Samherjar Sölvi Geir Ottesen og Ragnar Sigurðsson eru samherjar hjá FC Köbenhavn og mynda væntanlega miðvarðapar Íslands í leiknum við Slóveníu. Sölvi er þó ekki í leikæfingu og hefur ekki spilað leik í langan tíma.
Samherjar Sölvi Geir Ottesen og Ragnar Sigurðsson eru samherjar hjá FC Köbenhavn og mynda væntanlega miðvarðapar Íslands í leiknum við Slóveníu. Sölvi er þó ekki í leikæfingu og hefur ekki spilað leik í langan tíma. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, valdi ekki tvo reyndustu miðverðina sem til greina komu fyrir leikinn mikilvæga gegn Slóvenum sem fram fer í Ljubljana næsta föstudag.

Fréttaskýring

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Lars Lagerbäck, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, valdi ekki tvo reyndustu miðverðina sem til greina komu fyrir leikinn mikilvæga gegn Slóvenum sem fram fer í Ljubljana næsta föstudag. Þeir Indriði Sigurðsson og Hjálmar Jónsson voru ekki valdir og ljóst er að Sölvi Geir Ottesen á að vera við hlið Ragnars Sigurðssonar í hjarta íslensku varnarinnar.

Sölvi hefur ekki verið í náðinni hjá félagi sínu, FC Köbenhavn, undanfarna mánuði og spilaði síðast með liðinu í október. Lagerbäck sagði þegar hann kynnti hópinn á fréttamannafundi í gær að hann vissi að Sölvi væri í góðri æfingu, hann byggi yfir reynslu og gott væri að hafa hann í hópnum. Það yrði síðan að koma í ljós á æfingum liðsins í Slóveníu eftir helgina hvort hann væri tilbúinn í byrjunarliðið.

Hinir valkostirnir í miðvarðastöðurnar eru Hallgrímur Jónasson og Hólmar Örn Eyjólfsson.

Ísland hefur spilað tvo vináttulandsleiki eftir að leikjatörn haustsins í undankeppni HM lauk í október. Fyrst kom 2:0 sigur gegn Andorra í nóvember og síðan 0:2 ósigur gegn Rússum á Spáni í febrúar. Lagerbäck kvaðst ánægður með varnarleikinn gegn Rússum og vonaðist til að geta byggt á honum áfram.

Fimm sem ekki voru í hópnum gegn Rússum

Hann er með fimm leikmenn í 20 manna hópi fyrir Slóveníuleikinn sem ekki voru með gegn Rússum. Það eru þeir Sölvi Geir, Hallgrímur Jónasson og Aron Einar Gunnarsson sem þá voru meiddir og Ólafur Ingi Skúlason sem dró sig út úr hópnum fyrir þann leik af persónulegum ástæðum. Loks bættist við þriðji markvörðurinn sem er Ögmundur Kristinsson úr Fram, eini nýliðinn í hópnum.

Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari landsliðsins, skýrði frá því í gær að Haraldur Björnsson, markvörður Sarpsborg í Noregi, væri frá keppni vegna meiðsla og gæti jafnvel þurft að fara í uppskurð. Hinn markvörðurinn sem spilar erlendis, Stefán Logi Magnússon, væri nýstiginn upp úr langvarandi meiðslum og rétt byrjaður að spila á ný. Ögmundur hefði hinsvegar staðið sig vel með Fram í vetur og því hefði hann verið valinn sem þriðji markvörður.

Heppnir að flestir eru fastamenn

Þeir þrír sem voru í Rússaleiknum en eru ekki valdir nú eru Hjálmar Jónsson, Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Smárason en Arnór hefur glímt við meiðsli að undanförnu.

Lagerbäck er með flesta sömu miðju- og sóknarmenn og áður. „Við erum heppnir að flestir þeirra eru fastamenn í sínum liðum og hafa spilað mikið að undanförnu,“ sagði þjálfarinn sem er með Kolbein Sigþórsson, Alfreð Finnbogason og Eið Smára Guðjohnsen sem framherja í sínum hópi og getur líka sett Gylfa Þór Sigurðsson fram. Björn Bergmann Sigurðarson er ekki tilbúinn, eins og fram kemur hér fyrir ofan, og Lagerbäck sagði að Aron Jóhannsson væri rétt að komast af stað eftir meiðsli og væri því ekki valinn núna.

Ísland er með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina í riðlinum en Slóvenar, sem ætluðu sér ekkert annað en sæti í lokakeppni HM í Brasilíu, eru aðeins með 3 stig eftir slæma byrjun. Þeir skiptu um þjálfara í vetur og eru að vissu leyti óskrifað blað fyrir vikið.

ÍSLAND MÆTIR SLÓVENÍU Í LJUBLJANA 22. MARS

Lagerbäck valdi 20 leikmenn

MARKVERÐIR:

Gunnleifur Gunnleifss, Breið. 24

Hannes Þór Halldórsson, KR 10

Ögmundur Kristinsson, Fram 0

VARNARMENN:

Birkir Már Sævarsson, Brann 33

Ragnar Sigurðsson, FCK 25

Sölvi Geir Ottesen, FCK 20

Arnór S. Aðalsteinsson, Hönefoss 12

Ari Freyr Skúlason, Sundsvall 9

Hallgrímur Jónass., SönderjyskE 6

Hólmar Örn Eyjólfsson, Bochum 1

MIÐJUMENN:

Emil Hallfreðsson, Verona 35

Aron Einar Gunnarsson, Cardiff 33

Helgi Valur Daníelsson, AIK 25

Jóhann Berg Guðmundsson, AZ 23

Birkir Bjarnason, Pescara 18

Ólafur I. Skúlason, Zulte-War. 17

Gylfi Þór Sigurðsson, Tottenham 14

SÓKNARMENN:

Eiður S.Guðjohnsen, Club Brugge 69

Kolbeinn Sigþórsson, Ajax 12

Alfreð Finnbogason, Heerenveen 12

*Þeir Grétar Rafn Steinsson, Kári Árnason og Rúrik Gíslason eru allir í leikbanni eftir að hafa fengið tvö gul spjöld hver í keppninni.