<strong>Lofoten í Noregi</strong> Fiskveiðar og ferðaþjónusta eru mikilvægar atvinnugreinar í Lofoten. Þær greinar vilja ekki fá olíuvinnslu á svæðið.
Lofoten í Noregi Fiskveiðar og ferðaþjónusta eru mikilvægar atvinnugreinar í Lofoten. Þær greinar vilja ekki fá olíuvinnslu á svæðið. — Morgunblaðið/Guðni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Tekist er á um hvort leyfa eigi olíu- og gasvinnslu á fengsælum fiskimiðum við Lofoten, Vesterålen og Senja í Norður-Noregi. Andstæðingar olíu- og gasvinnslu þar benda m.a.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Tekist er á um hvort leyfa eigi olíu- og gasvinnslu á fengsælum fiskimiðum við Lofoten, Vesterålen og Senja í Norður-Noregi. Andstæðingar olíu- og gasvinnslu þar benda m.a. á að olíuslys geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir viðkvæma náttúru svæðisins. Mikil náttúrufegurð dregur þangað fjölda ferðamanna, þar eru einnig fengsæl fiskimið og mikilvægt hrygningarsvæði. Norsku sjómannasamtökin hafa lýst eindreginni andstöðu við olíu- og gasvinnslu þarna og sama gildir um náttúruverndarsamtök. Andstæðingarnir benda m.a. á að fiskurinn sé endurnýjanleg auðlind en olían ekki.

Fylgismenn olíuvinnslu segja hins vegar að þetta svæði sé ekki frábrugðið öðrum olíuvinnslusvæðum á norska landgrunninu hvað varði hættu á olíuslysum. Þeir benda á stífar öryggiskröfur og eftirlit með olíuvinnslunni. Einnig að búið sé að gera þarna hljóðbylgjumælingar og viðamiklar rannsóknir. Niðurstöður þeirra benda til þess að þarna geti verið allt að 1,3 milljarðar tunna af olíuígildum að verðmæti um 500 milljarðar norskra króna. Olíuiðnaðurinn knýr á um að svæðið verði opnað fyrir starfsemi olíufélaga.

Meirihluti á þingi með nýtingu

Þingkosningar verða í Noregi í september n.k.. Rauðgræn ríkisstjórn hefur setið í Noregi frá 2005 undir forsæti Jens Stoltenbergs. Að henni standa Verkamannaflokkurinn, Sósíalíski vinstriflokkurinn og Miðflokkurinn. Þeir hafa hver sína stefnu varðandi olíuvinnslu.

Verkamannaflokkurinn gerði samkomulag við samstarfsflokka sína árið 2011 um að ekki yrði hafin olíuvinnsla við Lofoten, Vesterålen og Senja á yfirstandandi kjörtímabili. Sósíalíski vinstriflokkurinn leit á það sem sigur fyrir náttúruvernd.

Norskir fréttamiðlar greindu frá því í vetur að meirihluti væri fyrir því í málefnanefnd Verkamannaflokksins að opna hafsvæðin utan við Lofoten fyrir umhverfismati vegna olíuleitar. Jens Stoltenberg forsætisráðherra hefur lýst yfir stuðningi við þau áform. Tillögur málefnanefndarinnar verða ræddar á landsfundi í apríl n.k. þar sem kosningastefnuskrá flokksins verður mótuð.

Helga Pedersen, varaformaður Verkamannaflokksins, hefur sagt að ákvörðun um olíuvinnslu verði tekin þegar mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Hún viðurkennir að yfirleitt leiði slíkt mat til tilraunaborana.

Vilja koma í veg fyrir vinnslu

Björn Kjensli er formaður mótmælendahreyfingarinnar Folkeaksjonen oljefritt Lofoten, Vesterålen og Senja. Hann hélt fyrirlestur á námskeiði Norræna blaðamannaklúbbsins í N-Noregi í síðustu viku.

„Markmið okkar er einfalt, það er að koma í veg fyrir að dýrmæt og viðkvæm hafsvæði við Lofoten, Vesterålen og Senja verði opnuð fyrir olíu- og gasvinnslu,“ sagði Kjensli. Hann sagði að stríðið stæði aðeins um þessi umræddu svæði. Sjálfur kvaðst hann hafa verið fylgjandi olíuvinnslu á öðrum svæðum.

Kjensli telur að olíuvinnslan á svæðinu verði kosningamál í haust. Hann rakti hvað það er sem gerir svæðið svo einstakt og dýrmætt.

„Það er einkar ríkt að náttúruauðlindum, sérstaklega dýrmætt og afskaplega afkastamikið. Lofoten og Vesterålen eru einstök svæði á heimsvísu,“ sagði Kjensli. Kaldavatnskóralrifin eru mjög stór og þarna hrygnir einn stærsti þorskstofn í heiminum og fleiri fisktegundir eins og ýsa og síld. Sjórinn er einkar næringarríkur. Þarna eru einhverjar stærstu sjófuglabyggðir í Vestur-Evrópu.

Kjensli sagði að fiskveiðarnar væru mjög mikilvægar og sjómennirnir vörðu tekjum sínum að mestu á svæðinu. Olíuiðnaðurinn ver hins vegar miklu af tekjum sínum utanlands.

Kjensli benti á að landgrunnið væri einkar mjótt utan við Lofoten og Vesterålen. Fiskveiðin færi þar fram á litlu svæði og olíuiðnaðurinn vildi inn á sama svæði. Þarna eru sterkir straumar og sagði Kjensli að aðstæður yllu því að ekki dugi að hafa 500 metra öryggissvæði í kringum olíuborpalla eins og í Norðursjó. Þau þurfi frekar að vera 10-12 km til að tryggja að tími gefist til að bregðast við verði slys. Það þýði að ekki verði pláss fyrir fiskveiðar hefjist þarna olíuvinnsla.

