Star Wars Þau þrjú gefa tóninn fyrir forritunarkeppnina, Hjalti Magnússon og Bjarki sjá um að semja þrautirnar en á milli þeirra stendur Elísabet Jónsdóttir sem er dómari í keppninni. Verðlaun verða líka veitt fyrir búninga.
Star Wars Þau þrjú gefa tóninn fyrir forritunarkeppnina, Hjalti Magnússon og Bjarki sjá um að semja þrautirnar en á milli þeirra stendur Elísabet Jónsdóttir sem er dómari í keppninni. Verðlaun verða líka veitt fyrir búninga. — Ljósmynd/Björn Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hann er snillingur í forritun, hefur unnið forritunarkeppni framhaldsskólanna tvisvar og einu sinni lent í öðru sæti. Einnig hefur hann keppt í alþjóðlegri forritunarkeppni. Nú sér hann um að semja þrautirnar ásamt öðrum.

Hann er snillingur í forritun, hefur unnið forritunarkeppni framhaldsskólanna tvisvar og einu sinni lent í öðru sæti. Einnig hefur hann keppt í alþjóðlegri forritunarkeppni. Nú sér hann um að semja þrautirnar ásamt öðrum. Hann bregður sér stundum á hjólafák og keppir í því að stökkva himinhátt á BMX-hjóli.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það sem er frábært við forritun er að hún snýst um að leysa þraut, að finna út hvaða leiðir eru færar. Fyrst finnst manni kannski eins og það sé ekki mögulegt, en með því að prufa sig áfram nær maður á endanum að skrifa upp forrit sem virkar. Og það er mjög gefandi. Þetta er svolítið eins og að skrifa bók á mjög sérstöku tungumáli,“ segir Bjarki Ágúst Guðmundsson sem er á fyrsta ári í tölvunarstærðfræði við Háskólann í Reykjavík, en í dag stendur skólinn í tólfta sinn fyrir Forritunarkeppni framhaldsskólanna. Bjarki er einn þeirra sem sjá um að semja þrautirnar fyrir keppnina en þær eru Bjarka ekki ókunnugar, því sjálfur tók hann þrisvar þátt í forritunarkeppninni þegar hann var í framhaldsskóla. Hann vann hana tvisvar og varð einu sinni í öðru sæti.

„Þeir sem taka þátt í þessari keppni geta verið í eins til þriggja manna liðum og eiga að leysa nokkrar forritunarþrautir á sem stystum tíma og þær geta verið mjög ólíkar. Til dæmis að breyta evrum yfir í krónur, eða finna stystu leiðina frá húsinu sínu út á næsta pítsustað. Krakkar á framhaldsskólaaldri eru mörg hver afar fær í forritun, og ef við horfum til síðustu forritunarkeppni þá leystu þau mjög flóknar þrautir þar. Því miður er forritun ekki kennd að neinu ráði í neinum framhaldsskóla nema Tækniskólanum, en samt taka krakkar úr öðrum skólum þátt í kepnninni, af því þau eru sjálfmenntuð í forritun, þau prufa sig bara áfram.“

Bjarki byrjaði að prufa sig áfram í forritun þegar hann var í tíunda bekk, bjó til vefsíður og annað slíkt. „Svo settist ég á skólabekk í Tækniskólanum á tölvubraut, til að geta lært meira um forritun. Eftir að ég kláraði þar þá byrjaði ég í Háskólanum í Reykjavík í tölvunarstærðfræði síðastliðið haust og líkar mjög vel, deildin hér er frábær,“ segir Bjarki, sem er með meðaleinkunnina 9,8 eftir fyrstu önnina. „Ég fékk fyrstu önnina fría, það voru verðlaunin í forritunarkeppninni sem ég vann í fyrra. Ég var bara einn í liði, þannig að ég sat einn að vinningnum,“ segir Bjarki sem hefur áhuga á að koma sinni eigin þekkingu áfram. „Ég væri til í að vera áfram í akademísku námi og starfa innan hennar, jafnvel verða kennari. Allt er tengt forritun í dag, nánast hvað sem fólk vinnur við.“

Hann fór í vetur út fyrir landsteinana til að keppa í forritun. „Eftir að ég kom í HR fékk ég að fara á vegum skólans út til Hollands til að keppa í alþjóðlegri forritunarkeppni þar sem þátttakendur voru lið úr háskólum í Norðvestur-Evrópu. Við vorum þrír sem fórum héðan úr HR og lentum í tuttugasta og öðru sæti af áttatíu og þremur liðum. Síðan tók ég þátt í forritunarkeppni á vegum Google, sem rúmlega þrjátíu og þrjú þúsund manns tóku þátt í, og ég lenti í topp tvö þúsund. Nokkrum vikum síðar fékk ég póst frá Google þar sem mér var boðið í atvinnuviðtal. Ég ákvað að fara ekki í það, af því ég vil klára skólann fyrst. En vinur minn sem lenti líka í topp tvö þúsund í þessari keppni, hann skellti sér í atvinnuviðtal á skæpinu og hugsanlega fær hann vinnu þar í sumar.“

Bjarki segir að þeir sem hafi áhuga á forritun séu ekki endilega það sem sumir kalli tölvunörða. „Vissulega eru sumir alveg á kafi í þessu, en það eru líka margir í þessu sem eru að gera margt annað. Ætli ég sé ekki sjálfur svona miðlungstölvunörður, ég hef líka áhuga á mörgu öðru, til dæmis hjólreiðum. Ég hef verið að keppa í fjallabruni og líka því að stökkva á BMX-hjólum. Ég hjóla daglega í skólann, fram og til baka úr Garðabænum, sem er góður fimmtíu mínútna spölur hvora leið,“ segir Bjarki, sem er titlaður Jedi meistari í símaskránni og vísar það í áhuga hans á Star Wars.

FORRITUNARKEPPNI HR 2013

Metþátttaka í keppninni þetta árið

Forritunarkeppni framhaldsskólanna sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík í dag er opin öllum framhaldsskólanemum, einnig þeim sem hafa áhuga á forritun án þess þó að hafa lært hana.

Keppnin var fyrst haldin árið 2001 og hefur ásóknin aukist ár frá ári. Nú hafa 45 lið skráð sig til keppni og er það metþátttaka. Keppendur komu í gær til að fá leiðbeiningar og boli en mættu svo aftur í morgun, fengu morgunmat og hófu keppni. Keppt er í þremur deildum; Kirk-deildinni, Spock-deildinni og Scotty-deildinni. Nemendur HR ætla að vera með kynningar sem eru opnar öllum sem áhuga hafa á forritun.