Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist reikna með því að fyrirtækið komi með 40 milljónir dollara á ári til landsins eða fimm milljarða króna til að fjármagna rannsóknir sínar.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist reikna með því að fyrirtækið komi með 40 milljónir dollara á ári til landsins eða fimm milljarða króna til að fjármagna rannsóknir sínar. Peningarnir séu til að mynda nýttir til að kaupa ýmiskonar búnað. Hann segir erfitt að slá því föstu hve lengi þessi háttur verði hafður á en sér fyrir sér að svona verði þetta næstu tíu árin.

Lyfjarisinn Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu í desember fyrir 415 milljónir dollara eða 52 milljarða króna. Eigendur fyrirtækisins voru þá að mestu erlendir. Á þeim tíma var sagt að yfirtakan leiddi til þess að fjármögnun fyrirtækisins væri tryggð um fyrirsjáanlega framtíð. Kári segir að hér séu væntanlega á ferð jákvæðustu tíðindin úr íslensku efnahagslífi eftir hrun.

Íslensk erfðagreining kom með 580 milljónir króna til landsins í febrúar í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Sú leið veitir 20% afslátt á krónukaupum fyrir erlenda mynt ef fjárfest er hér til lengri tíma.

5,5 milljarðar í fyrra
» Íslensk erfðagreining kom með 5,5 milljarða króna til landsins á síðasta ári í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Sú leið veitir 20% afslátt af krónukaupum.