Ellingsen Í húsinu sem áður hýsti verslun Ellingsens verður opnað norðurljósasetur í byrjun sumars.
Ellingsen Í húsinu sem áður hýsti verslun Ellingsens verður opnað norðurljósasetur í byrjun sumars. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is „Þetta lítur bara mjög vel út hjá okkur, öll ljós alveg skínandi græn.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

„Þetta lítur bara mjög vel út hjá okkur, öll ljós alveg skínandi græn. Við stefnum að því að opna um miðjan maí,“ segir Hörður Finnbogason, ferðamálafræðingur og einn stofnenda Norðurljósasetursins „Aurora Reykjavík“.

„Það er allt að smella hjá okkur, við erum byrjaðir að smíða og búnir að landa samningi við mjög stóran ferðaþjónustuaðila. Við vitum auðvitað að það er engin upplifun sambærileg við það að sjá norðurljós með berum augum, en veðuraðstæður eru oft þannig á Íslandi að það er hreinlega ekki hægt að sjá þau, auk þess sem þau sjást náttúrlega aldrei á sumrin. Hjá okkur fær fólk líka mjög góðar upplýsingar um hvað norðurljós eru, hvers vegna þau myndast og slíkt,“ segir Hörður.

Norðurljósadans á myndbandi

Að sögn Harðar verður húsnæðinu skipt í nokkra hluta. Í aðalsalnum mun ganga myndband af dansandi norðurljósum allan daginn, en salurinn verður lítillega kældur.

„Svo er sögusafnið að flytja úr Perlunni yfir í Allianz-húsið hérna við hliðina á okkur. Ég heyrði því líka kastað að aðsókn að Sjóminjasafninu Vík hérna við hliðina á okkur hefði aukist um þriðjung milli áranna 2011 og 2012. Við bindum því miklar vonir við að hér verði áframhaldandi lausaferðamennska, þar sem fólk röltir um milli safna. Þetta gæti því orðið dálítill ferðaþjónustukjarni hérna við höfnina. Eins og margoft hefur fram komið undanfarnar vikur stefnir í gríðarlega aukningu ferðamanna til landsins. Við, eins og aðrir í þessum geira, bindum vonir við að þær spár rætist,“ segir Hörður.

„Auk þess að vera með myndband af norðurljósunum þá verðum við í samstarfi við einhverja fremstu norðurljósaljósmyndara landsins. Í minjagripaversluninni okkar, sem verður meira eins og setustofa umkringd af verslun, ætlum við að hafa standandi ljósmyndasýningu,“ segir Hörður.

EINS OG AÐ STANDA ÚTI OG HORFA Á NORÐURLJÓSIN

Kældur sýningarsalur

Hörður segir að aðalsýningarsalurinn í Norðurljósasetrinu verði kældur örlítið niður fyrir eðlilegan stofuhita. Tilgangurinn með því er að auka á upplifun gestanna og gera hana eins raunverulega og hægt er innandyra.

„Með því ætlum við að gera upplifunina af því að horfa á norðurljós innandyra á myndbandi eins líka alvöru upplifuninni úti í náttúrunni og hægt er. Maður finnur fyrir því um leið þegar maður gengur inn í herbergi sem er aðeins kaldara en það sem maður var í. Auk þess verður dimmt inni í sýningarsalnum,“ segir Hörður.

Norðurljósasetrið verður opnað um miðjan maímánuð, og stendur til að hafa opið frá 10-22 alla daga.