Björn Valur og Skúli reiddu hátt til höggs, sem er slæmt þegar geigar

Þeir höfðu lítið upp úr leikriti sínu í vikunni, heiðursmennirnir Björn Valur Gíslason og Skúli Helgason. Báðir fóru þeir mikinn á þingi og sökuðu annan þingmann um „rógburð og haugalygi“ og að „grafalvarlegt“ væri að leggja gestum þingnefnda orð í munn.

Með þessu átti að sanna að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði farið rangt með þegar hann upplýsti að gestir efnahags- og viðskiptanefndar teldu skattkerfið orðið svo flókið að það væri vandamál í sjálfu sér og að þeir teldu að margir litu svo á að skattar væru orðnir svo háir að það réttlætti að borga þá ekki.

Björn Valur og Skúli kusu að finna leið til að túlka orð Guðlaugs Þórs á annan veg en þau höfðu verið sögð og bjuggu sér til útúrsnúning sem varla þætti boðlegur í yngstu bekkjum grunnskóla.

En upp úr krafsinu höfðu þeir ekki annað en það, sem útúrsnúningurinn hafði átt að breiða yfir, að gestur þingnefndarinnar, ríkisskattstjóri, staðfesti allt það sem Guðlaugur Þór hafði haldið fram.

Ríkisskattstjóri staðfesti að skattskil hefðu versnað og vísbendingar væru um aukin skattundanskot. Freisting til undanskota hefði aukist með hækkandi skatthlutföllum og gjaldendur sem hefðu skotið sér undan skatti gæfu að jafnaði einmitt þá skýringu.

Ríkisskattstjóri tók ennfremur undir að skattkerfið hefði verið flækt á síðustu árum með nýrri lagasetningu og að hann teldi ástæðu til að einfalda kerfið.

Ætli Björn Valur Gíslason og Skúli Helgason sjái nokkuð athugavert við framgöngu sína í þessu máli eða biðjist afsökunar? Sennilega ekki, sem gerir hlut þeirra enn verri.