Það er ein frétt, alltaf ein frétt, sem gleður Víkverja mest af öllum; það er koma heiðlóunnar til landsins.

Það er ein frétt, alltaf ein frétt, sem gleður Víkverja mest af öllum; það er koma heiðlóunnar til landsins. Þrátt fyrir þá vitneskju, að þegar lóan hverfur á braut á haustin komi hún ávallt aftur, þá leyfir Víkverji sér að gleðjast eins og barn á jólum við fregnirnar. Vorboðinn ljúfi snertir strengi og fyllir lífið af vonum og væntingum, áður en við er litið verða komin blóm í haga – sannið til.

Lóan fær alltaf sitt rými í fjölmiðlum og er það vel. Samdægurs og fréttist af lóunni hér á klakanum hlýddi Víkverji á þáttastjórnendur Virkra morgna, þau Gunnu Dís og Andra Frey. Þau spurðu fuglafræðing spjörunum úr; allt sem maður vildi vita en hefur kannski ekki leitað svara við. Andri spurði einmitt, hvort fólk í Hollandi kallaði á eftir lóunni: Nei, sjáið þarna er íslenska lóan! Fuglasérfræðingurinn tók nú ekki alveg undir þá fullyrðingu. Spánverjar fá víst ekki þennan vorfíling við að heyra í lóunni heldur setur fremur að þeim kuldahrollur því þegar hún birtist þá er víst að koma haust. Víkverji fræddist einnig um hætti lóunnar, sem komu honum ekki á óvart. Þar kom fram að lóan verpir oftast á svipuðum slóðum. En unga kynslóðin – lóur sem eru nýkomnar af kynþroskaskeiðinu – eru áræðnari en fyrri kynslóðir. Þær leggja nefnilega land undir fót og nema stundum ný lönd eins og Færeyjar, Noreg og önnur skemmtileg lönd. Ekki ósvipað okkur tvífætlingunum.

Þó svo að dirrindíið fái fljótlega að klingja í eyrum Víkverja, veit hann af fenginni reynslu, að hann þorir ekki að fullyrða að vorið sé nú komið. Sem sannast best á því að þegar Víkverji hóf þessi skrif var snjólaust en nú er allt hvítt. Þrátt fyrir að lóan litla, sem fregnir bárust af í ljós- og prentvakamiðlum í upphafi vikunnar, hafi hugsanlega haft hér vetursetu og aldrei flogið suður á bóginn þá skiptir það í raun litlu máli. Því vissan um vorið sem lóan færir okkur er nóg fyrir Víkverja – í bili að minnsta kosti.