Karlinn á Laugaveginum er ennþá í Hveragerði og liggur vel á honum, segist hafa lést um tvö kíló, enda sé dagskráin ströng og fæðan holl: Það er auðvitað auðskilið mál að ál vil ég fremur en stál, – en auk þess ég get þess ég et ekki ket heldur...

Karlinn á Laugaveginum er ennþá í Hveragerði og liggur vel á honum, segist hafa lést um tvö kíló, enda sé dagskráin ströng og fæðan holl:

Það er auðvitað auðskilið mál

að ál vil ég fremur en stál,

– en auk þess ég get

þess ég et ekki ket

heldur agúrkur, baunir og kál.

Bjarney Jónsdóttir hringdi í Morgunblaðið og vildi koma að leiðréttingu á vísu úr Líkafróns rímum Sigurðar Breiðfjörð, enda þótti henni byrjun vísunnar óskiljanleg eins og hún birtist, en hún var tekin upp úr Bragfræði síra Helga Sigurðssonar. Þar er fyrri helmingurinn svona: „Rifin allra´ og ötuð föt/sá á þeim konum“, en Bjarney lærði vísuna þannig:

Rifin öll og ötuð föt

eru á þeim konum,

huldu varla götin göt

á garmskinnonum.

En þannig er lausavísan, þegar hún kemst á flug. Hver og einn fer með hana eins og honum þykir fara best í munni, – sem auðvitað staðfestir að lausavísan er lifandi skáldskapur.

Þessar stökur eru í mansöng rímunnar:

Vona ég stöku málið mitt

í margra hljóðum

hafi vökur stundum stytt

hjá stúlkum góðum.

Hvort sem núna heppnast mér

að hýrga kvendi,

bráins dúna blíðum grér

þá braginn sendi.

Ef að meta meyjar hljóð

og meiðma hauður,

ef eg get þá yrki eg ljóðin

allt, eins dauður.

Sögur áður frá því fóru,

frægða iðnir,

í haugnum kváðu og kátir vóru

kappar liðnir

En af því heimi aftur fer

og ýmsra gæfa,

dauðum gleymist má ske mér

þá mennt að æfa.

Ungur hét eg oft á fljóð

í yndis fundum,

meðan ég get að gala ljóð

og gefa sprundum.

Í Lestrarbók Sigurðar Nordals eru þessar stökur eftir Sigurð Breiðfjörð:

Prestar hinum heimi frá

hulda dóma segja.

En skyldi þeim ekki bregða í brá

blessuðum, nær þeir deyja?

Mundum vér ei þora þá

í þeirra húspostillum

auðmjúklega að eftirsjá

ýmsum pennavillum?

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is