Sigraði Ólafía Björk Rafnsdóttir er nýr formaður VR.
Sigraði Ólafía Björk Rafnsdóttir er nýr formaður VR. — Ljósmynd/Aðsent
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Pétur Jónsson Þórunn Kristjánsdóttir „Ég er afar ósáttur við niðurstöðuna. Ég hefði viljað leggja mína starfskrafta undir fyrir félagið; bæði fylgja úr hlaði nýjum kjarasamningi í haust og ekki síður jafnlaunavottun VR.

Jón Pétur Jónsson

Þórunn Kristjánsdóttir

„Ég er afar ósáttur við niðurstöðuna. Ég hefði viljað leggja mína starfskrafta undir fyrir félagið; bæði fylgja úr hlaði nýjum kjarasamningi í haust og ekki síður jafnlaunavottun VR. En það þýðir víst ekki að vera bitur tapari,“ segir Stefán Einar Stefánsson, fráfarandi formaður VR, en hann var felldur í formannskjöri í gær.

Ólafía Björk Rafnsdóttir var eini mótframbjóðandinn og var kjörin formaður með 76,1% atkvæða.

„Hún tekur við endurreistu félagi. Það stendur mun betur að vígi nú en þegar ég tók við því á vordögum 2011. Ætli ég vísi ekki í orð víss manns sem sagði: Þeir njóta sjaldnast eldanna sem fyrstir kveikja þá,“ segir Stefán.

Ófrægingarhernaður DV

Aðspurður hvort hann túlki niðurstöðu kosninganna sem óánægju félagsmanna með störf hans, segir Stefán hann geti vart túlkað hana öðruvísi. Hann bætir við:

„Ég hef verið undir stanslausri ófrægingarherferð frá DV og tilteknum einstaklingum innan félagsins síðustu tvö ár. Það er hart að sitja undir því, ekki síst því að erfitt er að bera hönd fyrir höfuð sér, verandi í þessari stöðu.“

Ennfremur segir hann slæmt hvernig þeir einstaklingar sem standa í forystu og taka umdeildar ákvarðanir séu sífellt dregnir niður í svaðið í umræðunni í samfélaginu.

„Ég hefði ekki breytt neinu. Við höfum bæði aukið traust félagsmanna um 33% á þessum tíma, lækkað rekstrarkostnað skrifstofu félagsins um 40 milljónir, og fleira mætti tína til,“ segir Stefán spurður hvort hann hefði viljað breyta einhverju í sínum störfum sem formaður.

Hann óskar Ólafíu velfarnaðar í nýju starfi en segir jafnframt að hennar bíði mörg stór og afar flókin verkefni og ekki sé sjálfsagt að góð úrlausn náist í þeim málum.

Kosningaþátttaka í nýafstöðnu formannskjöri var 21,58%. Í síðustu kosningu, 2011, buðu sjö einstaklingar sig fram og Stefán hlaut 20,6% atkvæða. Þá var kosningaþátttakan 17,13%. Stefán var spurður hvers vegna hann teldi kosningaþátttökuna hafa aukist. Sagðist hann ekki geta svarað því með vissu en vísaði m.a. til pólitískra afla sem hefðu staðið þétt við bak Ólafíu.

Stefán segist ekki vera búinn að ákveða hvað taki við þegar hann lætur af formennsku. „Þessi reynsla sem ég hef aflað mér síðustu tvö ár mun nýtast mér víða. Margt hefur setið á hakanum undanfarið. Kannski ég dusti rykið af bók sem ég var byrjaður að þýða,“ segir Stefán.

Leggur áherslu á kjaramálin

„Það verður áhugavert og gaman að hitta þetta fólk, taka höndum saman og vinna góð verk,“ segir Ólafía Björk Rafnsdóttir. Hún segir að næstu skref séu að hitta nýja stjórn, starfsmenn og fara nánar yfir verkefni félagsins.

Ólafía segir aðspurð að breytingar fylgi ávallt nýjum formanni.

„Ég mun leggja fyrst og síðast áherslu á kjaramálin og í mínum huga á kjaramálasviðið að vera hjartað í VR. Það þarf að styrkja það betur – það eru jú kjarasamningar framundan – og koma með nýjar hugmyndir við það borð.“

Formannskjör VR
» Ólafía Björk Rafnsdóttir er fyrsta konan sem er kjörin formaður VR.
» Ólafía hlaut 76,1% atkvæða og felldi þar með Stefán sem er sitjandi formaður.
» Kosningaþátttaka var 21,58%.
» Kosningaþátttaka 2011 var 17,13%. Þá hlaut Stefán 20,6% atkvæða en sjö buðu sig fram.