Hrafnhildur Lúthersdóttir
Hrafnhildur Lúthersdóttir
Lokamótið í bandaríska háskólasundinu NCAA hefst í Indianapolis í dag og þar á Ísland tvo fulltrúa, Hrafnhildi Lúthersdóttur úr SH og Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur úr Ægi. Hrafnhildur keppir fyrir University of Florida og mun synda í fjórum greinum.

Lokamótið í bandaríska háskólasundinu NCAA hefst í Indianapolis í dag og þar á Ísland tvo fulltrúa, Hrafnhildi Lúthersdóttur úr SH og Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur úr Ægi. Hrafnhildur keppir fyrir University of Florida og mun synda í fjórum greinum. Jóhanna Gerða keppir fyrir Flórída International-háskólann og mun synda í tveimur greinum.

Um flott afrek er að ræða hjá íslensku konunum því einungis þrjátíu bestu í hverri grein er boðið í mótið en ekki nægir eingöngu að ná lágmarki fyrir mótið. Til að setja málið í samhengi eru um tólf þúsund keppendur á aldrinum 18 – 22 ára í háskólasundinu í Bandaríkjunum. Hrafnhildur vann sig inn í mótið þriðja árið í röð en hún komst í úrslit í bringusundi í fyrra og árið þar áður. Jóhanna Gerða er að vinna sig inn í mótið annað árið í röð og er hún önnur af tveimur í sínu skólaliði sem komust inn í mótið. Þess má geta að keppt er í jördum í Bandaríkjunum og þar af leiðandi falla engin Íslandsmet þó íslenskt landsliðsfólk sé þar að keppa á fullu. Hins vegar falla oft á tíðum bandarísk met á háskólamótunum enda hafa flestir í Ólympíuliðum Bandaríkjanna keppt í háskólasundinu.

Keppt er í 25 jarda laug í NCAA en sundhöllin í Indianapolis rúmar um 5.200 áhorfendur. Um er að ræða liðakeppni ásamt einstaklingskeppninni en þeir sem komast í úrslit í greinunum fá nafnbótina All American. kris@mbl.is