Dr. Haraldur Matthíasson fæddist að Háholti í Gnúpverjahreppi 16.3. 1908. Foreldrar hans voru Matthías Jónsson, b. á Fossi í Hrunamannahreppi, og k.h., Jóhanna Bjarnadóttir. Föðurbróðir Haraldar var Vilhjálmur, faðir Manfreðs arkitekts.

Dr. Haraldur Matthíasson fæddist að Háholti í Gnúpverjahreppi 16.3. 1908. Foreldrar hans voru Matthías Jónsson, b. á Fossi í Hrunamannahreppi, og k.h., Jóhanna Bjarnadóttir. Föðurbróðir Haraldar var Vilhjálmur, faðir Manfreðs arkitekts. Matthías var sonur Jóns, b. á Skarði Jónssonar, og Steinunnar, systur Rósu, langömmu Alfreðs Flóka.

Jóhanna var dóttir Bjarna, b. í Glóru Jónssonar, og Guðlaugar Loftsdóttur, b. í Austurhlíð Eiríkssonar, ættföður Reykjaættar Vigfússonar.

Eiginkona Haraldar var Kristín Sigríður Ólafsdóttir, f. 16.4. 1912. Þau hjónin voru afar samhent, enda bæði mikið áhugafólk um útiveru og ferðalög. Meðal barna þeirra er Ólafur Örn, fyrrv. alþm., faðir Haraldar Arnar, pólfara og fjallagarps.

Haraldur lauk kennaraprófi 1930, stúdentsprófi frá MR 1948, cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá HÍ 1951 og doktorsprófi þaðan 1959 fyrir rit sitt Setningaform og stíll.

Haraldur var búsettur á Stöng á Laugarvatni frá 1951, var kennari við Héraðsskólann 1951-55 og við ML 1951-82 og svo sannarlega einn dáðasti kennari þar um slóðir.

Haraldur var einstaklega fjölfróður, lagði stund á rannsóknir og ritstörf á sviði málfræði, íslenskra þjóðhátta og staðfræði Íslendingasagna. Hann samdi m.a. bækurnar Landið og landnáma, Perlur málsins og Þingrofið, 14. apríl 1931. Þá þýddi hann ritið Íslenskir sögustaðir eftir Kristian Kålund, vann að heimildarkvikmyndum um íslenska þjóðfræði, skrifaði margar af Árbókum Ferðafélags Íslands og var fararstjóri í ferðum þess í þrjá áratugi og heiðursfélagi þess.

Haraldur lést á Þorláksmessu 1999. Eiginkona hans, Kristín Sigríður, sem ferðast hafði með honum vítt og breitt um landið um áratuga skeið, lést sex dögum síðar. Þau voru jarðsett saman og þegar 100 ár voru frá fæðingu hans, afhjúpuðu börn þeirra og niðjar legstein á leiði þeirra austur á Laugarvatni. Þar má lesa eftirfarandi ljóðlínur úr Ferðalokum eftir Jónas Hallgrímsson: „En anda, sem unnast, fær aldregi eilífð að skilið.“