Guðmunda Petersen Stefánsdóttir fæddist 25. júní 1921 í Reykjavík. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 7. mars 2013.

Jarðarför Guðmundu fór fram frá Áskirkju 12. mars 2013.

Elsku amma mín, ég kom í heiminn með látum daginn sem þú varðst sextug og síðan þá höfum við notað tímann vel saman. Fyrir utan afmælisdaginn áttum við margt sameiginlegt. Okkur fannst t.d. báðum gaman að teikna, gott að gráta, elskuðum nammi og áttum ömmu sem við litum upp til og elskuðum út af lífinu. Ég er þakklát fyrir allar dýrmætu minningarnar sem hafa hlýjað mér síðustu daga. Nærvera þín var einstök og þú leyfðir mér að njóta hennar allt fram á síðustu mínútu. Ég kveikti á ljósi við rúmið þitt, sat við rúmstokkinn og hélt í fallegu hendurnar þínar þegar ég kyssti þig góða nótt. Ég kveð þig í bili með bæninni sem þú kenndir mér:

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Þín ömmustelpa og vinkona,

Eva.

Það var orðið þröngt um stækkandi fjölskylduna í litlu íbúðinni á Skeggjagötunni þegar okkur bauðst að leigja stóra bjarta risíbúð hjá þeim sæmdarhjónum Guðmundu og Gunnari Petersen. Þar bjuggum við í góðu yfirlæti í nokkur ár og náðum við að kynnast þeim hjónum vel. Þetta var góður tími á Kambsveginum og gott að vera hjá þeim í risinu. Munda og Gunnar voru góðir vinir foreldra minna og ferðuðust þau mikið saman innanlands og einnig til fjarlægra landa. Við hjónin vorum svo heppin að fara í margar veiðiferðir með þeim í fallegustu laxveiðiár landsins. Þar kynntumst við nýrri hlið á þeim og þar var Munda í essinu sínu, úti í náttúrunni að veiða lax með Gunnari sínum. Þau voru um margt ólík hjón því innst inni var Munda bóhem og mikill listamaður sem skapaði og málaði fallegar myndir. En það tíðkaðist nú ekki á þessum tíma að virðulegar húsmæður væru að vinna utan heimilisins og sat listagyðjan því oftast á hakanum, en sem betur skilur hún eftir sig margar gullfallegar myndir. Munda var mikil fjölskyldukona og var einkasonurinn og fjölskylda hans henni eitt og allt. Ég fylgdist með því hvernig hún skutlaðist um allan bæ að keyra barnabörn í píanótíma og fylgja því eftir að það væru æfðar fingraæfingar á milli kennslustunda. En ekki er hægt að minnast Mundu án þess að nefna kisurnar. Hún var nefnilega kisukona af Guðs náð, ég hafði aldrei kynnst þessu fyrr, hún talaði við þær eins og viti bornar manneskjur og breyttist röddin í samræmi við um hvað var rætt. Þá varð að læra hvernig ætti að hugsa um kisur því það fylgdi með í leigusamningnum að passa þær þegar þau hjónin voru að heiman. Síðar eignuðumst við fjölskyldan einn af afkomendum Ýru, sem var gáfaðasta og fallegasta kisan hennar, hann Njál sem alltaf var kallaður Njalli, hann fylgdi okkur í mörg ár og var móður sinni til sóma. Munda mátti ekkert aumt sjá og var með eindæmum góð og falleg manneskja. Með þessum fátæklegu orðum langar mig að þakka Mundu samfylgdina, hún er eflaust hvíldinni fegin, en ég veit að nú er hún að mála falleg málverk með Gunnar og allar kisurnar í kringum sig. Steinar, Greta og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur.

Gróa Þóra Pétursdóttir.

Allir hafa upplifað andartök eða atburði sem breyta lífi þeirra þótt það verði oft ekki ljóst fyrr en eftir á.

Ein ánægjulegasta bernskuminningin sem ég á tengist henni Mundu og markaði þau spor sem á eftir komu.

Þegar ég var lítil var það alltaf tilhlökkunarefni að fara í heimsókn til Mundu og Gunnars á Kambsveginum og ekki spillti fyrir að þau áttu kött en einnig forláta píanó sem ég fékk að leika mér á að vild.

Minningin tengist einmitt hljóðfærinu því eitt sinn eyddi ég heilum degi í að „spila“ á það og þótt ég hafi örugglega framkallað hin ólíklegustu hljóð og hljóma hvatti Munda mig með hrósi og hrifningu þannig að mér fannst eins og hin fallegustu tónverk streymdu fram. Þessi viðbrögð hennar og ánægjan af tónlistartilraununum urðu m.a. til þess að ég sótti það fast að fá að læra á píanó og það er enginn vafi í mínum huga að þessi dagur með Mundu skipti þar sköpum.

Hlýrri og gjafmildari manneskju er varla hægt að hugsa sér. Hún kunni að njóta lífsins og hafði engan áhuga á vandamálum. Þetta lífsviðhorf gerði það að verkum að hún var gjöful á sjálfa sig og alltaf með augun á því sem gladdi og fegraði. Þessi einstaki hæfileiki er vissulega dýrmætur og öðrum til eftirbreytni. Ég efa þó að hún hafi nokkurn tímann leitt hugann að þessu því henni var þetta svo eðlislægt. Ekkert var henni fjarlægara en að hrósa sjálfri sér enda yfirleitt upptekin við að annast aðra og gleðja.

Ég kveð Mundu með söknuði og þakklæti og sendi Steinari og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur. Minningin um Mundu og brosið hennar fallega mun lifa lengi.

Steinunn Birna.

Guðmunda Petersen Stefánsdóttir eða Munda eins og hún var oftast kölluð lést hinn 7. mars sl.

Þessi hlýja og góða kona átti langa og viðburðaríka ævi að baki. Hún ferðaðist mikið með eiginmanni sínum Gunnari Petersen innanlands og utan. Listfeng var hún mjög og málaði mörg falleg málverk og einnig á postulín og mörg erum við sem eigum listaverk eftir hana Mundu.

Þorsteinn faðir minn og Munda voru systkinabörn, þó meira systkin því faðir minn ólst upp að hluta til hjá foreldrum hennar, þeim öðlingshjónum Ágústu Sigbjörnsdóttur og Stefáni Björnssyni en Munda var einkadóttir þeirra hjóna. Samband foreldra minna og Mundu og Gunnars var mikið og á ég margar góðar og skemmtilegar minningar frá Kambsvegi 36 enda voru þau hjónin félagslynd og skemmtilegt fólk.

Eitt sinn var ég í pössun hjá þeim hjónum um 2-3ja ára í sex vikur þegar foreldrar mínir fóru utan og var ég víst mjög ófús að fara heim aftur. Munda hafði gaman af þessu og sagði mér þessa sögu oft. Þá munu píanóæfingarnar mínar ekki hafa verið eyrnavænar, svo mikið veit ég og játa það, en alltaf brosti Munda og hældi mér óspart. Sonur Mundu og Gunnars er Steinar og kona hans Gréta, börn þeirra og barnabörn voru henni afar kær, enda þau öll vakin og sofin yfir velferð hennar.

Fjölskylda mín og Inga móðir mín vilja þakka Mundu okkar fyrir allar góðu samverustundirnar og biðjum Guð að geyma þig.

Sigrún.