Löðrungur hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Löðrungur hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Löðrungur á vanga óþekktarorms, sem ógnar öðrum börnum í afmælisveislu, dregur heldur betur dilk á eftir sér. Lögreglukæru, lögsókn, illt umtal, fjölmiðlaumfjöllun og vinslit.

Löðrungur á vanga óþekktarorms, sem ógnar öðrum börnum í afmælisveislu, dregur heldur betur dilk á eftir sér. Lögreglukæru, lögsókn, illt umtal, fjölmiðlaumfjöllun og vinslit. Þetta er umfjöllunarefni áströlsku þáttaraðarinnar Löðrungurinn sem sýnd er á RÚV á mánudagskvöldum.

Þættirnir eru byggðir á metsölubók Christos Tsiolkas og skyggnst er inn í daglegt líf miðstéttarfólks um fertugt og sagan er sögð til skiptis frá sjónarhorni veislugestanna. Á bak við nokkuð snyrtilegar framhliðar er ekkert eins og það sýnist. Sjálfsörugga og glæsilega framakonan efast stanslaust um sjálfa sig, samband glæsilegu og gestrisnu hjónanna einkennist af ofbeldi, framhjáhaldi og kúgun og hamingjusami fjölskyldufaðirinn lætur sig dreyma heldur ósiðlega um kornungar stúlkur.

Löðrungurinn hefur áhrif á alla þá sem tengjast málinu, á mismunandi hátt og allir þurfa að taka afstöðu, hvort sem þeir vilja eða ekki. Áhorfandinn kemst ekki hjá því að taka afstöðu og þetta er einn af þeim þáttum sem gaman er að hneykslast á, og spyrja sjálfan sig í forundran: hvað er eiginlega að þessu fólki?

Anna Lilja Þórisdóttir