Erfiði „Mjög margir eru um hituna, erfitt að standa upp úr og ég hugsa að ég hafi átt um 200-300 fundi með fjárfestum þegar allt er talið. Stundum þurfti maður hreinlega að svindla sér inn á fundi eða rekast „óvart“ á fólk á förnum vegi til að komast að,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson um það þegar hann hélt ásamt tveimur forriturum í óvissuerð til Sílíkondals til að bjarga fjármögnun fyrirtækisins.
Erfiði „Mjög margir eru um hituna, erfitt að standa upp úr og ég hugsa að ég hafi átt um 200-300 fundi með fjárfestum þegar allt er talið. Stundum þurfti maður hreinlega að svindla sér inn á fundi eða rekast „óvart“ á fólk á förnum vegi til að komast að,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson um það þegar hann hélt ásamt tveimur forriturum í óvissuerð til Sílíkondals til að bjarga fjármögnun fyrirtækisins. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Lögðu af stað til Sílíkondals upp á von og óvon og tókst að afla um 150 milljóna • Umgjörðin utan um fjárfestingu í sprota-hugbúnaðarfyrirtækjum mun betri í Kaliforníu en á Íslandi og hugarfarið allt annað • Fjárfestar hafa mikinn áhuga...

• Lögðu af stað til Sílíkondals upp á von og óvon og tókst að afla um 150 milljóna • Umgjörðin utan um fjárfestingu í sprota-hugbúnaðarfyrirtækjum mun betri í Kaliforníu en á Íslandi og hugarfarið allt annað • Fjárfestar hafa mikinn áhuga á nýju verkefni sem tvinnar saman leiki og samfélagsvef

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Reksturinn hjá leikjafyrirtækinu Plain Vanilla var ekki alltaf dans á rósum. Þegar virtist fokið í flest skjól gripu aðstandendur fyrirtækisins til ævintýralegs örþrifaráðs, héldu af stað til Kaliforníu og tókst á undraverðan hátt að tryggja rekstrinum fjármögnun að jafnvirði um 150 milljónir króna.

Í dag er mikill uppgangur hjá Plain Vanilla sem m.a. á í samstarfi við stór kvikmyndaver í Hollywood og sló nýverið í gegn með leik um Twilight-seríuna.

Þorsteinn Baldur Friðriksson segir söguna: „Ég sný aftur til Íslands árið 2010 eftir nám í Bretlandi, áhugasamur um að stofna fyrirtæki sem gæti átt erindi við alþjóðlega markaði. Spjaldtölvur og snjallsímar voru þegar orðin mál málanna á þessum tíma og spennandi markaður fyrir fyrirtæki hvar sem er í heiminum. Úr varð að Plain Vanilla var stofnað og fyrsta verkefnið varð leikurinn „The Moogies“.

Ris og fall Moogies

The Moogies leit dagsins ljós árið 2011 en leikurinn var einkum hugsaður fyrir yngsta aldurshópinn. Framan af gekk leikurinn vel á markaði. „Mikið af orku og fjármunum hafði farið í að gera þennan leik og viðtökurnar voru góðar. Við störfuðum með góðu útgáfufyrirtæki og vorum á forsíðu app-búðarinnar í um tvær vikur. En svo gerist það að við hverfum af forsíðunni hjá Apple og þá gjörsamlega hrynur salan. Það var þá sem við lærðum dýrmæta lexíu um hversu margir eru um hituna í þessum heimi, hversu miklu máli sýnileikinn skiptir og hversu ofboðslega erfitt það getur verið að ná til neytenda um leið og leikur dettur út af topp-tíu listum app-verslana,“ segir Þorsteinn.

Það var á þessum tímapunkti sem aðstandendur Plain Vanilla urðu annaðhvort að duga eða drepast. „Við fórum að velta fyrir okkur nýjum möguleikum og leituðum m.a. að leikjalausn sem gæti verið skalanleg. Ákveðið var að búa til spurningaleikja-umhverfi fyrir snjallsíma þar sem fólk getur keppt á móti öðrum í rauntíma. Þetta reyndist vera alveg ný nálgun því þó að mikið sé af spurningaleikjum þar sem leikmaðurinn keppir á móti sjálfum sér hefur snjallsíma- og spjaldtölvuheiminn vantað spurningaleiki þar sem leikmaðurinn fær lifandi andstæðing til að etja kappi við.“

