Ný tækni Eiríkur segir að til að byrja með verði aðgerðaþjarkinn aðallega notaður á þvagfæraskurðdeild Landspítalans en einnig á kvensjúkdómadeildinni. Aðrar sérgreinar muni þó einnig geta nýtt tækið með tíð og tíma.
Ný tækni Eiríkur segir að til að byrja með verði aðgerðaþjarkinn aðallega notaður á þvagfæraskurðdeild Landspítalans en einnig á kvensjúkdómadeildinni. Aðrar sérgreinar muni þó einnig geta nýtt tækið með tíð og tíma. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Hólmfríður Gísladóttir holmfridur@mbl.is Á næstu vikum verður hrundið úr vör söfnun fyrir nýju skurðlækningatæki fyrir Landspítalann, svokölluðum aðgerðaþjarka, sem mun nýtast við margs konar aðgerðir í grindarholi, s.s.

Fréttaskýring

Hólmfríður Gísladóttir

holmfridur@mbl.is

Á næstu vikum verður hrundið úr vör söfnun fyrir nýju skurðlækningatæki fyrir Landspítalann, svokölluðum aðgerðaþjarka, sem mun nýtast við margs konar aðgerðir í grindarholi, s.s. brottnám krabbameins í blöðruhálskirtli, þvagblöðru eða endaþarmi og vegna sjúkdóma í legi eða eggjastokkum.

Tækinu er stjórnað af skurðlækni í gegnum stjórnborð en þrívíddarsýn yfir skurðsvæðið og fíngerð áhöldin stuðla að aukinni nákvæmni, sem skilar sér í styttri sjúkrahúslegu og minni hættu á fylgikvillum.

Að sögn Eiríks Jónssonar, yfirlæknis þvagfæraskurðlækninga á Landspítalanum, minnkar notkun á tækinu m.a. líkurnar á þvagleka og stinningarvandamálum í kjölfar brottnáms á blöðruhálskirtli, þar sem betur tekst að hlífa mikilvægum æðum og taugum.

Stefna á að safna helmingnum af kaupverðinu

„Þetta er tækni sem hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarin ár og er orðið staðalbúnaður austan hafs og vestan á síðustu tíu árum,“ segir Eiríkur, sem er í forsvari fyrir söfnunina. Hann segir mikilvægt fyrir spítalann að eignast tæki af þessu tagi til þess að geta boðið upp á sambærilega þjónustu og sjúkrahús erlendis en einnig til að fá íslenska skurðlækna aftur heim eftir sérnám erlendis.

„Það eru einstaklingar sem hafa áhuga á að koma heim og hafa fengið þjálfun á þetta tæki. Þannig að þetta er ekki bara ný tækni heldur erum við líka að hugsa til þess að fá einstaklinga sem hafa góðar reynslu til þess að vilja koma og vera og vinna á Íslandi. Þetta er liðsbótarmál líka,“ segir hann.

Félag hefur verið stofnað um söfnunina, stjórn skipuð og viðræður við fyrirtækið sem framleiðir tækið hafnar. Aðgerðaþjarkinn kostar á milli 300 og 350 milljónir króna en stefnt er að því að safna a.m.k. helmingi þeirrar upphæðar. Eiríkur segir að vegna bágrar fjárhagsstöðu Landspítalans treysti félagið á stuðning einstaklinga og fyrirtækja en kaupin á tækinu séu þörf og skref inn í nýja tíma.

AFMÆLISGJAFIR

Söfnuðu framlögum í tunnu

Segja má að Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., hafi þjófstartað söfnuninni fyrir aðgerðaþjarkanum síðastliðna helgi þegar hann hélt upp á sjötugsafmæli sitt. Hann afþakkaði allar gjafir en bað fólk þess í stað að styðja söfnunina, annaðhvort með því að leggja inn á söfnunarreikning eða með því að leggja framlag í þar til gerða tunnu í afmælisveislunni.

Það var sameiginleg ákvörðun Kristjáns og konu hans, Auðbjargar Steinbach, að láta þarft málefni njóta góðs af tilefninu. Langaði þau að styðja einhverja söfnun eða átak er varðaði blöðruhálskirtilskrabbamein og höfðu samband við Eirík, sem benti þeim á söfnunarsjóðinn.

Söfnuninni hefur einnig borist framlag frá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur, sem í félagi við Góða hálsa, Stuðningshóp kvenna með krabbamein í eggjastokkum og Ristilfélagið, lét milljón króna af hendi rakna.

Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning 515-14-408005 en kennitala hennar er 470313-1370.