Sigríður Salvarsdóttir fæddist í Reykjarfirði við Djúp 17. maí 1925. Hún andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 1. mars 2013.

Útför Sigríðar fór fram frá Ögurkirkju 9. mars 2013.

Ég er einn þeirra fjölmörgu sem báru gæfu til að kynnast Siggu í Vigur, en hún var vinmörg og vinsæl meðal þeirra sem þekktu hana.

Sigga var gift Baldri móðurbróður mínum og hjá þeim og Birni móðurbróður mínum í Vigur naut ég sumardvalar hvert sumar frá fæðingu og fram á unglingsár. Auk þess fóstraði Sigga mig tvo veturparta þegar ég var á barnsaldri, meðan móðir mín stundaði nám erlendis. Sigga hafði stundum á orði að þá hefði hún komist næst því að eiga tvíbura, því ég og Salli sonur hennar og Baldurs vorum jafnaldrar og fór frá upphafi vel á með okkur. Það var ekki ónýtt að eiga Siggu að þegar söknuður eftir mömmu gerði vart við sig hjá barninu, svo hjartahlý og velviljuð manneskja sem hún var.

Sigga var glaðlynd og gædd sjaldgæfri góðlátlegri kerskni sem alltaf var stutt í hjá henni, en var ávallt svo fínleg að aldrei meiddi, heldur dró hún með henni fram spaugilegu hliðarnar á lífinu og tilverunni. Það gat þó tekið í hnúkana þegar hún þurfti að siða okkur til, krakkaskarann, því skaplaus var hún ekki, en aldrei langrækin og jafnan fljót til fyrri hátta með glaðværð og góðsemi.

Sigga var örlát og gestrisin svo sem hæfði húsfreyju í Vigur og kunni vel þá list að taka á móti gestum, hvort sem voru frændur eða ferðamenn sem leið áttu um Djúpið. Ég minnist þess að það var oft glatt á hjalla í Grænustofunni í Vigurbænum þegar gesti bar að garði og þá var Sigga í essinu sínu því hún var mannblendin og félagslynd, en eyjan úr alfaraleið svo oft gat liðið langt á milli heimsókna, sérstaklega yfir vetrartímann.

Vigurheimilinu, hvort sem var fjölskylda hennar eða fólk sem dvaldi um lengri eða skemmri tíma í Vigur, sinnti hún af stakri natni og rausnarskap svo öllum leið þar vel, þótt oft væri æði mannmargt á bænum og að mörgu að hyggja til að heimilislífið gengi snurðulaust fyrir sig.

Sigga var listfeng og mikill fagurkeri og á efri árum, þegar synir þeirra Baldurs höfðu tekið við búi í Vigur, hafði Sigga meiri tíma til að sinna sínum áhugamálum sem voru fjölmörg og nægir þar að nefna listhandverk sem nú er aðeins á færi örfárra; listaverk sem hún skapaði úr mannshári. Á þessum árum hafði hún líka meiri tíma til að setjast niður og spjalla um heima og geima, hvort sem var í eldhúsinu á Vigurbænum eða gestastofunni í Viktoríuhúsi, og man ég ófáar slíkar setur með henni þar sem hún sagði skemmtilega frá fólki og atburðum liðins tíma.

Þakklæti fyrir góða samferð er mér efst í huga þegar ég minnist Siggu nú við hennar ferðalok. Öllum hennar stóra ættboga sendi ég samúðarkveðjur, en veit að ykkur er eins innanbrjósts og mér.

Bjarni Lárusson.

Nú er skammt stórra högga á milli í Ögurhreppi enda flest fólk hér orðið háaldrað. Manni finnst sjónarsviptir að öllum sem fara þótt háaldraðir séu en líka gleðst maður yfir því að fólk sem er búið á sál og líkama fái hina langþráðu hvíld.

Sigga Salvars þráði hvíldina. Nú er hún komin til eiginmanns síns, hans Baldurs. Þau skilja eftir sig hóp af mannvænlegum börnum og góðar minningar hjá þeim sem eftir lifa.

Ég ætla nú ekki að hafa þetta neina langloku, aðeins þakklætisvott til þeirra hjóna. Að hafa fengið að kynnast þeim er ómetanlegt; myndarskapnum og gestrisninni sem er og hefur verið í hávegum höfð í Vigur svo lengi sem ég man.

Hálfum mánuði áður en Baldur heitinn lést (í júlí 1998) komu þau hjónin í heimsókn til mín. Baldur hafði haft það á orði lengi að þau langaði svo til að sjá fram í Efstadal einhvern tíma. Þá var kominn þangað vegarslóði en aðeins fær jeppum. Mér þótti leiðinlegt að eiga ekki bíl sem hægt væri að komast þetta á en hér var þá staddur Höskuldur dýralæknir sem bauðst til að skutla okkur frameftir. Það varð úr og varð þetta skemmtilegur dagur. Ég á margar myndir úr þessum leiðangri okkar, þær geyma minningarnar.

Þetta var í eina skiptið sem ég man eftir að Sigga kæmi hingað en Baldur kom á hverju ári því hann var forðagæslumaður hér í sveit í mörg ár. Í þessari einu ferð Siggu og síðustu ferð Baldurs færðu þau mér viðurkenningarskjal. Eins og áður sagði lést Baldur hálfum mánuði síðar og ferðir Siggu urðu ekki fleiri hingað, þessi dagur er eftirminnilegur í mínum huga, það var eins og þau hefðu komið til að kveðja.

Það sem alltaf hefur einkennt Vigurfólkið er framkoman; þetta hlýja og elskulega viðmót sem ekki er öllum gefið að sýna. Síðast þegar ég hitti Siggu var ég á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og hún á Hlíf. Þá áttum við góða stund saman.

Nú er þessi kynslóð að hverfa enda er hér um háaldrað fólk orðið að ræða.

Ég þakka Siggu og Baldri samfylgdina og öllu þeirra fólki votta ég samúð mína og óska því velfarnaðar.

Eitt sinn verða allir menn að deyja.

Eftir bjartan daginn kemur nótt.

Ég harma það en samt ég verð að segja,

að sumarið líður allt of fljótt.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Ragna á Laugabóli.