Náttúra Þorsteinn Jóhannesson, verkfræðingur og fuglaáhugamaður ásamt eiginkonu sinni, Helgu Ingibjörgu Þorvaldsdóttur sem bjó í Héðinsfirði fyrstu átta ár ævi sinnar. Hér eru hjónin stödd á áningarplaninu í Héðinsfirði.
Náttúra Þorsteinn Jóhannesson, verkfræðingur og fuglaáhugamaður ásamt eiginkonu sinni, Helgu Ingibjörgu Þorvaldsdóttur sem bjó í Héðinsfirði fyrstu átta ár ævi sinnar. Hér eru hjónin stödd á áningarplaninu í Héðinsfirði. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
Heimir Snær Guðmundsson heimirs@mbl.is Fuglategundum sem koma upp ungum í Héðinsfirði hefur fjölgað úr 6 í 20 eftir með tilkomu nýs vegar um fjörðinn vegna Héðinsfjarðarganga.

Heimir Snær Guðmundsson

heimirs@mbl.is

Fuglategundum sem koma upp ungum í Héðinsfirði hefur fjölgað úr 6 í 20 eftir með tilkomu nýs vegar um fjörðinn vegna Héðinsfjarðarganga. Þetta hefur komið fram í athugunum Þorsteins Jóhannessonar, fuglaáhugamanns á Siglufirði, sem hefur fylgst með fuglalífi í Héðinsfirði í meira en 30 ár.

Þorsteinn segir að fyrir breytingarnar sem hafa orðið í Héðinsfirði vegna ganganna hafi lítið fuglalíf þrifist í firðinum, tófan hafi verið allsráðandi. „Það var fuglalíf þarna á vorin. En svo hreinsaði tófan allt saman. Sótti mjög í eggin og það voru því mjög fáar tegundir sem náðu að koma upp ungum,“ segir Þorsteinn sem um árabil átti sumarhús í Héðinsfirði og hefur fylgst náið með þróun fuglalífs í firðinum.

Þorsteinn segir að í aðdraganda ganganna hafi ekki verið settar fram svo alvarlegar áhyggjur vegna fuglalífs í matsskýrslum, þær hafi m.a. falist í því að vegurinn færi yfir bú- og hreiðursvæði fuglanna. Sjálfur hafi hann ekki haft áhyggjur vegna framkvæmdanna, fuglalífið hafi verið svo lítið fyrir.

Fuglalíf margfaldst

Þorsteinn segir að fljótlega eftir að framkvæmdir hófust og umferð jókst hafi fuglar tekið að sækja í að verpa nálægt veginum sem liggur um Héðinsfjörð. Strax hafi tegundum og fuglum fjölgað. Vera mannsins og framkvæmdir hafi nægt til að halda tófunni frá og fuglalíf hafi fengið að vera í friði í grennd við framkvæmdir. Fuglarnir hafi greinilega verið fljótir að lesa í ótta tófunnar og nýtt tækifærið. Eftir opnun vegarins er sama staða uppi. „Það er engu líkara en að vegurinn dragi fuglana að sér og tófan forðast að vera nálægt veginum á varptímanum, þá er nóttin björt og alltaf talsverð umferð. Fuglalífið í kjölfarið hefur margfaldast,“ segir Þorsteinn. Að hans sögn er svo komið að nú hefur þétt varp myndast á um 1 km breiðu belti báðum megin vegarins.

Eins og áður segir telst Þorsteini til að fjöldi tegunda sem koma upp ungum í nágrenni vegarins hafi fjölgað úr 6 í 20 og bætir hann við að sjö aðrar tegundir reyni varp sem tófan kemst í. Þorsteinn hefur orðið var við minnsta kosti 27 aðrar tegundir í firðinum og því hefur orðið vart við 54 fuglategundir í firðinum.

Ekki eins alls staðar

„Fuglalífið í fyrra var t.d. mjög mikið. Sérstaklega var mikið af heiðlóu, hún hefur áreiðanlega verpt víðar í firðinum en bara við veginn. Svo eru þessir nýju varpfuglar eins og spói og jaðrakan, fjöldi þeirra er töluverður,“ segir Þorsteinn um fuglalífið í fyrra. Með hliðsjón af þróun fuglalífs í Héðinsfirði með tilkomu aukinnar umferðar má velta því upp hvort líta megi til áðurnefndra áhrifaþátta við mat á áhrifum framkvæmda á fuglalíf. Þorsteinn tekur að einhverju leyti undir slíkar vangaveltur en leggur þó áherslu á að aðstæður séu mjög misjafnar á hverjum stað. „Þessar aðstæður í Héðinsfirði voru dálítið sérstakar vegna þess hve tófan var allsráðandi, það er kannski ekki alls staðar þannig,“ segir Þorstein sem vonast eftir blómlegu fuglalífi í Héðinsfirði í vor og sumar.
Fuglalíf í Héðinsfirði
» Eftir tilkomu Héðinsfjarðarganga hefur fjöldi fuglategunda sem koma upp ungum í nágrenni vegarins aukist úr 6 í 20.
» Sjö aðrar tegundir reyna varp við veginn sem tófan kemst í.
» Þorsteinn hefur orðið var við 27 aðrar misalgengar fuglategundir.