Skilar sér mest utan svæðisins

Kjensli varpaði einnig fram þeirri spurningu hvort þörf sé á olíu og gasi af þessu svæði. Hann sagði áætlanir gera ráð fyrir að olían sem finnist við Lofoten, Vesterålen og Senja samsvari einungis ellefu mánaða framleiðslu Noregs af olíuígildum.

Hann sagði að ferðaþjónustan vilji ekki fá landtökumannvirki fyrir olíu á svæðið, hún vilji frekar að það verði skráð á heimsminjaskrá.

Kjensli sagði að olíuvinnsla á þessu svæði myndi vissulega skila tekjum í opinbera sjóði Noregs, sem væru svo stútfullir af peningum fyrir að menn viti varla hvernig eigi að verja þeim. Aukin olíuumsvif í Norður-Noregi muni skila sér í Ósló, Stavanger og Bergen en minnst í Norður-Noregi.

Í skýrslu olíu- og orkumálaráðuneytisins um olíuvinnslu á svæðinu og kynnt var í haust sé talað um að olíuvinnslan geti skapað 37.000 störf á landsvísu þegar umsvifin verða í hámarki. Á svæðinu sjálfu munu skapast að meðaltali um 1.100 störf við mestu umsvif og u.þ.b. 400 störf við lítil umsvif.

Kjensli benti á að ekki væri vinnuafl á svæðinu til að mæta aukinni eftirspurn yrði farið út í olíuvinnslu. Hann vildi fá annars konar atvinnuuppbyggingu á svæðinu sem ógnaði ekki sérstöðu svæðisins. Kjensli sagði að með olíuvinnslu gæti skapast gullgrafarastemning um skamman tíma en þegar upp yrði staðið að 30-40 árum liðnum væri hætt við að svæðið yrði mun fátæklegra. Hann vildi frekar byggja á þeim styrkleikum sem fyrir eru. Olíuvinnslan geti haldið áfram á sömu svæðum og nú við Noregsstrendur og í Barentshafi.

Olíuiðnaðurinn vill nýta svæðið

Vinnsla olíu og gass er stærsta atvinnugrein Noregs með tilliti til verðmætasköpunar, tekjusköpunar fyrir ríkið og útflutningsverðmætis. Um 43.000 manns starfa við greinina og afleidd störf eru meira en 200.000 talsins.

Roger Pedersen er yfirmaður upplýsingamála hjá Norsk olje & gass, hagsmunasamtökum fyrirtækja í olíuvinnslu á norska landgrunninu. Í þeim eru um 50 olíufélög sem vinna olíu og um 50 birgjar fyrir iðnaðinn.

Pedersen sagði að yfirvöld hefðu sett olíuiðnaðinum strangar öryggis- og umhverfiskröfur og að hann væri undir ströngu eftirliti.

„Það verður að tilkynna ef maður missir niður olíu úr einni fötu. Eins ef einhver klemmir fingur, þá verður að tilkynna það,“ sagði Pedersen.

Búið var að gera umhverfismat og opna hluta af vinnslusvæði sem nefnist Nordland VI og er suðvestan við syðsta hluta Lofoten. Það var opnað þegar árið 1994 og boranir hafnar þegar norsk stjórnvöld lokuðu svæðinu árið 2001 fyrir frekari olíuleit. Nordland VI þykir lofa góðu og talið er að þar sé að finna allt að 43% olíu- og gaslinda undir hafsbotninum við Lofoten, Vesterålen og Senja, að því er fram kom í Teknisk Ukeblad.

Umtalsverðar auðlindir

Pedersen sagði að þingmeirihluti hefði verið í norska stórþinginu fyrir olíuborunum á þessu svæði á núverandi og undanförnum kjörtímabilum. Minnihluti í ríkisstjórn hefði getað komið í veg fyrir framkvæmdir. Hann sagði að Norsk olje & gass teldi niðurstöður skýrslunnar um áhrif olíustarfsemi í norðausturhluta Noregshafs, sem kynnt var í nóvember sl., sýna greinilega að enginn munur væri hvað varðar öryggismál eða umhverfismál á svæðunum við Lofoten, Vesterålen og Senja og annars staðar á norska landgrunninu. Hann sagði engan vafa leika á að þarna væru umtalsverðar olíu- og gaslindir.

Pedersen sagði að ekki þyrfti að vera árekstur á milli fiskveiða og olíuvinnslu. Hættan á olíuslysi væri mjög lítil. Búið er að gera hljóðbylgjumælingar á svæðinu og engin þörf á að endurtaka þær.

„Fjörutíu ára reynsla okkar á norska landgrunninu sýnir að við getum komist að skynsamlegu samkomulagi við fiskveiðarnar,“ sagði Pedersen. Hann sagði vandann vera þann að fiskimennirnir á svæðinu vildu ekki ræða við olíuiðnaðinn um hvernig væri hægt að komast að lausn.

Norska ríkisstjórnin hefur sett fram þau markmið að vinnsla olíu og gass verði stunduð til langs tíma. Til þess að þessar auðlindir skili jöfnum og góðum arði telur ríkisstjórnin að leggja beri áherslu á þrjú atriði.

Í fyrsta lagi að auka vinnslu úr svæðum sem þegar er verið að nýta og byggja upp olíu- og gaslindir sem borga sig í rekstri. Í öðru lagi að halda áfram að rannsaka betur svæði sem búið er að opna og finna þar meiri olíu og gas.

Í þriðja lagi að ljúka opnunarferlinu fyrir Jan Mayen-svæðið og suðausturhluta Barentshafsins, sem geta lagt grunninn að nýjum efnahagsumsvifum í Norður-Noregi.