Hótelkisi Kötturinn Brandur virtist hæstánægður með nýju búrin í Kattholti þegar ljósmyndara bar að garði.
Hótelkisi Kötturinn Brandur virtist hæstánægður með nýju búrin í Kattholti þegar ljósmyndara bar að garði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is „Búrin sem við keyptum eru mun stærri en gömlu búrin okkar og það fer tvímælalaust betur um kisurnar í þeim,“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

„Búrin sem við keyptum eru mun stærri en gömlu búrin okkar og það fer tvímælalaust betur um kisurnar í þeim,“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir, formaður Kattavinafélags Íslands.

„Þarna er sérstakur pallur fyrir mat og meira pláss til að hreyfa sig. Þetta eru hálfgerðar stúdíóíbúðir fyrir kisur. Við höfum safnað fyrir þessum búrum undanfarin tvö ár og vorum lengi að finna út hvaða búr myndu henta og enduðum á búrum frá Texas. 21 búr er þegar komið upp og hafa þau aðallega verið notuð á „hótelhluta“ Kattholts. Ég hvet fólk eindregið til að koma með kettina sína til okkar ef það er að fara í burtu, þeir eru miklu öruggari hjá okkur og sólarhringurinn kostar ekki nema 1.200 krónur,“ segir hún.

Anna segir „fákett“ í Kattholti þessa dagana, en aðeins 35 flækingskettir dvelja þar núna. Í fyrra fór þar í gegn 781 köttur. „Köttunum fjölgar mikið á vorin hjá okkur. Í fyrra voru 700 kettir hérna í ágúst. Ef fólk finnur ketti getur það komið þeim til okkar og við sjáum um þá. Ef þeir eru slasaðir getur fólk komið köttum sem það gengur fram á til dýralæknis og við borgum þá út ef fólk hefur samband við okkur. Það á enginn að þurfa að ganga framhjá slösuðum ketti af fjárhagsástæðum, við dekkum það með sjúkrasjóðnum okkar.“

Anna sagði að ótrúlegasta fólk styddi við bakið á Kattholti, en það er alfarið rekið fyrir frjáls framlög. Páskabasar Kattholts á laugardaginn milli 11 og 16 er mikilvægur í þeirri fjármögnun.

Í Kattholti starfa fjórir einstaklingar, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi, en aðrir gefa vinnuna sína. „Sjálf þekki ég dæmi þess að góðborgarar í Skerjafirðinum gefi köttum að éta upp á sitt eindæmi,“ sagði Anna.