Sverrir fæddist á Ásmundarstöðum á Melrakkasléttu 5. mars 1926. Hann lést á öldrunardeild Sjúkrahússins á Ísafiði 8. mars 2013.

Hann var sjöunda barn af tíu börnum hjónanna Sigríðar Jónsdóttur frá Ásmundarstöðum, f. 1891, d. 1982, og Sigurðar Guðmundssonar frá Grjótnesi, f. 1883, d. 1963. Sverrir var ókvæntur og barnlaus.

Systkini hans: Tvíburasystur, andvana fæddar 1913, Jón, f. 1915, d. 1938, Jóhanna, f. 1918, d. 2001, Guðmundur, f. 1920, d. 1942, Gunnhildur, f. 1923, hennar maður var Árni Jónsson, hann er látinn, þau eiga fimm börn. Jakobína Sigurveig, f. 1928, eiginmaður Eiríkur Eiríksson, þau eiga þau einn son. Vilborg Guðrún, f. 1931, eiginmaður Óskar Árni Mar, þau eiga tvö börn, Björn Stefán, f. 1934, d. 1982.

Sverrir var frá unga aldri bóndi á Ásmundarstöðum og bjó með Jóhönnu systur sinni eftir andlát móður þeirra og einn eftir andlát Jóhönnu. Hann veiktist af krabbameini 2004 og brá þá fljótlega búi og árið 2006 keypti hann sér íbúð á Hlíf, íbúðum aldraðra á Ísafirði. Þar naut hann sín vel og tók þátt í öllu félagslífi sem var í boði.

Útför Sverris fer fram frá Raufarhafnarkirkju í dag, 16. mars 2013, kl. 14.

„Alveg sérstaklega gott“ sagði Sverrir með mikilli áherslu á sérstaklega ef honum þótti eitthvað mjög gott. Sverrir var alveg sérstaklega góður maður og það voru forréttindi að hafa fengið að kynnast honum. Hann var móðurbróðir mannsins míns og var bóndi á ættaróðalinu þar sem maðurinn minn var í sveit öll sumur til fullorðinsára. Það voru því mörg sumur sem við fórum á Sléttuna í sumarfríum og reynt að stilla tímann í kringum æðarvarpið ýmist til að ganga varpið eða aðstoða við dúnhreinsun.

Sverrir var ekki margmáll um eigin hagi en hafði gaman af að segja sögur enda mjög fróður og ótrúlega minnugur.

Sverrir veiktist af krabbameini snemma árs 2004 og þá um haustið hætti hann búskap. Hann fór þá að vera hjá Vilborgu systur sinni og Óskari í Reykjavík og hjá okkur Sigga vestur á Ísafirði yfir háveturinn. Fyrir sjö árum keypti Sverrir sér íbúð á Hlíf, íbúðum fyrir eldri borgara á Ísafirði, þar sem hann undi hag sínum mjög vel og tók þátt í öllu því félagslífi sem honum stóð til boða. Hann veiktist aftur haustið 2011 og vistaðist í framhaldi af því á öldrunardeild Sjúkrahússins á Ísafirði þar sem hann náði nokkuð góðum bata og naut góðrar umönnunar starfsfólksins þar, sem ég færi sérstaklega góðar þakkir fyrir.

Með kærri þökk fyrir góð kynni.

Guðný Hólmgeirsdóttir.