Vogun vinnur

Þorsteinn segir félagana hafa leitað að fjármagni fyrir reksturinn hér á landi en gengið mjög treglega. „En okkur fannst hugmyndin góð og sáum að núna var ekkert annað í stöðunni en að leggja allt undir eða loka sjoppunni. Sú fífldjarfa hugmynd kviknaði að við þyrftum einfaldlega að komast í hjarta tækniheimsins í Sílíkondal til að láta hlutina gerast. Það var fyrir u.þ.b. ári að við keyptum þrjá þriggja mánaða flugmiða til San Francisco undir sjálfan mig og tvo forritara. Þessa þrjá mánuði ætluðum við að nota til að klára að forrita leikinn okkar og afla fjármagns.“

150 milljónir króna á þremur mánuðum er heldur betur góður árangur og myndu margir frumkvöðlar á Íslandi prísa sig sæla að geta krækt í mun minni upphæð á mun lengri tíma. Þorsteinn segir tímann í Kaliforníu þó hafa verið erfiðan og hafi það bæði kallað á mikla vinnu og mikla heppni að ná í áhugasama fjárfesta. „Ég hélt fyrst að við værum með svo góða hugmynd að Sílíkondalur myndi hreinlega leggja út rauða dregilinn fyrir okkur en sú varð ekki raunin. Mjög margir eru um hituna, erfitt að standa upp úr og ég hugsa að ég hafi átt um 200-300 fundi með fjárfestum þegar allt er talið. Stundum þurfti maður hreinlega að svindla sér inn á fundi eða rekast „óvart“ á fólk á förnum vegi til að komast að.“

Að baki fjármögnun Plain Vanilla standa nú 20 fjárfestingarfyrirtæki héðan og þaðan: frá Singapúr, London, Kína, New York og svo auðvitað Sílíkondal. „Við héldum hróðugir heim, gátum byrjað að ráða fólk, erum núna með 11 manns í vinnu og mörg járn í eldinum. Dvölin í Kaliforníu var einnig notuð til að selja vöruna og gerðum við samninga við kvikmyndaverin um leiki eins og Twilight-spurningaleikinn. Gekk það verkefni hreint ótrúlega vel og erum við þegar komnir með hátt í milljón skráða notendur í kerfinu okkar.“

Samfélagsvefur í fæðingu

Í gegnum þróunarvinnuna segir Þorsteinn að Plain Vanilla hafi uppgötvað nýja möguleika og verður spurningaleiks-grunnurinn þróaður í áhugaverða átt. „Næsta skref er að búa til n.k. samfélagsvef sem byggist á því að tengja fólk í gegnum sameiginleg áhugamál. Hugsunin er sú að í nútímasamfélagi rekumst við mörg á þann þröskuld að eiga erfitt með að kynnast nýju fólki og geta leikir í kringum sameiginleg áhugamál verið góður ísbrjótur. Þannig gæti t.d. áhugamaður um knattspyrnu notað snjallsímaleiki frá Plain Vanilla til að leika við og komast í kynni við fólk í sínu næsta nágrenni – eða í öðrum löndum ef því er að skipta – sem deilir áhuganum á fótbolta,“ útskýrir Þorsteinn. „Þessi nýstárlega nálgun á samfélagsnet hefur skapað mikinn spenning meðal fjárfesta í Bandaríkjunum og erum við nú þegar langt komnir með tryggja enn meira fjármagn til þess að standa undir slíku verkefni.“

REYKJAVÍK OG SÍLÍKONDALUR EINS OG SVART OG HVÍTT

Ísland verður að breytast

Plain Vanilla náði mjög góðum árangri við að afla fjármagns í Kaliforníu og segir Þorsteinn ekki útilokað að fleiri íslensk hugbúnaðarfyrirtæki geti notað sömu aðferð til að sækja sér bakhjarla. Hann segir einn helsta veikleika íslenska hugbúnaðargeirans hvað aðgangur sprotafyrirtækja að fjármagni er erfiður. Það geri Bandaríkin líka að meira spennandi stað að þar virðist annað hugarfar meðal fjárfesta og einnig að allt annað form er á því hvernig peningar eru lagðir inn í sprotarekstur.

Þorsteinn útskýrir: „Við fundum það greinilega hér á Íslandi að áhugi fjárfesta minnkaði hratt þegar við sögðum þeim frá að okkar fyrsti leikur hefði ekki slegið í gegn. Á meðan það að eiga misheppnuð verkefni að baki er neikvætt á Íslandi er það jákvætt í Bandaríkjunum og má nánast segja að fjárfestar vilja helst ekki veita frumkvöðlum peninga nema þeir eigi a.m.k. nokkur mistök að baki. Á fundum með íslenskum aðilum var Moogies-leikurinn feimnismál og veikleiki en á fundum í Kaliforníu var Moogies verðmæt reynsla og styrkleiki til að vera stoltur af.“

Hvað fær fjárfestirinn?

