Gunnlaugur Tobíasson fæddist í Geldingaholti í Seyluhreppi í Skagafirði, 29. janúar 1950. Hann lést á Landspítalanum 5. mars 2013.

Foreldrar hans voru Tobías Sigurjónsson bóndi í Geldingaholti í Skagafirði, f. 10. október 1897, d. 23. ágúst 1973, og Kristín Gunnlaugsdóttir frá Ytri-Kotum í Norðurárdal í Skagafirði, f. 7. september 1912, d. 9. febrúar 2002. Systkini Gunnlaugs eru Guðmann, f. 29. apríl 1935, d. 4. júní 2012, Brynleifur, f. 20. janúar 1937, d. 2. nóvember 2006, Jófríður, f. 4. september 1939, Sigurjón, f. 8. d esember 1944 og Hjördís Jónína, f. 10. desember 1956.

5. júlí 1980 giftist Gunnlaugur Gerði Hauksdóttur, f. 10. maí 1949. Gerður er dóttir Hauks Arnars Bogasonar, f. 21. nóvember 1919, d. 11. febrúar 2012, og Þuríðar Helgadóttur, f. 30. júní 1915, d. 14. apríl 1979. Þau skildu. Sonur Gunnlaugs og Gerðar er Jóhann, f. 11. apríl 1981. Sambýliskona hans er Eva Dögg Bergþórsdóttir, f. 28. júní 1985, þau eiga soninn Ísak Hrafn, f. 25. mars 2011. Dóttir Gerðar og fósturdóttir Gunnlaugs er Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, f. 18. febrúar 1977. Dóttir hennar er Kristín Björg Emanúelsdóttir, f. 29. ágúst 2003. Barnsfaðir Sigurlaugar Dóru er Emanúel Þorleifsson, f. 3. desember 1974.

Gunnlaugur stundaði nám við Bændaskólann að Hólum í Hjaltadal 1967-1969 og lauk þaðan búfræðiprófi. Í uppvexti vann hann að bústörfum í Geldingaholti. Á yngri árum vann hann einnig við skógrækt og sjósókn á vetrarvertíðum á Suðurnesjum. Gunnlaugur lauk frjótæknanámi og starfaði sem frjótæknir frá árinu 1979 til ársins 2008 þegar hann lét af störfum vegna veikinda. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á flugi og lauk m.a. einkaflugmannsprófi. Gunnlaugur hafði mikla ánægju af því að ferðast og fór víða innan lands sem utan með fjölskyldu sinni og vinum. Hann var virkur í félagsmálum og starfaði meðal annars með Lionsklúbbi Skagafjarðar, Veiðifélagi Húseyjarkvíslar og sat í sóknarnefnd Glaumbæjarkirkju um árabil. Gunnlaugur starfaði lengi að öryggis- og björgunarmálum með Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 16. mars 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Með þessum orðum langar mig að kveðja pabba minn. Það er svo ótal margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka um tímann sem við fengum saman, það sem er mér þó efst í huga er þakklæti fyrir hversu lánsöm ég hef verið í lífinu að fá að alast upp sem dóttir hans. Ég var þriggja ára þegar þau giftu sig og sá dagur gleymist seint en fall er fararheill, ekki satt? Sennilega eru ekki margir sem hafa eytt brúðkaupsnóttinni á FSA með handleggsbrotið barn. Hjónaband þeirra var sterkt og fallegt því þau voru ekki bara hjón heldur líka vinir og gátu tekið á öllum vandamálum og veikindum saman af ótrúlegu æðruleysi. Allar þær endalausu góðu minningar sem ég á eru alltof margar til að rúmast hér en eiga eftir að vera ljós í myrkri og styrkja mig við að læra að lifa með því að pabbi er ekki lengur hjá okkur. Þegar ég var lítil áttum við m.a. góðar stundir í fjárhúsunum og einnig var spennandi að fara með honum í vinnuna út um allar sveitir. Mamma og pabbi ferðuðust mikið með okkur systkinin þegar við vorum yngri bæði innanlands sem utan og það eru dýrmætar minningar. Einnig eigum við Kristín Björg líka góðar minningar frá ferðalögum með pabba. Margar góðar minningar eru líka bara frá eldhúsborðinu í sveitinni, bæði var pabbi snilldarkokkur og áttum við oft gott spjall þar. Það er mér afar kært að hafa átt yndisleg jól með pabba í sveitinni í fyrra og geta haft bæði pabba og mömmu þar heima á aðfangadagskvöld var klárlega besta jólagjöfin. Pabbi var maður sem reddaði öllu og stóð með manni í blíðu og stríðu og það er virkilega skrýtið að geta ekki gripið símann og slegið á þráðinn til hans. Hann var líka vatnsberi eins og ég og það kom fyrir að mamma vorkenndi sér yfir að þurfa búa með tveimur vatnsberum. Eftir að pabbi veiktist árið 2006 hef ég reynt eins vel og ég get að standa eins og klettur við hlið hans, í dag er ég þakklát fyrir að hafa ákveðið að læra og vinna sem sjúkraliði. Ég dáist að því hversu sterkur pabbi var og mikið hörkutól í baráttunni við þennan erfiða sjúkdóm sem nú er lokið. Komið er að erfiðri kveðjustund þar sem við stöndum eftir með tómarúm í hjarta og skarð í fjölskyldunni. Ég er þakklát fyrir að hafa getað verið hjá honum síðustu dagana sem hann lifði.

