Framhaldsskólanemar Mun rafrænt námsefni smám saman leysa hefðbundnar skólabækur af hólmi?
Framhaldsskólanemar Mun rafrænt námsefni smám saman leysa hefðbundnar skólabækur af hólmi? — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Notkun rafræns námsefnis á netinu er smám saman að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum, þó notkun þess sé enn takmörkuð.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Notkun rafræns námsefnis á netinu er smám saman að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum, þó notkun þess sé enn takmörkuð. Í frumvarpi um framhaldsskóla sem mennta- og menningarmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi er lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Í fyrstu verði þessi heimild veitt í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma og bundið við tilteknar námsgreinar.

Gæti minnkað bókakostnað nemenda með tíð og tíma

Eva Brá Önnudóttir, formaður Sambands íslenskra framhaldsskólanema, segir nemendur fagna því að rafrænt námsefni verði notað í meira mæli. „Það hentar mjög mörgum. Það var notað í tilraunaverkefni á vegum menntamálaráðuneytisins í kynjafræði og gekk mjög vel,“ segir hún.

„Bókakaupin í framhaldsskólum eru mjög mikil. Bækur nemenda kosta oft meira en sjálf skólagjöldin,“ segir Eva. „Það er spurning hvort þetta muni því ekki með tíð og tíma minnka kostnað nemenda.“

Eva bendir á að mjög hefur færst í vöxt að framhaldsskólanemendur séu með fartölvur í skólunum. „Þetta ætti því líka að létta á bakinu ef nemendur þurfa ekki að bera margar þungar bækur á sér.“

Nemendur framhaldsskólanna þurfa í dag að bera talsverðan kostnað vegna prentaðra námsbóka og annars námsefnis. Kemur fram í greinargerð frumvarpsins að varlega megi áætla að nemandi í fullu námi greiði 60-90 þúsund krónur á einu skólaári fyrir námsefni. Þetta svarar til þess að framhaldsskólanemendur greiði alls 1,3 til 1,9 milljarða kr. á ári fyrir námsgögn ef miðað er við að 21 þúsund nemendur séu í fullu námi.

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að útgefendur og áhugamenn um rafrænt námsefni hafa bent á að tryggja verði greiðslur fyrir rafræna efnið með öðrum hætti en almennt gerist um prentað námsefni.

„Útbreiðsla efnis á netinu sé með þeim hætti að alltaf verði auðvelt að nálgast það án þess að greiða fyrir með sama hætti og þegar prentaðar námsbækur er keyptar. Aldrei verði unnt að takmarka aðgang að rafrænu efni við þá eina sem greitt hafi fyrir það nema með mjög flóknum og dýrum aðferðum. Því verði að tryggja að þeir sem nota rafræna efnið greiði fyrir kostnað við útgáfu þess. Vandséð er að það náist öðruvísi en að skólum verði veitt heimild til að krefja nemendur um greiðslur fyrir aðgang að rafrænu efni [...].“

Ríkið á að létta undir
» Í lögum um framhaldsskóla frá 2008 segir að ár hvert skuli tilgreina þá fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna.
» Engin fjárhæð hefur enn verið veitt af fjárlögum í þessu skyni.