Undir drekahöfðum Óskar Guðmundson stendur í dyrum nýrrar sýningar um Snorra Sturluson í Reykholti.
Undir drekahöfðum Óskar Guðmundson stendur í dyrum nýrrar sýningar um Snorra Sturluson í Reykholti. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Sýning um Snorra á hvergi betur heima en hér. Það skapast sérstök nánd fyrir gesti að koma á staðinn og rifja upp atburði úr ævi Snorra sem gerast hér á staðnum og jafnvel sjá ummerki í landinu.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Sýning um Snorra á hvergi betur heima en hér. Það skapast sérstök nánd fyrir gesti að koma á staðinn og rifja upp atburði úr ævi Snorra sem gerast hér á staðnum og jafnvel sjá ummerki í landinu. Hér talar allt einni tungu,“ segir Óskar Guðmundsson rithöfundur sem er höfundur nýrrar sýningar um ævi Snorra Sturlusonar í Snorrastofu í Reykholti. Sýningin sem nefnist einfaldlega Saga Snorra verður opnuð með athöfn í dag.

Farið er í gegnum ævi Snorra og teknir sérstaklega fyrir nokkrir atburðir á hans dögum og áhrif hans á menningu Norður-Evrópu. Óskar segir að tilgangurinn sé að vekja áhuga nútímafólks á Snorra og arfleifð hans. Unnt er að fara um líf hans á nokkrum mínútum en einnig dýpra í ýmsa þætti og verja til þess klukkustundum og jafnvel dögum með aðstoð spjaldtölva.

Vígásar til verndar

Gestir komast í vébönd sýningarinnar með því að ganga undir fagurlega útskorna og fjörlega málaða vígása. Höfundar þeirra sækja hugmyndir sínar til miðalda. Óskar segir að dyraumbúnaðurinn sé liður í því að sýna litauðgi miðalda. Vígásar eru tré sem ætlað er að varna ófriðarmönnum inngöngu í hús. Þeir koma fyrir í sögunum en er ekki lýst. Ein frásögnin tengist Snorra í Reykholti beint. Innheimtumenn hans gátu ekki gengið eftir fornu fémáli á Stað í Hrútafirði vegna þess að þar voru vígásar í durum.

Á sýningunni eru fáeinir munir úr fornleifauppgreftri í forna kirkjustæðinu í Reykholti. Það er gler og leir frá þeim stöðum í Evrópu sem slíkt gerðu best. Munirnir láta ekki mikið yfir sér en Óskar vekur athygli á að þeir gefi til kynna glæsileik og evrópsk tengsl. „Við vorum í Evrópusambandinu í vissum skilningi. Ég segi þetta ekki aðeins af því að ég er krati,“ segir Óskar. Hann útskýrir þessi orð með því að nefna tengslin í gegn um kaþólsku kirkjuna. Vegna hennar hafi leiðir okkar legið til Niðaróss og Rómar. Þá hafi Íslendingar í raun verið í konungssambandi við Noreg og höfðingjar hér barist um hylli konungs í innanlandsátökum. Loks getur hann um sameiginlegt tungumál og menningu sem Íslendingar áttu með Norðmönnum og fleiri norrænum þjóðum við strendur Evrópu.

ÓSKAR GUÐMUNDSSON HEFUR UNNIÐ LENGI VIÐ SNORRA

Allir miðlar þrengja að mér

„Öll miðlun er sköpun í sjálfu sér en mér finnst allir miðlar þrengja að mér,“ segir Óskar þegar hann er spurður að því hvort ekki sé kærkomið fyrir fræðimanninn og rithöfundinn að fá tækifæri til að miðla þekkingu úr margra ára vinnu við Snorra með því að setja upp sýningu um ævi hans. „Ég vil alltaf segja miklu meira en ég get, hvort heldur er í bók eða sýningu. Ég er rétt að byrja að miðla Snorra Sturlusyni og langar að sjá hann í allskonar formi, til dæmis í kvikmyndum og sjónvarpi.

Ævisaga Óskars um Snorra kom út 2009 og hann hefur síðan haldið áfram að vinna við efnið.