Bandarískur risi Amgen Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Sean Harper, yfirmaður rannsókna og þróunar hjá Amgen. Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu fyrir 415 milljónir dollara.
Bandarískur risi Amgen Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Sean Harper, yfirmaður rannsókna og þróunar hjá Amgen. Amgen keypti Íslenska erfðagreiningu fyrir 415 milljónir dollara. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist reikna með því að fyrirtækinu verði lagðar til 40 milljónir dollara á ári eða sem samsvarar fimm milljörðum króna til að fjármagna...

Baksvið

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist reikna með því að fyrirtækinu verði lagðar til 40 milljónir dollara á ári eða sem samsvarar fimm milljörðum króna til að fjármagna rannsóknir. Lyfjarisinn Amgen keypti fyrirtækið í lok síðasta árs. Hann segir erfitt að slá því föstu hve lengi þessi háttur verði hafður á, en sér fyrir sér að svona verði þetta næstu tíu árin. Rannsóknir fyrirtækisins kalli á fjárfestingu í ýmsum tækjum, til að mynda tölvum og búnaði til að geyma og greina upplýsingar. „Þegar kemur að innflutningi á erlendum gjaldeyri erum við mjög stór aðili,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

580 milljónir til landsins í febrúar

Íslensk erfðagreining kom með 580 milljónir króna í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans í febrúar með því að gefa út skuldabréf. Á síðasta ári fór fyrirtækið tvisvar fjárfestingarleiðina og kom með 5,5 milljarða króna til landsins, líkt og Morgunblaðið hefur greint frá. Eignarhald fyrirtækisins var þá með öðrum hætti en um er að ræða fjármagn sem kemur frá eigendum. Þá áttu bandarískir fjárfestingarsjóðir félagið að mestu, en þeir keyptu fyrirtækið árið 2010.

Fjárfestingarleið Seðlabankans gengur út á að fjárfestar komi með erlendan gjaldeyri til landsins, skipti honum í krónur og fjárfesti hér til lengri tíma, en gulrótin fyrir fjármagnseigendur er að krónurnar eru um 20% ódýrari en ef þær hefðu verið keyptar með hefðbundnum hætti. Þessi leið er liður í því að reyna að leysa hinn svokallaða aflandskrónuvanda, svo hægt sé að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Bandaríska líftækni- og lyfjaframleiðslufyrirtækið Amgen keypt Íslenska erfðagreiningu fyrir 415 milljónir dollara eða 52 milljarða króna í desember. Íslenska fyrirtækið var þá að mestu í eigu erlendra fjárfesta, en 15 starfsmenn áttu lítinn hlut í fyrirtækinu, þar á meðal Kári Stefánsson. Fyrirtækið var að mestu í eigu tveggja bandarískra áhættufjárfestingasjóða, Polaris Ventures og ARCH Venture Partners, þekktra fjárfesta í Bandaríkjunum á sviði líftækni. Amgen er meðal stærstu líftæknifyrirtækja í heimi með um 17 þúsund starfsmenn. Íslensk erfðagreining er rekið sem dótturfyrirtæki Amgen á Íslandi. Heildartekjur Amgen árið 2011 námu tæplega tvö þúsund milljörðum íslenskra króna, þar af var 400 milljörðum varið í rannsóknar- og þróunarstarf.

Kaupin tryggja fjármögnun ÍE

Þegar tilkynnt var um kaupin sagði Kári við Morgunblaðið að kaupin leiddu til þess að búið væri að tryggja fjármögnun Íslenskrar erfðagreiningar um fyrirsjáanlega framtíð. Það mundi laða til sín erlendan gjaldeyri. Kaupin væru mjög jákvæð fyrir íslenskt samfélag. Hann tekur í sama streng nú í samtali við Morgunblaðið og nefnir að kaupin séu einhver jákvæðustu tíðindin úr íslensku efnhagslífi eftir bankahrun.

Sean Harper, yfirmaður rannsókna og þróunar hjá Amgen, sagði við Morgunblaðið að ráðist hefði verið í kaupin vegna þeirrar þekkingar sem Íslensk erfðagreining byggi yfir. Litið væri á kaupin sem langtímafjárfestingu og þeim fylgdi mikil samlegð. Íslensk erfðagreining er sögð hafa sérstöðu í rannsóknum í mannerfðafræði í heiminum.

Morgunblaðið hefur sagt frá því að fyrirtækið hafi tvisvar áður nýtt sér þessa leið. Það gaf út 413 milljón króna skuldabréf í nóvember á síðasta ári og 5,1 milljarð í febrúar það ár.

Hefur þrisvar farið
fjárfestingarleiðina
» Íslensk erfðagreining kom með 580 milljónir til landsins í febrúar í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans.
» Amgen keypt Íslenska erfðagreiningu fyrir 415 milljónir dollara eða 52 milljarða króna í desember, að mestu af erlendum fjárfestum sem keyptu fyrirtækið árið 2010.
» Á síðasta ári kom Íslensk erfðagreining með 5,5 milljarða króna í gegnum fjárfestingarleiðina.