Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Velferðarráðuneytið veitti Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja fimmtán milljóna króna aukaframlag í gær til þess að stofnunin gæti haldið áfram að kaupa lyf.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Velferðarráðuneytið veitti Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja fimmtán milljóna króna aukaframlag í gær til þess að stofnunin gæti haldið áfram að kaupa lyf. Lyfjaheildsalar höfðu lokað á viðskipti við sjúkrahúsið vegna skulda þess við þá.

„Þeir hafa ákveðna þolinmæði en hún er ekki endalaus hjá þeim frekar en öðrum. Allir þurfa jú að fá sitt. Skuldin skiptir ansi mörgum milljónum,“ segir Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri heilbrigðisstofnunarinnar.

Hann segir framlag ráðuneytisins til þess að opna aftur á lyfjakaup aðeins vera plástur á reksturinn og meira þurfi til.

Stofnunin hafi þurft að skera niður um fjórðung á fimm árum og það sé meira en hún hafi þolað. „Okkur er jafnframt gert að halda uppi ákveðinni starfsemi. Það má segja að fjárlög og heilbrigðislög hafi ekki farið saman þarna. Það er ljóst að óbreyttur rekstur rúmast ekki innan fjárlaga. Það er búið að tálga allt niður og rúmlega það og það er ekkert eftir nema grunnstarfsemin. Annaðhvort þarf að draga úr starfseminni og segja upp starfsfólki eða auka fjármuni,“ segir hann.

Eiginfjárstaða sjúkrahússins var neikvæð um áramótin og segir Gunnar að unnið sé að því að finna lausn á vanda stofnunarinnar í samstarfi við velferðarráðuneytið.

Eyjafréttir sögðu í gær frá bréfi konu til velferðarráðherra. Hún átti að koma í lyfjagjöf hjá stofnuninni en var vísað frá því ekki hefði verið hægt að leysa út lyfin vegna fjárskorts að hennar sögn.