Verk Deilt var um réttindi erlendra starfsmanna í Kárahnjúkavirkjun.
Verk Deilt var um réttindi erlendra starfsmanna í Kárahnjúkavirkjun. — Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Verði frumvarp velferðarráðherra um breytingu á lögum um starfsmannaleigur að lögum á tryggja að starfsmenn starfsmannaleigna njóti sambærilegra starfskjara og aðrir launamenn, geti t.a.m. fengið álagsgreiðslur og uppbætur.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Verði frumvarp velferðarráðherra um breytingu á lögum um starfsmannaleigur að lögum á tryggja að starfsmenn starfsmannaleigna njóti sambærilegra starfskjara og aðrir launamenn, geti t.a.m. fengið álagsgreiðslur og uppbætur. Útrýma á ef kostur er félagslegum undirboðum sem stunduð voru á uppgangstímanum þar sem starfsmenn starfsmannaleigna fengu ekki greidd samsvarandi laun og aðrir starfsmenn.

Þverpólitísk samstaða

Samkvæmt upplýsingum Alþýðusambands Íslands í gær er fastlega búist við að frumvarpið verði meðal þeirra mála sem lögfest verða fyrir þingfrestun, enda virðist vera þverpólitísk samstaða um málið.

Í nýju nefndaráliti velferðarnefndar segir að um mikilvægar breytingar sé að ræða og með lögfestingu þeirra sé lokað fyrir

glufur í lögum um starfsmannaleigur frá 2005 og jafnframt staðið við alþjóðlegar skuldbindingar. Fulltrúar allra flokka í velferðarnefnd standa að nefndarálitinu.

Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um að starfsmaður starfsmannaleigu skuli að lágmarki njóta sömu launa

og annarra starfskjara og hann hefði ella notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækis. Þá ber starfsmannaleigum að leitast við að greiða fyrir aðgangi starfsmanna sinna að starfsmenntun og starfsþjálfun.

Starfsmennirnir sem um ræðir hafa til að mynda ekki notið margs konar kaupaukakerfa og yfirborgana sem viðgangast á vinnumarkaðinum.

Með lögfestingu breytinganna eiga þeir framvegis að njóta sömu kjara og annarra réttinda eins og þegar um beint ráðningarsamband er að ræða, óháð því hvort það byggist á kjarasamningi, vinnustaðasamningi eða ef um yfirborganir innan fyrirtækja er að ræða o.s.frv.

Samiðn hefur lýst því yfir að mjög brýnt sé að ekki verði frekari dráttur á að núgildandi lög verði aðlöguð að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um starfsmannaleigur.

Í umsögn Samiðnar við frumvarpið er á það bent að alþekkt er á íslenskum vinnumarkaði að mikill munur er á umsömdum launatöxtum

og starfskjörum sem um semst milli starfsmanna og einstakra fyrirtækja, svo kölluð markaðslaun. Taka verði af allan vafa um að starfsmaður starfsmannaleigu skuli í öllum tilfellum njóta sömu starfskjara og hefði hann verið ráðinn beint.