Hugi Hreiðarsson
Hugi Hreiðarsson
„Ég ætla ekki að rengja útreikninga FÍB. Sem betur fer er staðan þannig að það hillir undir verðlækkun. Það er og verður alltaf flökt á álagningu á eldsneyti, eðli olíuviðskipta er þannig.

„Ég ætla ekki að rengja útreikninga FÍB. Sem betur fer er staðan þannig að það hillir undir verðlækkun. Það er og verður alltaf flökt á álagningu á eldsneyti, eðli olíuviðskipta er þannig. Það má líkja þessu við línurit sjúklings á skurðarborði,“ segir Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, spurður hvort eldsneytisverð muni lækka.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda sendi frá sér tilkynningu í gær, þar sem bent var m.a. á að gengi íslensku krónunnar hefði styrkst og heimsmarkaðsverð á bensíni hefði lækkað um 15%. „En meinið er það að hvorki þessi lækkun né sterkara krónugengi er að skila sér til íslenskra neytenda.“ Ennfremur segir: Eldsneytiskostnaður heimilanna hefur vaxið langt umfram þróun verðlags á undanförnum árum. Vísitölur launa og kaupmáttar hafa ekki haldið í við verðlag frá hruni.

„Ég hef ekki séð umrædda grein og get því ekki tjáð mig því ég veit ekki hvaða útreikningar liggja á bak við þessar tölur frá FÍB,“ segir Samúel Guðmundsson, rekstrarstjóri Olís, spurður hvort Olís hyggist lækka bensínverð. Samúel ítrekaði að Olís byði viðskiptavinum sínum ávallt samkeppnishæft verð. Þá segir hann að verðið sé reglulega skoðað til að ganga úr skugga um hvort hægt sé að hækka eða lækka eldsneytisverð. Ekki náðist í Magnús Ásgeirsson hjá N1 við vinnslu fréttarinnar. thorunn@mbl.is