Lánsveðshópur Fulltrúar ríkisstjórnar og lífeyrissjóða vinna að lausn á skuldavanda lánsveðshóps.
Lánsveðshópur Fulltrúar ríkisstjórnar og lífeyrissjóða vinna að lausn á skuldavanda lánsveðshóps. — Morgunblaðið/Ómar
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Aukinn þungi er í viðræðum á milli fulltrúa lífeyrissjóða og ríkisstjórnarinnar um lausn á skuldavanda fólks sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveðum á árunum 2004-2008.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Aukinn þungi er í viðræðum á milli fulltrúa lífeyrissjóða og ríkisstjórnarinnar um lausn á skuldavanda fólks sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveðum á árunum 2004-2008. Eftir að viðræðurnar virtust hafa siglt í strand um miðbik síðasta árs var málið sett á oddinn að nýju undir lok ársins. Aukin bjartsýni ríkir um að lausn finnist á vanda lánsveðshóps.

Þröngar heimildir

„Við höfum fundað ítrekað að undanförnu og nú síðustu vikur hefur ríkisstjórnin lagt töluverðan þunga í þetta mál, en lausnir verða að vera innan þeirra heimilda sem lífeyrissjóðirnir starfa eftir og þær eru mjög þröngar,“ segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóðanna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er verið að skoða tvær til þrjár leiðir um lausn á vanda hópsins sem allar fela í sér að ríkið leggi til fjármuni. „Lífeyrissjóðirnir hafa alltaf verið tilbúnir til þess að koma að lausn málsins. Það hefur lengi legið fyrir,“ segir Þórey.

Lífeyrissjóðir hafa ekki heimildir til að gefa eftir eignir almennra sjóðsfélaga og hafa því lagalega ekki getað komið til móts við skuldara með lánsveð. „Lífeyrissjóðirnir eru undir ströngu eftirliti frá Fjármálaeftirlitinu og þeir sem stjórna hjá lífeyrissjóðunum geta sætt ábyrgð ef þeir fara út fyrir rammann. En við lítum svo á að lífeyrissjóðirnir geti samið um sínar eignir,“ segir Þórey.

Aukin bjartsýni á lausn

Fulltrúar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins undir forystu Steingríms J. Sigfússonar hafa farið fyrir viðræðum við Landssamtök lífeyrissjóða. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins ríkir aukin bjartsýni um að niðurstaða fáist í málinu. Vandinn liggi helst í því að finna hentugustu leiðina að skuldaniðurfellingu. Í því samhengi þurfi bæði ríki og lífeyrissjóðir að skoða hvort og þá hvaða leið sé mögulegt að fara innan þess lagaramma sem unnið er eftir. Vonir standa til þess að niðurstaða um það hvort lausn fáist í málinu liggi fyrir á næstu dögum.

Nær til 1.951 lántakanda

Sérfræðingahópur sem settur var á fót af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu kynnti niðurstöður sína í fyrra. Samkvæmt niðurstöðum hans voru í lok árs 2011 1.951 lántakandi, sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveðum á árunum 2004-2008, sem glímir við húsnæðisskuldir umfram 110% af fasteignamati. Þar af skuldar 1.541 umfram 120% af fasteignamati eignar og 540 umfram 150% af fasteignamati. Lífeyrissjóðir eru í langflestum tilfellum eigendur þeirra krafna sem eru á bak við lánsveðin en bankar eru það einnig í einhverjum tilfellum.