Bjarni Harðarson
Bjarni Harðarson
Eftir Bjarna Harðarson: "Þeir sem ætla að hafa áhrif vita sem er að leiðin liggur ekki um þingmennina sjálfa, heldur um „vinnuveitendur“ þingmannanna, stjórnmálaflokkana."

Sá mæti blaðamaður Sigurður Bogi Sævarsson skrifaði nýlega í pistli hér í Morgunblaðinu um mátt stjórnmálamanna í baráttunni við kerfið og peningaöflin. Hann tók þar dæmi af Clinton Bandaríkjaforseta og segir m.a.:

„Bill Clinton hefði eftir forsetatíð sína á margan hátt þurft að játa sig sigraðan. Ýmis mál hefðu ekki náð í gegn, sakir fyrirstöðu fjármálaafla. Máttur peninga og manna á Wall Street hafi verið meiri en Bandaríkjaforseta, þó embætti hans sé stundum sagt hið valdamesta í heimi. Hugsjónirnar náðu ekki að sigra hagsmunina. Í því ljósi er því eðlilegt að spyrja hvort stjórnmálaflokkarnir íslensku hafi einfaldlega þann styrk að geta lagt til atlögu við banka, verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina sem varið hafa verðtrygginguna af öllum mætti. Þessar stofnanir eru máttugar en hinar pólitísku hreyfingar á margan hátt veikar.“

Eins og oft áður hittir Sigurður hér naglann á höfuðið þegar kemur að vanda íslenskra stjórnmála. En það er þó ekki rétt að stofnanir stjórnmálanna séu í þessu efni of veikar. Það sem er of veikt er sjálfstæði stjórnmálamannanna sem starfa innan stjórnmálaflokkanna.

Vald til lagasetningar og framkvæmdavald er innan stjórnmálaflokkanna en því fer fjarri að stofnanir þessar séu heilbrigðar lýðræðislegar stofnanir. Innan stjórnmálaflokkanna ráða hagsmunaöfl og peningaöfl ferðinni. Fáir komast til metorða í flokkum þessum nema vera þóknanlegir valdamiklum klíkum sem starfa innan flokkanna. Flokksþing eru oftar en ekki sambland af málfundi og skrautsýningu. Þeir sem ætla að hafa áhrif á gang mála hvort sem er við lagasetningu eða stjórnvaldsaðgerðir vita sem er að skilvirkasta leiðin liggur ekki um þingmennina sjálfa, hina rétt kjörnu handhafa valdsins, heldur um „vinnuveitendur“ þingmannanna, stjórnmálaflokkana.

Birtingarmyndir þessa fyrirkomulags eru fjölmargar og þannig finnst mörgum eðlilegt að flokksbundnir menn og einkanlega hátt settir flokksmenn hafi greiðari og almennari aðgang að kjörnum fulltrúum heldur en almennir óflokksbundnir kjósendur. Þegar að er gáð er ekkert í okkar stjórnskipan sem réttlætir þannig hólfa- eða stéttaskiptingu kjósenda.

Margt af því misheppnaðasta í stjórn landsins á undanförnum árum má rekja beint til þess að þingmenn hafi með þvingunum og fortölum flokksræðisins verið sviptir sjálfstæði sínu og rétti til að fylgja eigin sannfæringu. Skýrast í þeim efnum er viðsnúningur VG-liða í ESB-máli en einkavæðing bankanna og samþykkt EES eru sama marki brennd.

Í ESB-máli yfirstandandi kjörtímabils höfum við síðan fengið að kynnast því hvernig sterkir stjórnmálaleiðtogar geta í reynd nýtt flokksstofnanir sínar til þess að losna undan óþægilegum kosningaloforðum sem gefin voru öllum kjósendum en er eftir á breytt af litlum hópi þeirra.

Núverandi kosningakerfi er mjög hliðhollt flokkakerfinu og gerir t.d. einstaklingsframboð nær ómögulegt. Ein leiðin til framfara í þessum efnum liggur því um stjórnarskrárbreytingar á kosningakerfi en mikilvægast er þó lifandi vakning almennings fyrir því að hér er pottur brotinn og réttur allra kjósenda á að vera sá sami. Við núverandi fyrirkomulag er eina leiðin út úr kerfinu að frambjóðendur bjóði fram í óháðum kosningabandalögum sem ekki mynda stjórnmálaflokk.

Höfundur er bóksali og skipar fyrsta sæti á Suðurlandslista kosningabandalags Regnbogans.

Höf.: Bjarna Harðarson