Snjallsími 4G stendur fyrir fjórðu kynslóð af farsímaneti en tæknin býður upp á hraðari gagnaflutninga um þráðlaust net og jafnast á við ljósleiðara.
Snjallsími 4G stendur fyrir fjórðu kynslóð af farsímaneti en tæknin býður upp á hraðari gagnaflutninga um þráðlaust net og jafnast á við ljósleiðara. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Fjarskiptafyrirtækin eru í startholunum til að innleiða fjórðu kynslóð farsímanetkerfa, svonefnt 4G-kerfi.

Fréttaskýring

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Fjarskiptafyrirtækin eru í startholunum til að innleiða fjórðu kynslóð farsímanetkerfa, svonefnt 4G-kerfi. Uppboði Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á tíðniheimildum fyrir 4G-þjónustuna lauk á miðvikudag og fengu fjögur fyrirtæki úthlutað tíðnisviðum. Þau eru 365 miðlar ehf., Fjarskipti hf. sem á Vodafone, Nova ehf. og Síminn hf.

Fjölmiðlafyrirtækið 365 fékk tíðniheimild A en henni fylgir skuldbinding til að byggja upp 4G farnet sem nái til 99,5% íbúa á hverju landsvæði. Þeirri uppbyggingu á að vera lokið fyrir árslok 2016.

4G kerfið er fyrst og fremst hannað með gagnaflutning í huga en ekki sem hefðbundið símkerfi þó hægt sé að veita símaþjónustu í gegnum það. Tæknin býður upp á meiri hraða en núverandi kerfi en það styður gagnaflutningahraða yfir 100 megabæt á sekúndu sem er sambærilegt við flutningsgetu ljósleiðara. Þetta er mikilvægt þar sem gert er ráð fyrir því að gagnaflutningar um snjallsíma og önnur þráðlaus tæki í gegnum Netið eigi eftir að aukast á næstu árum.

Samkvæmt skilyrðum uppboðsins á flutningsgetan að vera orðin 10 Mb/s fyrir lok árs 2016 og stigaukast í kjölfarið. Hún eigi að vera orðin 30 Mb/s í lok árs 2020. Fyrir utan aukinn flutningshraða styttist biðtími eftir tengingu með nýju tækninni.

Sjónvarps- og netpakkar?

365 hefur hingað til verið þekkt sem fjölmiðlafyrirtæki en það stefnir nú að því að hasla sér völl á fjarskiptamarkaðnum. Að sögn Ara Edwald, forstjóra fyrirtækisins, er enn ekki búið að útlista nákvæmlega hvernig nýja kerfið verður byggt upp. Hann vill ekki gefa upp hver áætlaður kostnaður við uppbygginguna er en ítarlegar áætlanir hafi verið gerðar og skilað til PFS í tengslum við uppboðið.

Þá liggur ekki ljóst fyrir hvenær 365 getur byrjað að bjóða upp á 4G-þjónustuna en Ari gerir ráð fyrir að það verði hægt að hluta til fyrir árið 2016. Ekki hefur heldur verið skoðað ofan í kjölinn hvort samstarf verði haft við símafélögin um uppbyggingu kerfisins.

Ari nefnir möguleikann á því að 365 geti í framtíðinni boðið viðskiptavinum sínum upp á pakka sem blandi saman áskrift að sjónvarpsstöðvum og netþjónustu líkt og til dæmis Sky á Bretlandi geri.

„Það er klárlega hlutur sem við munum horfa til hvort sem það net byggist á dreifikerfi sem við byggjum upp sjálf eða í samstarfi við aðra.“

Samkvæmt upplýsingum frá Vodafone mun fyrirtækið bjóða upp á 4G þjónustu þegar á þessu ári. Það verði hins vegar nokkurra ára verkefni að byggja upp kerfið en til lengri tíma nái það væntanlega til alls landsins.

Nova hefur haft tilraunaleyfi fyrir 4G netþjónustu frá haustinu 2011 en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu fyrirtækisins má búast við að í upphafi verði 4G þjónusta þess fyrst og fremst netþjónusta. Kerfið verði byggt upp í áföngum en fyrsti áfanginn er höfuðborgarsvæðið.

Síminn segir sína 4G þjónustu verða komna upp þegar líða fer á árið. Áherslan verði á höfuðborgarsvæðið og valin svæði á landsbyggðinni til að byrja með.

TÆKI SEM STYÐJA 4G

Fjölgar ört á næstunni

Afar fá tæki styðja 4G tæknina enn sem komið er en það mun breytast hratt að sögn Magnúsar Andréssonar, innkaupastjóra Vodafone. Nú styðji snjallsímar á borð við Nokia Lumia 920, iPhone 5 og nýjusta útgáfa LG nýja farsímanetið. Þá styðji Samsung Galaxy S4, sem kynntur var í vikunni, það einnig.

„Þessum tækjum mun fjölga hratt og þau verða fljótlega orðin staðalbúnaður í öflugri tækjum,“ segir hann.

Björgvin Þór Björgvinsson hjá epli.is segir að auk iPhone 5, styðji iPad mini og iPad 4 sem seldur er í versluninni þær tíðnir sem boðnar voru upp hér á landi.