Tom Watson
Tom Watson
Bandaríkjamenn hafa ákveðið að breyta hjá sér fyrirkomulaginu við val á liði sínu sem mætir liði Evrópu í keppninni um Ryder-bikarinn í golfi haustið 2014 en keppnin mun fara fram í Skotlandi.

Bandaríkjamenn hafa ákveðið að breyta hjá sér fyrirkomulaginu við val á liði sínu sem mætir liði Evrópu í keppninni um Ryder-bikarinn í golfi haustið 2014 en keppnin mun fara fram í Skotlandi. Völd fyrirliðans hafa í raun minnkað, alla vega við liðsvalið, því Tom Watson mun fá að velja þrjá leikmenn en ekki fjóra eins og verið hefur í síðustu keppnum.

Venjan var sú hjá báðum liðum að tíu kylfingar unnu sér sæti í liðunum með árangri sínum á stóru mótaröðunum og fyrirliðarnir völdu tvo til viðbótar. Breytingar voru gerðar á valinu hjá bandaríska liðinu fyrir keppnina árið 2008. Þá fékk fyrirliðinn að velja fjóra kylfinga og því voru einungis átta af tólf sem unnu sér sjálfkrafa sæti í liðinu.

Gömu kempunni Tom Watson var falið að stjórna bandaríska liðinu á Gleneagles í september 2014 og hann tjáði blaðamönnum að í sínum huga væri rétt að gera þessar breytingar.

Watson mun stjórna bandaríska liðinu í annað skiptið en fyrirliði Evrópuliðsins verður Írinn Paul McGinley. Watson vann átta risatitla á sínum ferli en McGinley hefur engan unnið. Valið á Watson kom mjög á óvart þar sem hefðin hefur verið sú að kylfingar séu einungis einu sinni fyrirliðar þó þeir kunni að vera oftar á meðal aðstoðarmanna fyrirliðans.

Evrópa vann sætan sigur á bandarískri grundu síðast þegar keppnin fór fram fyrir hálfu ári síðan og hefur Evrópa unnið sjö af síðustu níu keppnum.