Góð Helena Sverrisdóttir er að gera góða hluti í Meistaradeildinni.
Góð Helena Sverrisdóttir er að gera góða hluti í Meistaradeildinni. — Morgunblaðið/Ómar
Kristján Jónsson Guðmundur Hilmarsson Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, er komin í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, Euroleague, ásamt liði sínu Good Angels Kosice frá Slóvakíu.

Kristján Jónsson

Guðmundur Hilmarsson

Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, er komin í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, Euroleague, ásamt liði sínu Good Angels Kosice frá Slóvakíu. Átta liða úrslitakeppni fer nú fram í Rússlandi og Good Angels vann í gær Polkowice frá Póllandi í síðasta leiknum í öðrum fjögurra liða riðlinum 66:54. Good Angels náði þar með öðru sæti riðilsins og komst í undanúrslit keppninnar og er það besti árangur í sögu félagsins.

Helena spilaði í tæpar níu mínútur í gær. Hún stal boltanum tvívegis af andstæðingunum, varði eitt skot og tók eitt frákast. Hún hafði sig minna í frammi í sókninni og skaut aðeins einu sinni á körfuna. Helena er fyrsta íslenska konan til þess að spila í Meistaradeildinni og árangurinn er þar af leiðandi sá besti sem íslensk kona hefur náð í Evrópukörfuboltanum. Jón Arnór Stefánsson er eini Íslendingurinn sem orðið hefur Evrópumeistari en það afrekaði hann árið 2005 með Dynamo St. Peterburg.

„Ég er að vonum virkilega ánægð með að vera komin í undanúrslitin og það er mikil gleði í okkar herbúðum enda besti árangur liðsins í Evrópukeppni til þessa,“ sagði Helena við Morgunblaðið eftir leikinn.

„Við vorum með undirtökin í leiknum allan tímann. Við náðum upp frábærri vörn og náðum að halda þremur lykilmönnum þeirra algjörlega í skefjum. Þetta var öruggt allan tímann,“ sagði Helena.

Good Angels Kosice vann tvo leiki í riðlinum á móti pólska liðinu en einnig á móti Galatasaray frá Tyrklandi. Good Angels tapaði hins vegar fyrir rússneska liðinu UMMC Ekaterinburg sem vann alla leiki sína í riðlinum.

Helena og samherjar hennar leika í undanúrslitum á morgun og mæta þá Fenerbache frá Tyrklandi. Ekki er það í fyrsta skipti í keppninni þetta árið því liðin voru saman í riðli fyrr í keppninni, þ.e.a.s. áður en kom að 16-liða úrslitum. Liðin urðu jöfn í riðlinum með níu sigra í tólf leikjum. Fenerbache vann leik liðanna í Tyrklandi 93:91 en Good Angels vann heimaleikinn 66:63. Allt bendir því til þess að undanúrslitaviðureignin verði spennandi.

Þurfum að ná fram toppleik

„Við höfum mætt Fenerbache tvisvar sinnum og liðin unnu hvort sinn leikinn. Á pappírunum er tyrkneska liðið sterkara en ef við náum að spila okkar besta leik er erfitt að eiga við okkur. Ég býst við hörðum leik og vonandi tekst okkur bara að fara í úrslitin en til þess þurfum við að ná toppleik. Við stefnum að sjálfsögðu að því,“ sagði Helena sem náði ekki að skora í leiknum. „Ég var í öðru hlutverki. Ég var sett til höfuðs besta sóknarmanni þeirra og mér gekk vel. Ég gerði lítið í sókninni en stóð mig vel í vörninni.“