Áfram Giljó! Þórunn Jóna Héðinsdóttir, t.v., og Erla Vigdís Óskarsdóttir, sem báðar eru í 6. bekk, arka heim á leið af Skólahreysti sem fram fór í íþróttahöllinni í gærdag. Stuðningsmenn liðanna standa þétt við bak sinna manna.
Áfram Giljó! Þórunn Jóna Héðinsdóttir, t.v., og Erla Vigdís Óskarsdóttir, sem báðar eru í 6. bekk, arka heim á leið af Skólahreysti sem fram fór í íþróttahöllinni í gærdag. Stuðningsmenn liðanna standa þétt við bak sinna manna. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Gera má ráð fyrir fjölmenni í Hlíðarfjalli um páskana að vanda, og þar verður væntanlega ekki skortur á snjó.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Gera má ráð fyrir fjölmenni í Hlíðarfjalli um páskana að vanda, og þar verður væntanlega ekki skortur á snjó. Eyfirðingum var úthlutað töluverðum kvóta í vikunni og ætti að duga til góðs rennslis í brekkum, og utan þeirra fyrir þá sem það vilja.

Fjölförnustu götur í bænum eru strax orðnar marauðar eftir mokstur gærdagsins og hlýindi.

Leikfélag Akureyrar bryddar upp á þeirri nýjung í kvöld að halda sérstakan fund fyrir félagsmenn, þar sem þeim verða kynnt verkefni leikársins 2013-2014. Áhugavert skref stigið þar. Fundurinn hefst 19.30 í Samkomuhúsinu.

Strax að fundinum loknum hefst á sama stað málþing á vegum LA um mannréttindamál og ber yfirskriftina „Hver er kaktusinn í okkar samfélagi?“ Er það haldið í tilefni sýningarinnar Kaktusinn, sem nú er á fjölum Samkomuhússins.

Þátttakendur málþingsins eru lögfræðingarnir Katrín Oddsdóttir og Aðalheiður Ámundadóttir ásamt Evu Maríu Ingvadóttur. Höfundur þess áleitna verks er þýski mannréttindalögfræðingurinn og rithöfundurinn Juli Zeh.

Háværir en að öðru leyti vinalegir málmfuglar glöddu Eyfirðinga í gær. Þar munu hafa verið á ferð gæslumenn lýðveldisins. Flugu þeir nokkrum sinnum fram og til baka um fjörðinn. Fáum varð meint af en einhverjir úrillir, eins og gengur.

Hljómsveitin Valdimar ræður ríkjum á Græna hattinum um helgina; verður með tónleika bæði á föstudags- og laugardagskvöld.

Guðmundur Ármann, myndlistarmaðurinn landskunni, opnar sýningu á bókasafni Háskólans á Akureyri í dag kl. 16. Guðmundur sýnir þrjár vatnslitamyndir og sex olíumálverk.

Jón Gunnar Þórðarson leikstjóri hefur verið ráðinn verkstjóri á Akureyrarvöku 2013. Hátíðin verður sem fyrr haldin síðustu helgina í ágúst.

Undirbúningur fyrir Akureyrarvöku er hafinn og má búast við fjölbreyttri, skemmtilegri og litríkri dagskrá en ætlunin er að fjölþjóðamenning verði áberandi þetta árið.

Þriðji og síðasti riðill Skólahreysti fór fram í íþróttahöllinni á Akureyri í gær þegar skólar af Norðurlandi mættust. Áhorfendur eru jafnan fjölmargir og stemningin gríðarlega góð, og engin breyting varð þar á í gær.

Spennan var mikil í Höllinni en hún er ekki minni hjá hluta nemenda 10. bekkja Glerár-, Gilja- og Síðuskóla. Hópur sem hefur verið í dönskuvali í vetur er á leið til Danmerkur í apríl þar sem krakkarnir gista hjá dönskum fjölskyldum í nokkra daga, tveir eða þrír saman.

Nemendur frá Árósum heimsóttu þessa sömu íslensku krakka í fyrra og nú er sú heimsókn endurgoldin; þá reynir á dönskukunnáttu akureyrsku krakkana við kaup á Jolly Cola og fleira dönsku góðgæti. Kannski þau taki upp þann sið við heimkomuna að tala dönsku á sunnudögum eins og tíðkaðist í höfuðstað Norðurlands á árum áður...

Vinir bókarinar norðan heiða gleðjast nú eins og venjulega á þessum árstíma. Bókamarkaður Félags íslenskra bókaútgefenda er horfinn úr Perlunni, hefur verið opnaður á Glerártorgi á Akureyri og stendur til þriðjudagsins 2. apríl.

Alls munu um 5.000 bókartitlar í boði á markaðnum að þessu sinni.

Michael Jón Clarke baritónsöngvari og Eyþór Ingi Jónsson organisti frumflytja í kvöld 12 passíusálmalög eftir Michael. Tónleikarnir verða í Akureyrarkirkju og hefjast kl. 20. Aðgangseyrir er 2.000 kr. en 1.500 fyrir Listvini.

Treyjur íþróttahetjanna Alfreðs Gíslasonar og Arons Einars Gunnarssonar verða boðnar upp ásamt ýmsu öðru í Mottuboðinu í Hofi í kvöld. Treyja Alfreðs er árituð af öllum í handboltaliði Kiel sem Alfreð þjálfari en treyja Arons er árituð af honum sjálfum.

Mottuboðið tókst mjög vel í fyrra en 3.000 kr. aðgangseyrir rennur óskiptur til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Innifalinn er ýmiskonar dýrindis matur og skemmtiatriði. Klúbbur matreiðslumeistara á Norðurlandi stendur fyrir samkomunni.

Ríkisstjórnin gaf Akureyrarbæ 10 milljónir kr. í afmælisgjöf í fyrra. Starfshópur leggur til að þremur milljónum verði varið til kaupa á búnaði fyrir dvalarheimilin Hlíð og Lögmannshlíð, tvær milljónir fari til góðra verka í Lystigarðinum, tvær og hálf milljón renni til Minjasafnsins og sama upphæð í Spírur, sem er vinnuheiti verkefnis sem snýst um að mynda sjóð í samstarfi við einkaaðila. Sjóðurinn á að styðja ungt listafólk.