Eiríkur Jakob Helgason fæddist í Reykjavík 18. janúar 1931. Hann lést á heimili sínu, Kelduhvammi 22, Hafnarfirði, 27. febrúar 2013.

Útför Eiríks fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 12. mars 2013.

Elsku afi, það var svo sárt að fá símtal frá Íslandi með þeim fréttum að þú værir dáinn. Nógu erfitt er að missa afa sinn en það er enn erfiðara þegar maður er svona langt í burtu. Tinna Björk var þó það heppin að hafa borðað með þér tveim dögum áður og fyrir það er hún mjög þakklát þó hún sakni þín sárt. En eins og þú veist þá á ég góðan mann sem hefur stutt mig vel.

Þér þótti vænt um fólkið þitt og við systkinin höfum nú verið svo heppin að deila áhugamálum með þér, þ.e. íþróttir og þá aðallega fótbolti og golf. Þú komst oft og horfðir á mig og reyndar okkur öll systkinin keppa í fótbolta og varst stoltur af okkur. Oft sátum við einnig saman í stúkunni í Kaplakrika og hvöttum okkar menn í FH til sigurs.

Ekki má nú gleyma sögunum þínum frá því þú varst sjálfur í boltanum, hvernig þú snérir boltann rétt upp í skeytin og inn í markið með skoti frá miðju, það átti sko engin séns í þig.

Sama var það með veiðisögurnar, hendurnar voru ansi langt frá hvor annarri þegar þú varst að sýna okkur stærðina á fiskunum sem þú veiddir.

Þú spilaðir mikið golf í gegnum tíðina og sérstaklega síðustu árin. Það er í rauninni skrýtið til þess að hugsa að það er ekki svo langt síðan þú varst úti á golfvelli að spila. Þú spilaðir oft með Helga, Kristjáni og Eiríki og Jónas fékk einnig að njóta góðs af því að spila með þér golf. En þú hafðir oft orð á því við mig hvað ég ætti góðan mann og hann var eins hrifinn af þér og þú varst af honum.

Tinna Björk var fyrsta langaömmu og langaafa barnið ykkar ömmu og við Jónas og Tinna Björk fengum að njóta góðs af því að þið voruð svo spræk sem þið voruð, því þið gátuð oft hlaupið undir bagga og passað fyrir okkur og það þótti nú snúllunni ekki leiðinlegt. Ég man þegar hún var í 1. bekk og það var verkfall hjá kennurum. Þá voru góð ráð dýr, við foreldrarnir og ömmurnar og afarnir þurftum náttúrulega að vinna en þá voru það langaafi og langaamma sem buðu fram hjálp sína. Þegar ég var svo spurð hvar Tinna Björk væri á daginn og ég svaraði að hún væri hjá ykkur varð fólk jafnan undrandi yfir að hún ætti langaömmu og langaafa sem gætu passað. Það voru sko ekki allir svo heppnir. Svo það er nú ekki skrýtið að hún Tinna Björk sé búin að eiga erfitt eftir að hún fékk fréttirnar af andláti þínu. Hún saknar þín sárt.

Eiður Hrafn var aftur á móti yngsta langaafa barnið þitt og var hann aðeins 3 ára þegar við fluttum til Noregs, svo hann á ekki eins margar minningar og systir sín. En hann man þó vel eftir þér og fyrir ekki svo löngu síðan þegar hann sat og var að spila tölvuspilið sitt sagði hann: mamma, manstu þegar ég og langaafi vorum að spila tölvuspilið mitt saman en ég á einmitt góða mynd af því augnabliki.

Elsku afi, við söknum þín sárt en ég veit að þú vildir fá að deyja heima og það fékkst þú í örmunum á ömmu. það er varla hægt að fá að fara á betri hátt. Ég veit að þú vakir yfir okkur.

Elsku amma, guð veri með þér á þessum erfiðu tímamótum, þú hefur sýnt ótrúlegan styrk.

Kolbrún Þórey, Jónas, Tinna Björk og Eiður Hrafn.