Matthea Katrín Guðmundsdóttir fæddist á Straumi á Skógarströnd 14. ágúst 1928. Hún lést á heimili sínu 2. mars 2013.

Útför Mattheu var gerð frá Langholtskirkju 11. mars 2013.

Matthea K. Guðmundsdóttir, tengdamóðir mín, á sérstakan sess í hugum ótal margra samferðamanna, sem nú lúta höfði og þakka samfylgd hennar um lengri eða skemmri tíma. Matta var með eindæmum vinsæl kona, þótt leitun hafi verið að jafn hógværri og lítillátri manneskju og henni. Hún var alin upp við Hrútafjörðinn og var bara barn þegar hún kynntist eftirlifandi eiginmanni, Ingimar Einarssyni. Þeirra samfylgd er því orðin löng, núna þegar Matta kveður hálfníræð að aldri. Ekki er hægt að hugsa sér annað þeirra án þess að hitt komi samstundis upp í hugann, svo samstillt voru þau.

Þau hófu ung búskap í Reykjavík, áttu stóran vinahóp og ræktuðu djúp og sterk tengsl við ættmenni og sveitunga úr Hrútafirðinum og víðar. Þeirra rætur fléttuðust saman. Heimili þeirra sem lengst var við Bugðulækinn í Reykjavík var í raun samkomustaður og félagsheimili og gestrisnin var þeirra aðall. Heimilið var reyndar gistihús líka sem þau ráku um áratuga skeið. Þeir voru margir viðskiptavinirnir innlendir sem erlendir sem komu aftur og aftur og urðu þeim kærir vinir. Sumir leigðu hjá þeim veturlangt, til dæmis þegar verið var að hefja skólagöngu í höfuðstaðnum fjarri heimahögum úti á landi. Þá var gott að eiga athvarf hjá Möttu og Ingimar og sess við krásum hlaðið eldhúsborðið eins og svo ótal margir aðrir.

Matta var sögukona af Guðs náð. Kímnigáfu hennar var við brugðið, alltaf gat hún spunnið upp sögur og brandara og þá flesta af sjálfri sér. Þá hló hún mest, þegar hún gat hlegið að sjálfri sér. Dætur hennar hafa erft þennan hæfileika og það er stanslaus eftirspurn eftir því í veislum að þær fari með uppistand, sérstaklega um hana móður sína. En frásagnarhæfileikinn þroskast varla nema minnið sé líka með besta móti. Þegar Matta var í stuði gat hún farið með orðaskipti og tilsvör og lýst kímilegum atburðum sem gerst höfðu áratugum áður, jafnvel á æskudögum. En þótt Matta væri þannig iðulega miðpunkturinn, hjartað og sálin í veislum og mannfagnaði, fór hún hjá sér ef athyglin beindist að persónu hennar eða mannkostum. Þá var hún næstum því feimin, vildi ekki að aðrir mærðu hana fremur en að henni dytti í hug að stæra sig sjálf.

Við Matta vorum hvorugar unglömb þegar við kynntumst, ég rúmlega þrítug og hún að halla í sextugt. Við Pálmar sonur hennar nutum ekki langra samvista, því hann lést eftir aðeins 6 ára hjónaband okkar. Það var Möttu afar þungbært að missa son sinn og hún átti vissulega sínar viðkvæmu stundir. En alltaf rétti hún úr sér, opnaði sinn breiða faðm og hjálpaði öllum öðrum að vinna bug á sorginni. Það er gæfa mín að Matta hætti aldrei að vera tengdamóðir mín þótt Pálmar félli frá. Og þegar Hjörtur kom inn í líf mitt var gleði hennar sýnileg og innileg. Ósjaldan þakkaði hún Hirti fyrir að hafa tekið að sér föðurhlutverkið gagnvart Erlingi Atla og virtist hún stundum líta svo á sem þeir tveir hefðu gert samkomulag um að skipta því með sér.

Guð veiti Ingimar, Gunnu, Jóhönnu og öllum ættingjum og vinum Möttu líkn í sorg þeirra.

Hvíl í friði, mín kæra.

Hildur.

Ljúfar minningar streyma fram, já eina af perlum Íslands kveðjum við í dag. Hún Matta vinkona mín var yndisleg kona, kærleiksrík, kát, skemmtileg og umfram allt hreinskilin. Þegar ég fór í heimsókn til Möttu var það ekki bara Matta, nei það var verið að heimsækja Möttu og Ingimar. Svo samhent hjón voru þau og alltaf gott að koma til þeirra.

Ingimar minn, þinn missir er mikill, megi góður Guð varðveita og styrkja þig og fjölskyldu þína um alla framtíð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Margrét A. Frederiksen.

Kæra amma. Aldrei mun ég gleyma því þegar ég kom fyrst í heimsókn á köldum vetrardegi fyrir nokkrum árum. Mörgum árum of seint, en þó á tíma. Ég mun aldrei gleyma hlýjunni og brosinu. Skopskyninu og gleðinni.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um okkar samband. Við þekktumst alla tíð þótt það hafi tekið okkur tíma að komast að því. Við tengdumst strax. Það fór ekki á milli mála að ég er þú. Að ég erfði persónuleikann, mig sjálfan frá þér. Orð voru óþörf, jafnvel við fyrstu kynni.

Þín verður sárt saknað af mörgum, en þú munt lifa í hjarta allra þeirra sem þig þekktu. Hér er enn eitt hjartað fyrir þig að lifa í. Þótt kynnin hafi verið stutt mun ég eiga þig að það sem eftir er.

Vilhjálmur Geir Ásgeirsson.