Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skúli Hansen skulih@mbl.is Enn er óvíst hvenær störfum Alþingis lýkur þrátt fyrir að þeim hafi átt að ljúka í gær samkvæmt dagskrá þingsins. Þingfundur hefur verið boðaður klukkan 10 í dag og eru þar samtals ellefu mál á dagskrá, þ. á m.

Skúli Hansen

skulih@mbl.is

Enn er óvíst hvenær störfum Alþingis lýkur þrátt fyrir að þeim hafi átt að ljúka í gær samkvæmt dagskrá þingsins. Þingfundur hefur verið boðaður klukkan 10 í dag og eru þar samtals ellefu mál á dagskrá, þ. á m. kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar, heildarlög um náttúruvernd, frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala og frumvarp um breytingar á fjölmiðlalögum.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins fóru einungis fram óformlegir fundir um stöðu þingsins í gær. Að sögn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, hefur hún boðað formenn stjórnmálaflokkanna á fund til að ræða þinglok. „Þingfundur byrjar klukkan tíu þannig að ætli það verði ekki um líkt leyti,“ segir Ásta Ragnheiður aðspurð hvenær fundur hennar með formönnunum hefjist. Þá bendir hún á að það komi í ljós á morgun hvort þingið muni funda aftur næstkomandi mánudag.

Þurfa að velja mál sem klára á

„Það sem er mest áríðandi er að við náum utan um hvaða mál það eru sem brýnt er að verði kláruð núna á vorþinginu,“ segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og bætir við: „Þá er ég ekki að tala um hvað menn telja að sé brýnt fyrir sig pólitískt heldur mál sem hægt er að rökstyðja að hafi verulega mikilvæg áhrif annað hvort til að styrkja stöðu atvinnuvega eða heimila.“

Spurður út í þingfundinn sem boðaður hefur verið í dag segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, að það hafi ekki verið rætt við framsóknarmenn um þann fund á neinn hátt, hvorki um boðun fundarins né dagskrá hans. Ekki náðist í þingflokksformenn stjórnarflokkanna við vinnslu fréttarinnar.

Funduðu um stjórnarskrána

Þingflokkur Samfylkingarinnar fundaði síðdegis í gær um stöðu stjórnarskrármálsins. Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem Morgunblaðið talaði við í gærkvöldi vildu hinsvegar ekki tjá sig um málið.