Frans Páfi í Sixtusarkapellunni.
Frans Páfi í Sixtusarkapellunni. — AFP
Talsmaður Páfagarðs neitaði í gær ásökunum um að Frans páfi hefði ekki gert nóg til að vernda tvo júsúítapresta, sem herforingjastjórnin í Argentínu lét handtaka og pynta árið 1976.

Talsmaður Páfagarðs neitaði í gær ásökunum um að Frans páfi hefði ekki gert nóg til að vernda tvo júsúítapresta, sem herforingjastjórnin í Argentínu lét handtaka og pynta árið 1976. Jorge Mario Bergoglio, fyrsti páfinn frá Suður-Ameríku, var þá yfirmaður jesúítareglunnar í Argentínu.

Um 30.000 stjórnarandstæðingar voru drepnir eða hurfu sporlaust á valdatíma herforingjastjórnarinnar á árunum 1976 til 1983. Bergoglio hafði vísað prestunum tveimur úr jesúítareglunni um viku áður en þeir hurfu, eftir að þeir höfðu gagnrýnt herforingjastjórnina. Fimm mánuðum síðar fundust þeir fáklæddir í útjaðri Buenos Aires og þeim höfðu verið byrluð lyf.

Talsmaður Páfagarðs, Federico Lombardi, sagði í gær að ásakanirnar um að Frans páfi hefði brugðist prestunum væru ærumeiðandi og kæmu frá vinstrisinnuðum andstæðingum kaþólsku kirkjunnar sem vildu koma óorði á hana. „Það hafa ekki komið fram neinar trúverðugar og raunsannar ásakanir á hendur honum. Argentínska dómskerfið hefur aldrei ákært hann,“ sagði Lombardi. Hann bætti við að Bergoglio hefði lagt „mikið af mörkum til að vernda fólk á valdatíma einræðisstjórnarinnar“. Frans páfi hefur alltaf neitað því að hann hafi tengst handtöku prestanna og kveðst hafa farið á fund leiðtoga herforingjastjórnarinnar til að biðja hann um að láta þá lausa. Hann hafi einnig hjálpað öðru fólki sem herinn ætlaði að handtaka. bogi@mbl.is