Er líklegt að þriðji ættliður einnar helztu pólitísku höfðingjaættar landsins nái sama árangri og „utangarðsmaðurinn“ Jón Gnarr?

Sá mikli fjöldi framboða, sem er að koma fram til Alþingis í þingkosningunum í vor, á sér ekki hliðstæðu í pólitískri sögu okkar. Hann er vísbending um að stjórnmálakerfi okkar sé sjúkt. Slíkur sjúkleiki er ekki einskorðaður við Ísland. Hið sama er að gerast t.d. á Ítalíu, sem hefur leitt til þess að stjórnmálahreyfing grínistans Beppes Grillos fékk flest atkvæði í þingkosningum þar í febrúar eða um 26%.

Almenningur trúði því á fyrstu árum nýrrar aldar að ný kynslóð ungra og hámenntaðra Íslendinga kynni eitthvað, sem eldri kynslóðir hefðu ekki vald á. Til marks um það var velgengni einkavæddra banka og stórfyrirtækja. Traust fólks til þessarar kynslóðar, sem við getum kallað viðskiptaelítu, hrundi haustið 2008.

Fjöldi framboða til Alþingis í vor er vísbending um að það hafi ekki bara verið traustið til viðskiptaelítunnar sem hrundi heldur hafi traust fólks á gömlu stjórnmálaflokkunum og forystusveitum þeirra, stjórnmálaelítunni, hrunið líka.

Þetta eru ekki heimatilbúnar kenningar höfundar þessarar greinar. Á Vesturlöndum segja sumir fræðimenn, að traust fólks til bæði viðskiptaelítunnar og stjórnmálaelítunnar hafi hrunið með fjármálakreppunni, sem hófst sumarið 2007 en skall á af fullum þunga haustið 2008.

Þetta er efnislega sama skýring og Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur kom fram með í samtali við Ríkisútvarpið fyrir nokkrum dögum, þegar hún fjallaði um fjölda framboða, en í fréttum RÚV sagði:

„Hún segir að uppgjörið eftir hrun hafi fyrst og fremst beinzt að fjármálaheiminum... Ein skýringin geti verið sú, að ekkert sýnilegt uppgjör eða endurskoðun hafi farið fram innan stóru flokkanna eða fjórflokksins.“

Þeir, sem greina ekki þann vanda rétt, sem þeir standa frammi fyrir, finna heldur ekki lausn á honum. Sé það rétt að fólk hér hafi ekki bara misst traust til fjármálamanna, heldur líka stjórnmálamanna í hruninu og eftirmálum þess þýðir ekkert fyrir forystumenn gömlu flokkanna að bölsótast yfir vitlausum kjósendum. Nái þeir ekki að skilja umhverfi sitt verður þeim að lokum vísað á dyr.

Það er of mikið til í því að stjórnmálalífið á Íslandi sé sjúkt. Þetta er lokuð veröld tiltölulega fámenns hóps, sem deilir innbyrðis en getur líka talað saman og hefur m.a. náð vel saman um að tryggja eigin hag. Skilin á milli þessa hóps og þjóðarinnar mátti sjá á Austurvelli á sínum tíma, þegar alþingismenn gengu til kirkju undir lögregluvernd og girðingar höfðu verið settar upp á milli þeirra og almennings. Ein kona vildi ekki una þessari skiptingu og klifraði af sjálfsdáðum yfir girðinguna og blandaði geði við fólkið hinum megin hennar. Það var forsetafrúin Dorrit Moussaieff, sem með því sýndi meiri skilning á umhverfi sínu en þingmennirnir, hinir kjörnu fulltrúar íslenzku þjóðarinnar.

Sennilega er það nauðsynlegur þáttur í því að sprengja það stóra graftarkýli, sem stjórnmálalíf okkar þjáist af, að brjóta þennan lokaða klúbb upp.

Hvernig verður það gert?

Fyrir tæplega hálfri öld fóru fram umræður á Alþingi um þingfararkaup þingmanna, sem þóttu býsna merkilegar á þeim tíma, kannski vegna þess að höfuðpersónur umræðnanna voru tveir þaulreyndir stjórnmálamenn, Bjarni heitinn Benediktsson og Eysteinn Jónsson. Bjarni varaði við því að setja þingmenn á föst laun, sem þeir höfðu þá ekki í þeim skilningi, sem við leggjum í þau orð, og taldi að með því gæti orðið til stétt atvinnumanna í stjórnmálum. Eysteinn var á annarri skoðun.

Sjónarmið Eysteins urðu ofan á en reynslan hefur sýnt að Bjarni hafði rétt fyrir sér. Hér hefur orðið til lokaður klúbbur atvinnustjórnmálamanna, sem ráða ekki við þau verkefni, sem þeir hafa tekið að sér. Þetta finnur fólk. Hinn almenni borgari hefur svo oft rétta tilfinningu fyrir því sem er að gerast.

Með sama hætti og sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa kost á sér til endurkjörs sem forseti í fimmta sinn hefur réttilega vakið umræður um nauðsyn þess að takmarka þann árafjölda, sem sami maður geti setið á Bessastöðum, er spurning, hvort nú kunni að vera tímabært að brjóta upp hinn lokaða klúbb stjórnmálanna með því að takmarka þann fjölda kjörtímabila, sem sami maður getur setið á Alþingi, við kannski tvö og í mesta lagi þrjú kjörtímabil. Með því væri a.m.k. tryggð veruleg endurnýjun í forystusveit stjórnmálanna, sem kannski verður alltaf lokaður klúbbur með einhverjum hætti.

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, skildi og skynjaði andrúmsloftið í landinu fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Þess vegna varð velgengni Bezta flokksins svona mikil. Kjósendur treystu ekki hinum ráðandi öflum á vettvangi stjórnmálanna.

Það er svo annað mál að enn sem komið er hefur nýjum framboðum ekki tekizt að sýna fram á, að þau hafi eitthvað nýtt fram að færa. Er líklegt að Guðmundur Steingrímsson, þriðji ættliður einnar helztu pólitísku höfðingjaættar landsins, nái sama árangri og „utangarðsmaðurinn“ Jón Gnarr?

Kannski getur 76 ára gamall nýr páfi vísað nýrri kynslóð veginn. Hann hefur hingað til ferðast um í strætó og búið í lítilli íbúð í heimaborg sinni, Buenos Aires, en hafnað embættisbústað, sem hann átti rétt á.

Er auðmýkt að verða „inn“ og ráðherrabílar með bílstjórum, sem Birgitta Jónsdóttir alþingismaður skildi ekki í eldhúsdagsumræðum sl. miðvikudagskvöld að nokkrum gætu þótt eftirsóknarverðir, á útleið?

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is