Öllu því starfsfólki innan heilbrigðisgeirans sem hefur veitt pabba góða umönnun í veikindum hans sendi ég mínar bestu þakkir. Einnig mínar bestu þakkir til fjölskyldu, vina og vinnufélaga sem hafa staðið með okkur í blíðu og stríðu.

Að lokum vil ég þakka þér, elsku pabbi minn, allar stundirnar sem við áttum saman og alla þá ást, tryggð og vináttu sem þú gafst mér og hvað þú varst mér góður pabbi og dóttur minni góður afi. Innst inni veit ég að þú varst hvíldinni feginn þó að þú hafir verið tekinn frá okkur alltof snemma. Guð geymi þig þar til við hittumst á ný og byggjum saman nýjar vatnsberaskýjaborgir.

Elsku mamma og aðrir aðstandendur, við kveðjum pabba eftir erfið veikindi en minning hans lifir áfram í hjörtum okkar allra.

Þín dóttir

Sigurlaug Dóra (Lulla).

Með þessum orðum langar mig að kveðja afa minn og þakka fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við vorum góð saman og gerðum svo margt skemmtilegt saman. Afi minn gaf mér fyrsta lambið mitt, hana Kjömmu mína, þegar ég var lítill og alltaf var jafn gaman að fara með honum í fjárhúsin. Ég var ekki nema eins og hálfs árs þegar afi var að kenna mér að halda á stjörnuljósi og við áttum margar góðar stundir með stjörnuljósum og sprengjum um áramót.

Þegar ég bjó í Svíþjóð fannst mér svo æðislegt þegar amma og afi komu í heimsókn þegar ég átti þriggja ára afmæli. Sama ár þegar jólapakkinn frá ykkur týndist var ég orðin yfir mig spennt að bíða eftir honum, því ég var búin að hringja í afa og semja um að hann setti kókómjólk og púkanammi í hann líka. Stundum fórum við saman í leikhús sem okkur fannst báðum gaman og líka ferðin okkar í skemmtigarðinn fyrir síðustu jól. Við elskuðum bæði að fara í ferðalög sérstaklega þegar við vorum á bláa húsbílnum sem afi átti.

Á afmælisdaginn minn þegar ég var sjö ára var besta afmælisgjöfin mín að aðgerðin á afa gekk vel. Það var gaman að fara í búðina með afa og oft keyptum við kannski aðeins of mikið bland í poka, eða það fannst mömmu að minnsta kosti en ekki okkur. Helgina áður en afi kvaddi lágum við saman í rúminu hans afa á sjúkrahúsinu og áttum við góða stund saman, borðuðum ís og ég var að kenna afa á nýja gsm-símann hans.

Elsku afi, ég á eftir að sakna þín svo mikið og það er mjög erfitt að skilja það að þú fékkst ekki að vera lengur hjá okkur. Ég vona að þér líði vel núna og langamma og langafi taki á móti þér hjá Guði þar til við hittumst aftur seinna. Ég lofa að vera dugleg að gæta ömmu fyrir þig og ég er þakklát fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, þær mun ég geyma áfram í hjarta mínu.

Knús og kossar.

Þín besta afastelpa,

Kristín Björg.