María Bender fæddist á Djúpavogi 27. júlí 1930. Hún lést 19. febrúar 2013 á 83.

aldursári.

Útför Maríu fór fram frá Neskirkju 26. febrúar 2013.

Í byrjun desember sátum við amma uppi á Nesveginum og skoðuðum saman gamlar myndir, þar á meðal var mynd af okkur tveimur saman þegar ég var sennilega um tveggja ára gamall. Ánægjan skein greinilega úr augunum á litla drengnum sem átti alltaf öruggt skjól í fanginu á ömmu sinni. Á meðan við skoðuðum myndina þá strauk strauk amma allt í einu blítt um kinnina á mér og sagði: „Litli strákurinn hennar ömmu sinnar“ þótt ég sé nú að verða fertugur þá bráðnaði ég auðvitað jafn auðveldlega og litli strákurinn á myndinni. En svona var hún amma, alltaf svo góð.

Þessa stund er ég búinn að hugsa stöðugt um síðustu daga. Hefði ég vitað að þetta yrði eitt af okkar síðustu samtölum þá hefði ég sjálfsagt reynt að segja eitthvað, en ég gat ekki gert neitt annað en að brosa. Amma mín mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu, minningarnar eru óteljandi. Ég verð alltaf þakklátur fyrir stundirnar sem við áttum saman en ég vildi óska að þær hefðu orðið bara örlítið fleiri. Ég held ég að ég hafi átt bestu ömmu í heimi, en það segja það eflaust allir um ömmur sínar, það er eitthvað sérstakt við ömmur. Sé eitthvað gott að finna í mér þá kemur það að stórum hluta frá henni ömmu minni. Það er mín stóra lukka í lífinu að hafa fengið að kynnast henni ömmu og læra af henni og ég er betri maður fyrir vikið. Okkur eftirkomendum hennar þarf aldrei að verða villugjarnt ef við bara rifjum upp og munum eftir þeirri góðmennsku og hlýju sem amma sýndi öllu samferðafólki sínu. Þótt söknuðurinn sé næstum óbærilegur og missirinn mikill hjá okkur sem fengum að kynnast henni náið, þá er missirinn kannski enn meiri hjá þeim sem aldrei fá að kynnast þessari yndislegu konu, en það er okkar að halda minningunni lifandi. Ég mun aldrei gleyma henni ömmu minni.

Theodór.

Ég minnist þín, elsku amma, með mikilli hlýju. Margar góðar minningar rifjast upp og þá sérstaklega um jólaboðin sem voru haldin hvert ár á jóladag á Nesveginum. Það var alltaf mikil tilhlökkun að eyða þessum degi hjá ömmu og afa. Amma í eldhúsinu, ilmur af aspassúpu og hangikjöti tók á móti manni og svo var það Snjólfur kisi undir jólatrénu. Held að þetta hafi verið einn dekraðasti kisi á landinu enda varð hann langlífur, því amma sá til að hann fengi soðna ýsu á hverjum degi og ef mig minnir rétt þá fékk hann eitthvert spes kisukex ofan á fiskinn. Þetta er bara lýsandi dæmi um hana ömmu Mæju eins og við systkinin kölluðum hana. Hún hugsaði afar vel um sína.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og

geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma

kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Anna María.