Ásgerður Jónsdóttir fæddist á Gautlöndum í Mývatnssveit 29. maí 1919. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í Reykjavík 18. febrúar 2013.

Minningarathöfn um Ásgerði var í Neskirkju 28. febrúar 2013 en útför hennar var gerð frá Skútustaðakirkju í Mývatnssveit 1. mars 2013.

Við kynntumst Ásgerði við ólíkar aðstæður og á ólíkum tímum. Höskuldur kynntist henni fyrst þegar hún hljóp í skarðið í forföllum kennarans og skólastjórans í barnaskólanum á Skútustöðum fyrir bráðum 60 árum. Þá hafði hún litla eða enga kennarareynslu og þurfti skyndilega að taka að sér að kenna allar greinar. Ekki varð vart við að henni yxi það í augum. Hún var greinilega það sem nú er stundum kallað orkubolti, en það orð var líklega ekki til þá og ekki heldur víst að það hefði fallið í strangan málsmekk Ásgerðar. Hún kenndi t.d. stærðfræði, íslensku (líklega fyrsti málfræðikennari Höskuldar) og dans. Það voru engin hljómflutningstæki til í skólanum svo Ásgerður varð bara að syngja danslögin sjálf meðan hún kenndi sporin. Ekkert mál, þótt hún hafi kannski verið orðin svolítið andstutt í fjörugustu lögunum. Þegar kennslu var lokið fór hún svo oft með krakkana í gönguferðir, stundum langar, eða tók þátt í útileikjum með þeim. Orkubolti.

Um 20 árum síðar urðu hún og Sigga samkennarar í Varmárskóla í Mosfellssveit, en í millitíðinni hafði Ásgerður lokið kennaraprófi frá Kennaraskólanum. Þetta voru tímar breytinga og nýjunga, ný kennslutæki voru að ryðja sér til rúms og kennurum buðust ýmiss konar námskeið. Eins og nærri má geta voru þeir misduglegir við að sækja þessi námskeið og tileinka sér nýjungar. En Ásgerður sótti öll námskeið sem buðust og hikaði ekki við að nýta sér þá nýju tækni sem var í boði eða taka að sér kennslu í nýjum námsgreinum, svo sem eðlisfræði eða nýju stærðfræðinni svokölluðu. Samt verður varla sagt að hún hafi verið nýjungagjörn í eðli sínu. En það sópaði að henni sem kennara, bæði í kennslustofunni og á kennarastofunni. Hún vakti líka athygli þegar hún kom brunandi á bílnum sínum neðan úr bæ með gulu sólgleraugun. Orkubolti.

Við minnumst hennar með þakklæti. Það var gaman að kynnast henni.

Höskuldur Þráinsson

og Sigríður Magnúsdóttir.