[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt kemur lengur á óvart þegar horft er til þróunar mála á evrusvæðinu.

Fátt kemur lengur á óvart þegar horft er til þróunar mála á evrusvæðinu. Stefnusmiðir myntbandalagsins voru reiðubúnir að þvinga ráðamenn á Kýpur til aðgerða sem hefðu grafið undan trausti almennings gagnvart evrópska innstæðutryggingakerfinu og aukið líkurnar á bankaáhlaupi í jaðarríkjunum. Þótt mikil óvissa ríki um hvernig ríkisstjórn Kýpur muni fara að því að afla bankakerfi landsins lánsfjár til að forða fjármálahruni landsins þá virðist skaðinn skeður.

Þing Kýpur felldi í fyrradag með miklum meirihluta stjórnarfrumvarp um gjaldtöku af sparireikningum í kýpverskum bönkum. Með skattlagningu á allar innstæður í kýpverskum bönkum – 6,75% á innstæður undir 100.000 evrur og 9,9% á innstæður yfir þeirri upphæð – átti að afla 5,8 milljarða evra. AGS og ESB myndu að auki veita ríkinu yfir 10 milljarða evra neyðarlán.

Stjórnvöld á Kýpur leita nú allra leiða að mögulegri lausn til að afstýra hruni bankakerfisins og í kjölfarið ríkisgjaldþroti. Rætt hefur verið um að leita í smiðju íslenskra stefnusmiða frá því haustið 2008 og kynna til sögunnar fjármagnshöft til að aftra gríðarlegu fjármagnsútflæði þegar bankar landsins munu opna á ný. Jafnframt eru uppi hugmyndir um að endurskoða fyrri hugmynd um skatt á bankainnstæður með það að markmiði að ekki verði lagður skattur á innstæður undir 20.000 evrum.

Náin tengsl eru á milli Rússlands og Kýpur og talið er að Rússar eigi um 20 milljarða evra á sparireikningum í kýpverskum bönkum. Ekki kemur því á óvart að fjármálaráðherra Kýpur hafi í gær farið til viðræðna við ráðamenn í Kreml um mögulega fjárhagsaðstoð Rússlands. Hins vegar er ólíklegt að lán frá Rússum, að andvirði tæplega 6 milljarðar evra, myndi duga til að tryggja ríflega tíu milljarða evra neyðarlán frá þríeykinu svonefnda – ESB, AGS og Evrópska seðlabankanum. Slík lántaka, samtals hátt í sautján milljarðar evra, þýddi að skuldir kýpverska ríkisins myndu aukast um 70 prósentur sem hlutfall af landsframleiðslu – og nema um 160%. Engar líkur eru á því að slík skuldabyrði væri sjálfbær. Aðstoð frá Rússum þyrfti því fremur að koma í formi frekari fjárfestingar; annaðhvort í kýpverskum bönkum eða með því að kaupa skuldabréf kýpverska ríkisins.

Fyrsta ríkið til að kasta evrunni?

Náist samkomulag milli rússneskra og kýpverskra stjórnvalda um aðstoð – hvort sem hún verður í formi lántöku eða fjárfestingar – þá er líklegt að það þyrfti að njóta samþykkis þríeykisins áður en Kýpur yrði veitt neyðaraðstoð. Frekari efnahagsleg og pólitísk ítök Rússlands á eyjunni myndi án efa ekki njóta vinsælda á meðal margra Evrópuríkja. Hinir valkostirnir væru þó ekki mikið betri: frekari fjárhagsaðstoð frá evruríkjunum eða upplausn í Kýpur.

Þau skilaboð sem berast frá leiðtogum kjarnaríkja myntbandalagsins, sem gegna hlutverki lánveitanda til þrautavara gagnvart verst stöddu evruríkjunum, benda hins vegar ekki til þess að þau muni gefa eftir í kröfum sínum gagnvart Kýpur. Pólitískar ástæður og slæmt fordæmi fyrir viðræður við önnur ríki um neyðaraðstoð í framtíðinni ráða mestu.

Með slíku pólitísku stöðumati er þó hætt við því að minni hagsmunir yrðu teknir fram yfir meiri. Verði Kýpverjum settur stóllinn fyrir dyrnar og þeim synjað um neyðarlán, sem myndi hrinda af stað bankahruni og ríkisgjaldþroti, þá gæti slík atburðarás að lokum haft skaðlegri afleiðingar fyrir evrusvæðiðið í heild en að veita Kýpur meiri fjárhagsstuðning.

Hver sem niðurstaðan að lokum verður þá hafa atburðir síðustu daga skaðað trúverðugleika stefnusmiða á evrusvæðinu – og ekki í fyrsta sinn. Sú staðreynd að evrópskir ráðamenn hafi verið tilbúnir að taka áhættu sem hefði getað magnað skuldakreppu bandalagsins vegna neyðaraðstoðar til minnsta evruríkisins – hagkerfi Kýpur nemur aðeins 0,2% af landsframleiðslu evruríkjanna – verður að teljast með ólíkindum. Líkur á því að Kýpur verði fyrsta ríkið til að segja skilið við evruna hafa stóraukist.