Harpa Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í formlegri rannsókn hjá ESA.
Harpa Tónlistar- og ráðstefnuhúsið í formlegri rannsókn hjá ESA. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað í gær að hefja formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð í tengslum við fjármögnun á starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað í gær að hefja formlega rannsókn á hugsanlegri ríkisaðstoð í tengslum við fjármögnun á starfsemi tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Er bráðabirgðaniðurstaða ESA sú að um ríkisaðstoð sé að ræða sem ekki geti að fullu samræmst ákvæðum EES-samningsins þar sem ekki sé tryggður fjárhagslegur aðskilnaður menningarstarfsemi frá starfsemi í samkeppnisrekstri.

Oda Helen Sletnes, forseti ESA, segir í tilkynningu stofnunarinnar að aðstoð ætluð til menningarstarfsemi sé heimil samkvæmt EES-samningnum. Íslensk stjórnvöld verði hins vegar að sjá til þess að slík aðstoð sé ekki nýtt til að niðurgreiða starfsemi í samkeppnisrekstri, til að mynda ráðstefnuhald.

ESA hefur haft málið til athugunar í kjölfar þess að stofnuninni barst kvörtun vegna opinbers stuðnings við ráðstefnuhald í Hörpu.

Harpa hýsir sem kunnugt er Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperuna. Að auki eru þar ráðstefnur og tónleikar af ýmsu tagi. Önnur starfsemi, s.s. veisluþjónusta, rekstur veitingastaða og verslana, er í höndum einkaaðila sem leigja aðstöðu í húsinu á grundvelli útboðs. Harpa er í eigu ríkisins, sem á 54%, og Reykjavíkurborgar, sem á 46%. Frá opnun hússins vorið 2011 hefur verið nokkurt tap af rekstri þess og hafa eigendur þurft að leggja til aukið fjármagn til að standa undir rekstrinum. Nýlega var samþykkt af ríki og borg að auka framlagið um alls 640 milljónir króna á næstu fjórum árum. Einnig var samþykkt að umbreyta eigendalánum upp á 794 milljónir króna í hlutafé í Hörpu, sem skiptist eftir eignarhlutunum.

ESA hefur komist að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að fjármögnun Hörpu feli í sér ríkisaðstoð í skilningi EES samningsins. Ekki hafi verið sýnt fram á að opinbert fé ætlað til menningarstarfsemi hafi ekki verið nýtt til að niðurgreiða starfsemi í samkeppnisrekstri. Því hafi ESA ákveðið að hefja formlega rannsókn á fjármögnun Hörpu. bjb@mbl.is

Ráðstefnur að sækja í sig veðrið

• Forstjóri Hörpu hefur ekki áhyggjur

Halldór Guðmundsson forstjóri Hörpu segir ESA hafa verið að skoða þetta að undanförnu. Ákvörðunin feli ekki annað í sér en að frumrannsókn verði að formlegri rannsókn.

„Rannsóknin veldur mér engum sérstökum áhyggjum því ráðstefnuhluti Hörpu hefur verið að sækja mjög mikið í sig veðrið og þess ekki langt að bíða að hann leggi fé til rekstrarins. Þá ættu þessar áhyggjur að verða óþarfar. Mér finnst persónulega merkilegt að ESA sé að verja tíma sínum í þetta, því annað hvert ráðstefnuhús í Evrópu nýtur opinberra framlaga,“ segir Halldór ennfremur.

Ekki náðist í Helgu Jónsdóttur, stjórnarformann Hörpu, í gær. bjb@mbl.is