á að bjóða.

Eftir stendur minning um hógværan öðling sem var svo stór partur af okkar uppvexti og lífi, partur sem þú, elsku Tryggvi, sinntir svo vel, að það verður seint fullþakkað.

Sigurlaug Guðmundsdóttir,

Sigurður Ólafur Eyþórsson,

Halldór Ingi Eyþórsson,

Reynir Örn Eyþórsson.

mbl.is/minningar

Á kveðjustund er þungt um tungutak

og tilfinning vill ráða hugans ferðum.

Því kærum vini er sárt að sjá á bak

og sættir bjóða Drottins vilja og

gjörðum.

En Guðs er líka gleði og ævintýr

og góð hver stund er minningarnar

geyma.

Farðu vel, þér fylgir hugur hlýr

á ferð um ljóssins stig, og

þagnarheima.

(Sigurður Hansen)

Já, á kveðjustund Tryggva er okkur þungt um tungutak.

Ég þakka honum samfylgdina og bið honum Guðs blessunar.

Börnin mín og barnabörn sakna góðs vinar og kveðja hann með þökk fyrir hlýju og hugulsemi í þeirra garð.

Vertu kært kvaddur Tryggvi.

Sæunn Sigurlaugsdóttir,

Sigurlaug, Guðmundur

og Jón Þór Helgabörn.

Það er ekki hægt að segja að andlátsfregn Tryggva hafi komið manni mjög á óvart þar sem heilsu hans hafði hrakað verulega síðastliðið ár og líkamskraftar horfnir eftir langan vinnudag. Við fráfall hans koma í hugann ýmsar minningar um náinn kunningsskap þar sem hann var búinn að vera næsti nágranni allt mitt líf. Fer þeim óðum fækkandi sem hægt er að minnast með þeim hætti. Þegar Tryggvi er 18 ára gamall missir hann föður sinn á besta aldri frá stóru og góðu búi en faðir hans var á margan hátt í fararbroddi í bændastétt hér. Hlaut því Tryggvi þá þegar að gerast bóndi er var mikið færst í fang fyrir ungling en einungis voru þá á heimilinu Sigríður móðir Tryggva og Eyþór bróðir hans í æsku. Vert er að geta þess að Sigríður var búkona að eðlisfari en hafði þann annmarka frá unga aldri að búa við mjög skerta sjón er háði henni mjög.

Þótt mannafli væri ekki mikill við þessar aðstæður tekst þessum unga bónda að halda í horfinu með móður sinni og vel það. Í minni mínu man ég varla bónda er vann jafn staðfastlega við búskapinn sem Tryggvi gerði. Mátti segja að hending væri að hitta hann af bæ á sínum fyrstu búskaparárum. Mun þess nokkurt fádæmi að Tryggvi hafði aldrei stundað launaða vinnu utan heimilis nema um þriggja vikna tímabil í vinnu við strand á seinni stríðsárunum. Hins vegar var hann alltaf mjög fús að fara til sveitunganna og hjálpa þeim dag og dag er tíðkaðist er menn stóðu í uppbyggingu húsa.

Af búpeningi var Tryggvi mest fyrir fé og hélt hann þeim gamla vana að hafa fjárhúsin frekar dreifð um landið vegna beitar og hagræðingar við notkun áburðar. Ávallt var stundaður góður búskapur á Skeiðflöt og fór vaxandi er Eyþór gerðist bóndi þar síðar. Tóku þeir vélaraflið svo í sína þjónustu að það mun líka hafa verið langfyrsta býlið er ekki var til hross. Var samstarf þeirra bræðra ávallt til fyrirmyndar. Tryggvi var að eðlisfari félagslyndur og sinnti því frekar er hann var kominn í félagsbúskap, tók þátt í búnaðarfélagsstörfum og sat í nokkur ár í sveitarstjórn. Þá sótti hann sjóinn hér frá sandinum meðan það var stundað en það gerðu flestir menn á sínum yngri árum ef þeir leituðu ekki lengra til vertíðar. Var Tryggvi netfiskinn á handfæri og naut sjóferða.

Tryggvi var minnugur á það sem hann sá eða las. Var hann gagnkunnugur milli fjalls og fjöru í Mýrdalnum enda vart finnanleg sú gata sem hann hafði ekki farið á jeppanum sínum. Það kom fyrir ef Tryggvi las einhverja bók sem snart hann verulega að hann vildi endilega fá mann til að lesa hana. Lengi vel var Tryggvi mjög léttur á fæti. Ungur að árum eignaðist hann stálskauta eftir gömlu tréskautana. Þá íþrótt stundaði hann af ánægju.Var hann kominn vel yfir miðjan aldur er hann sást stíga á skauta ef færi gafst.

Tryggvi hafði þægilega nærveru, tók litlum breytingum í framkomu frá fyrstu kynnum. Þegar gamall samferðamaður er kvaddur væri hægt að hafa langt mál en fyrst og síðast ber að þakka gott nágrenni sem hér skal undirstrikað. Skeiðflatarfólki sendi ég samúðarkveðjur.

Sigþór Sigurðsson,

Litla-Hvammi.