Þá segir Þorsteinn að vestanhafs sé grunnfjármögnun sprotafyrirtækja í hugbúnaðargeira nær öll með sama sniði og umgjörðin mjög skýr, skilvirk og sniðug fyrir alla sem að rekstrinum koma. „Á Íslandi er það vaninn að fjárfestar leggja fram fjármagn sem hlutafé og vilja fá í staðinn ákveðna prósentu, ákveðinn eignarhlut í rekstrinum. Þar strax kemur upp mikill vandi við að reikna út virði fyrirtækisins. Ef íslenskum fjárfesti væri boðið að leggja fram 100 milljónir í sprotarekstur yrði hreinlega hlegið að því ef honum yrði boðinn 20% hlutur í staðinn enda með því verið að segja að splunkunýtt sprotafyrirtæki með 2-3 starfsmenn sé í raun 500 milljóna virði. Það sem vill þá gerast er að eignarhlutur frumkvöðlanna verður oft að engu, minna svigrúm verður eftir til að laða að fleiri fjárfesta á seinni stigum og góðar hugmyndir komast ekki á flug,“ segir Þorsteinn.

„Í Bandaríkjunum er svona starfsemi fjármögnuð með s.k. „seed round“ og þar er öllu verðmati á sprotafyrirtækinu frestað. Peningarnir eru teknir inn sem breytanleg skuld sem síðan breytist í hlutafé með ákveðnum afsláttarkjörum þegar reksturinn er kominn almennilega á legg. Þeir sem voru fyrstir inn fá þá betri kjör og fá þannig meira fyrir sinn snúð en þeir sem lögðu til fjármagn á seinni stigum.“

Umgjörðin öll er líka einfaldari í Bandaríkjunum. „Maður fær kannski 15-20 mínútna fund með hverjum fjárfesti og þarf heldur betur að kunna að koma hugmyndinni til skila og vekja áhuga. En svarið fæst líka oft strax á fundinum eða í síðasta lagi næsta dag. Þegar sótt er um styrk í íslenskum nýsköpunarsjóði er það ferli sem reikna má með að taki marga mánuði þar til loks að endanleg niðurstaða liggur fyrir.“

ORÐSPOR ÍSLENSKRA FORRITARA NÆR EKKI ALLA LEIÐ TIL VENICE BEACH

Komast upp með ýmisegt með íslensku klíkunni

Það eitt að vera Íslendingur dugir ekki til að heilla fjárfestana í Kaliforníu upp úr skónum. Þorsteinn segir hugbúnaðarheiminn vestanhafs ekki tengja Ísland neitt sérstaklega við framúrskarandi forritun eða frumkvöðlastarfssemi. „Á fyrstu fundunum reyndi ég þennan vinkil: að tala um Ísland, tungumálið og náttúruna, en það var ekkert að virka og áherslan færðist fljótt alfarið yfir á viðskiptahugmyndina.“

Íslendingar segir Þorsteinn að hafi þó þann styrkleika að geta oft leitað til annarra Íslendinga í útlöndum um aðstoð og ráð. „Það hjálpar okkur á vissan hátt hvað við höldum sjálf að við séum, frábær og sækjumst þess vegna eftir því að umgangast aðra Íslendinga“ segir Þorsteinn og hlær. „Við komumst fljótt í samband við marga Íslendinga á svæðinu sem voru boðnir og búnir að leggja okkur hjálparhönd, aðstoðuðu okkur við að komast í samband við rétta fólkið og fá boltann til að rúlla.“

Þorsteinn ráðleggur öðrum hugbúnaðarfyrirtækjum að fara ekki sömu leið nema með góðri aðstoð. „Ef ég hefði vitað hvað þetta ætti eftir að verða erfitt og áhættusamt hefði ég sennilega ekki þorað að taka stökkið á sínum tíma. Að miklu leyti vorum við heppnir að komast í samband við rétta fólkið sem svo kom okkur að hjá réttu fjárfestunum og fyrirtækjunum. Þeir sem vilja freista gæfunnar í Sílikondal ættu a.m.k. að finna einhvern sem hefur reynslu af þessum heimi til að greiða brautina þegar komið er á staðinn.“