Mikilvægt Margrét Rósa Hálfdánardóttir skoraði mikilvæga körfu fyrir Hauka hálfri mínútu fyrir leikslok.
Mikilvægt Margrét Rósa Hálfdánardóttir skoraði mikilvæga körfu fyrir Hauka hálfri mínútu fyrir leikslok. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Kristján Jónsson kris@mbl.is Valur tryggði sér í gærkvöldi síðasta lausa sætið í úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik þegar liðið sigraði deildarmeistara Keflavíkur 96:92 á Hlíðarenda.

Á Ásvöllum

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Valur tryggði sér í gærkvöldi síðasta lausa sætið í úrslitakeppni Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik þegar liðið sigraði deildarmeistara Keflavíkur 96:92 á Hlíðarenda. Næstsíðasta umferð deildarinnar var leikin í gærkvöldi og Haukar áttu ennþá möguleika á því að ná sætinu í úrslitakeppninni af Val. Haukar gerðu sitt og unnu öflugt lið KR 71:65 en það dugði ekki til.

Stemningin á Ásvöllum í gær var svolítið undarleg í leikslok. Leikmenn Hauka fögnuðu sigrinum innilega enda voru líkur á því að liðið ætti ennþá möguleika á úrslitakeppninni. Keflavík var jú sigurstranglegra liðið á Hlíðarenda. Fagnarlætin þögnuðu þó fljótlega þegar fréttir af úrslitum í leik Vals og Keflavíkur bárust. Stemningin hjá KR var náttúrlega ekki betri en liðið hafði með góðum úrslitum undanfarið sett pressu á Snæfell í baráttunni um annað sætið í deildinni.

Hittu úr sjö af tíu þristum

Varnarleikur Hauka og KR var sterkur til að byrja með í gærkvöldi og lítið var skorað í fyrsta leikhlutanum. Í öðrum leikhluta fór í gang atburðarás sem gerði það að verkum að Haukar höfðu ellefu stiga forskot í leikhléi, 40:29. Leikmenn Hauka hittu úr einu til tveimur þriggja stiga skotum í öðrum leikhluta og fengu aukið sjálfstraust sem endaði með því að þriggja stiga körfunum rigndi yfir KR-liðið.

Þegar upp var staðið hittu Haukar úr sjö af tíu þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik. Á þessum kafla skoruðu Haukar tuttugu og eitt stig í röð, sem er náttúrlega fáheyrt þegar um tvö sterk lið er að ræða.

Fjölnir þvældist fyrir Haukum

Um tíma í þriðja leikhluta voru Haukar komnir tæpum tuttugu stigum yfir en það var ekki nóg til að leggja grunn að sigri. KR-liðið náði að vinna sig smám saman inn í leikinn og komst yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Haukar létu sér þó ekki bregða og náðu að landa báðum stigunum. Margrét Rósa Hálfdánardóttir gerði eiginlega sigurkörfu leiksins þegar hún setti niður þriggja stiga skot þegar um hálf mínúta var eftir.

Furðulegt er að hugsa til þess að lið Hauka skuli ekki vera með í úrslitakeppninni í ljósi þess að liðið vann Keflavík tvívegis og vann nú KR sem hefur verið á sigurbraut undanfarið. Haukum gekk hins vegar bölvanlega á móti Fjölni, liðinu sem féll úr deildinni, og það reið baggamuninn.

KR er til alls líklegt í úrslitakeppninni enda hefur liðið verið nánast óstöðvandi síðan Shannon McCallum gekk til liðs við félagið. Það gæti hafa verið ágætt fyrir liðið að fá einu sinni á kjaftinn fyrir úrslitakeppnina eftir mikla sigurgöngu. McCallum er óhemjusterkur leikmaður miðað við íslensku deildina en hún virtist þó vera pirruð og illa fyrirkölluð í gærkvöldi. Óneitanlega einkennilegt að fá það á tilfinninguna þegar leikmaður skorar 24 stig, tekur 13 fráköst, gefur sex stoðsendingar og stelur boltanum fimm sinnum.

Snæfell náði öðru sætinu

Snæfell og Grindavík unnu Njarðvík og Fjölni eins og búast mátti við miðað við stöðu liðanna í deildinni. Snæfell er þar með öruggt með annað sætið í deildinni.

• Á mbl.is/sport/korfubolti er að finna myndbandsviðtöl við þjálfarana, Bjarna Magnússon Haukum og Finn Frey Stefánsson KR.