Mótmæli á Austurvelli Síðustu ár hafa reynt mikið á lögregluna, enda ólgan í þjóðlífinu verið mikil.
Mótmæli á Austurvelli Síðustu ár hafa reynt mikið á lögregluna, enda ólgan í þjóðlífinu verið mikil. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Stórefla þarf lögregluna og auka framlög til hennar um 3,5 milljarða króna, umfram verðlagshækkanir fjárlaga. Þá þarf að fjölga lögreglumönnum um allt að 236, bæta menntun þeirra, þjálfun og búnað.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stórefla þarf lögregluna og auka framlög til hennar um 3,5 milljarða króna, umfram verðlagshækkanir fjárlaga. Þá þarf að fjölga lögreglumönnum um allt að 236, bæta menntun þeirra, þjálfun og búnað.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndar hagsmunaaðila og fulltrúa allra þingflokka á Alþingi sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði á grundvelli þingsályktunartillögu um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi. Var nefndinni falið að gera löggæsluáætlun fyrir Ísland og átti ráðherra að leggja tillögu til þingsályktunar á grunni hennar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. mars 2013.

Nefndin tók til starfa síðla árs 2012 og þegar ljóst þótti að tímamörkin héldu ekki var, í ljósi mikilvægis málsins, ákveðið að skila inn skýrslu sem vísi leiðina í frekari vinnu við ætlunina.

Lögreglumönnum verði fjölgað

Fram kemur í minnisblaði um skýrsluna sem Ögmundur lagði fram á ríkisstjórnarfundi í gær að nefndin hafi sammælst um eftirfarandi forgangsröðun: Að fjölga almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit og bæta nauðsynlegan búnað og þjálfun því tengdu. Fyrsta áhersla verði á að efla lögregluna utan höfuðborgarsvæðisins með áherslu á almenna löggæslu. Forgangsatriði tvö er að styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum og forgangsatriði þrjú að bæta búnað lögreglu og þjálfun lögreglumanna. Gera nefndarmenn ráð fyrir að verja þurfi um 1,1 milljarði til þess árin 2014 til 2017, eða 275 millj. á ári.

Spurður út í skýrslu nefndarinnar leggur Ögmundur áherslu á sáttina sem sé að baki markmiðunum.

Þrengingarnar að baki

„Mín fyrstu viðbrögð eru að fagna því hve víðtækur og þverpólitískur skilningur er á því að stórefla þurfi löggæsluna á nýjan leik, eftir þrengingar undangenginna niðurskurðarára. Ég er hjartanlega sammála þeim áherslum sem þarna koma fram, að það þurfi að horfa til mannfæðar löggæslu í dreifðum byggðum sem og lögreglunnar allrar í heild sinni, hvar sem er á landinu.

Þrátt fyrir þann ásetning sem þarna kemur fram ber að horfa til þess að fjárframlög til löggæslunnar, sem og ýmissa annarra mikilvægra þátta, munu á komandi misserum og árum ráðast af fjárhagsstöðu ríkissjóðs. En það breytir því ekki að þarna höfum við vissu fyrir því að það er þverpólitískur skilningur á vandanum. Þessir peningar hafa ekki verið fyrir hendi. Það er hins vegar margt sem bendir til þess að hin efnahagslega sól fari heldur rísandi og þá skapast aukið svigrúm til löggæslunnar og annarra þátta,“ segir Ögmundur.

LÖGREGLUSTJÓRI FAGNAR TILLÖGUNUM

Efla þarf lögregluskólann

„Mér er ekki kunnugt um hvaða forsendur búa þarna að baki en er hjartanlega sammála því að það er brýnt forgangsverkefni að auka framlög til lögreglu. Ef stjórnvöld eru að átta sig á því núna er það mikið fagnaðarefni. Þetta gefur okkur auðvitað miklu betri möguleika en áður að sinna þeim verkefnum sem okkur ber að sinna lögum samkvæmt og ég tala nú ekki um ef við getum farið í meira mæli í fyrirbyggjandi ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir afbrot, slys og aðrar ófarir. Það er mikilvægt verkefni hjá lögreglunni,“ segir Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í tilefni af minnisblaði starfshópsins.

Að sögn Stefáns er ljóst að efla þurfi lögregluskólann ef fjölga eigi lögreglumönnum um 236, líkt og rætt er um í minnisblaðinu. „Það eru rétt um 20 nemendur að koma út úr lögregluskólanum. Það þarf því að fara í stórátak í lögregluskólanum ef þetta á að ganga eftir. Skólinn ætti að geta brugðist hratt við ef fjárframlög fylgja.“