Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Mér varð hugsað til vökumannsins vaska, Árna frænda míns Helgasonar. Honum hefði í bezta falli þótt þessar samþykktir grátt gaman hjá sínu fólki, nær væri að segja að honum hefði þótt slíkt forkastanlegt."

Það leitar oft á hugann, hversu takmörkuð umræðan er um þá miklu vá sem af áfenginu stafar, en því þakklátari verð þegar ég sé rökum þrungnar greinar eins og grein Árna Gunnlaugssonar lögmanns á dögunum sem dregur fram bitrar staðreyndir um leið og aðvaranir eru settar fram gegn frekari afslætti í þessum málum. Betur að fleiri skrifuðu svo beinskeytttar og ígrundaðar greinar. Alltof oft gleymist þáttur áfengisins í umræðunni um vímuefnin, jafnvel að hinni alltof ríku hlutdeild sé gleymt með öllu. Ástæðan raunar einföld sem á hefur margsinnis verið bent, sem sagt sú staðreynd að neytendur áfengis sem margir hverjir berja sér á brjóst í hneykslun á hinum ólöglegu efnum veigra sér við að nefna áfengið, hinn mikilvirkasta skaðvald sem og þann sem upphafinu á annarri neyzlu veldur nær alltaf. Mannlegt máske en ekki stórmannlegt. Alltof oft er maður þó minntur á þau mein sem áfengið veldur, allt yfir í slökktan lífsneista sem of margar minningargreinar tjá skýrast og er þó aðeins toppur ísjakans.

Í framhaldi af furðulegum samþykktum á landsfundi stærsta stjórnmálaflokksins, samþykktum sem eru bindandi fyrir flokksmenn hafi ég skilið þau furðufræði rétt, reit Árni Matthíasson mikla ágætis grein í Morgunblaðið þar sem hann tíundaði augljósar afleiðingar þessara samþykkta ef framkvæmdar yrðu. Samþykktin um að selja áfengi við hliðina á mjólkinni í matvörubúðum svo dæmi sé tekið gengur nefnilega þvert á það sem virtustu heilbrigðisstofnanir alþjóðasamfélagsins hafa ítrekað gjört samþykktir um þar sem við auknu aðgengi að áfengi er varað sterklega. Árni tekur sannanlegt dæmi um bjórinn þegar hann var leyfður og afleiðingar þess: tvöföldun áfengisneyzlu þjóðarinnar á nokkrum árum og var hún þó talsverð fyrir með sínum ófyrirsjáanlegu afleiðingum. Lækkun áfengiskaupaaldurs er annað skýrt dæmi sem WHO varar einnig við og ef menn skyldu ekki vita eða vilja vita fyrir hvað þessi erlenda skammstöfun stendur þá er hér um að ræða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina sem byggir álit sitt á óyggjandi staðreyndum, en um það hafa þessir ágætu landsfundarfulltrúar greinilega aldrei heyrt eða séð. Mér varð hugsað til vökumannsins vaska, Árna frænda míns Helgasonar, sem alltaf sótti landsfundi þessa flokks.

Honum hefði í bezta falli þótt þessar samþykktir grátt gaman hjá sínu fólki, nær væri að segja að honum hefði þótt slíkt forkastanlegt. Kannski hefði þetta ekki náð samþykki, ef aðvörunarrödd Árna hefði enn mátt hljóma á þessari samkundu. Varla hefur þó ástæðan verið sú að menn á þeim bæ hafi hugsað til annars hugsjónamáls sem þó hlaut ekki náð, sem sé þetta um kristilegu gildin sem öll löggjöf ætti að taka mið af, enda kannski ekki auðvelt að koma þessu tvennu saman eða hvað.

Ég hefi hér minnt á þrjá Árna sem allir hafa sannleiksorð mælt um áfengið, tveir þeirra enn á foldu og er það vel ef á væri hlustað. Við í Bindindissamtökunum fögnum því þegar heilbrigðar skoðanir eru viðraðar með glöggum rökum jafnt nú sem fyrr, þegar Árni frændi skrifaði sína pistla ótölulega um sannleika áfengismálanna. Við vonum það eitt að samþykktir stærsta flokks þjóðarinnar verði þó bara til heimabrúks, en verði aldrei að veruleika hjá íslenzkri þjóð.

Höfundur er formaður fjölmiðlanefndar IOGT.

Höf.: Helga Seljan