Alþingi Óvíst er hvenær þingfrestun verður. Þingstörfum átti að vera lokið.
Alþingi Óvíst er hvenær þingfrestun verður. Þingstörfum átti að vera lokið. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Baldur Arnarson baldura@mbl.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Stjórnarskrármálið er í þeim farvegi að við erum búin að reyna ítrekað að kanna forsendur fyrir því að ná samkomulagi um að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, sérstaklega, standi ekki gegn því að málið komi til atkvæða. Það hefur í rauninni ekkert samkomulag náðst um það. Það er eiginlega niðurstaða dagsins eftir fundi undanfarna daga,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, áður en hún gekk inn á þingflokksfund VG í gærkvöldi.

„Mér þykir þetta leitt því það hefur verið reynt að breyta þessu ákvæði í þá átt sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til 2009,“ segir Katrín og vísar til breytingartillögu hennar, Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingar, og Guðmundar Steingrímssonar, Bjartri framtíð, um að breyta megi stjórnarskránni án þess að það þurfi að rjúfa þing.

Fyrr um daginn funduðu formenn fjögurra stærstu flokkanna á þingi um framhald málsins og sagði Katrín engar frekari viðræður fyrirhugaðar í gærkvöldi. Framhaldið væri óljóst. Ekkert væri ákveðið um þingfrestun, sem fyrirhuguð var 15. mars.

„Það er ekkert um málið að segja annað en að það er ekki samkomulag um að ljúka því.“

Þrjár breytingartillögur

Spurður út í stöðu málsins sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, að stjórnarflokkarnir vildu bera tillögurnar þrjár í stjórnarmálinu til atkvæða. Breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur um stjórnarskrána í heild, nýtt og breytt auðlindaákvæði frá ákvæðinu sem Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, lagði fram síðustu helgi og loks áðurnefnda breytingartillögu Árna Páls, Katrínar og Guðmundar. Sagði Sigmundur Davíð það skoðun Framsóknarflokksins að þingið væri runnið út á tíma til að taka tillögurnar til efnislegrar meðferðar.

„Síðustu tvo daga hafa stjórnarliðar talað miklu meira en stjórnarandstaðan... Það er því ekki hægt að segja að það sé komið upp málþóf af hálfu stjórnarandstöðunnar.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að leggja beri frumvarp Katrínar, Árna Páls og Guðmundar til hliðar. Þingið hafi ekki tíma til að ræða það efnislega. Málið sé ekki brýnt, það hafi komið fram á síðustu stundu þegar allt var komið í óefni og nú þurfi að setja önnur mál, atvinnulífið og heimilin, í forgang.

Þingið fallið á tíma

„Það er óbreytt staða í þinginu. Stjórnarflokkarnir vilja breyta stjórnarskránni en við höfum á móti talað fyrir því að við reyndum að ná saman um stefnumörkun varðandi framhald stjórnarskrármálsins. Það hefur ekkert miðað í þessu samtali og réttast væri að fara að slíta þinginu og klára mál sem eru tilbúin til afgreiðslu og ekki er mikill ágreiningur um,“ sagði Bjarni.

Hvorki náðist í Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis, né Árna Pál, sem var á fundi með samfylkingarmönnum á Akureyri.

Fram yfir páska?
» Þingstörfum átti að ljúka með þingfrestun 15. mars.
» Kosningar eru 27. apríl.
» Einnig var deilt um stjórnarskrána vorið 2009 en þingi var þá slitið 17. apríl, átta dögum fyrir kosningar.