Öryggi á að vera forgangsmál í umferðinni og sérstaklega er mikilvægt að fótgangandi vegfarendur komist leiðar sinnar án vandræða og tafa. Í Reykjavík hefur bíllinn hins vegar löngum verið hafður í hávegum og settur á stall í skipulagsmálum.

Öryggi á að vera forgangsmál í umferðinni og sérstaklega er mikilvægt að fótgangandi vegfarendur komist leiðar sinnar án vandræða og tafa. Í Reykjavík hefur bíllinn hins vegar löngum verið hafður í hávegum og settur á stall í skipulagsmálum. Þetta finnst Víkverja vitaskuld frábært þegar hann situr undir stýri, en ekki eins stórkostlegt þegar hann fer um fótgangandi eða á hjóli.

Á seinni árum hefur áherslan á bílinn reyndar minnkað og er það vel. Umferðin þarf auðvitað að ganga vel, en það liggur ekki lífið á og vegalengdir allar eru stuttar á höfuðborgarsvæðinu og greiðfærar miðað við aðrar stórborgir heims þar sem fólk situr jafnvel tímunum saman í umferðarteppum. Stundum ber þó framkvæmdakappið skynsemina ofurliði.

Víkverji er gáttaður á tilfærslu gangbrautarljósa yfir Hringbraut um nokkra tugi metra til vesturs vegna þess að hún ýtir undir öngþveiti. Á morgnana þegar umferð er mikil austur úr myndast röð við ljósin, sem nær alla leið inn á Melatorgið þannig að þar situr allt fast. Á meðan torgið var neðar í götunni gerðist þetta ekki. Víkverji áttar sig ekki á með hvaða hætti tilfærsla ljósanna auðveldar tilveru gangandi vegfarenda, sem þarna eiga leið um.

Þá var ekki á glundroðann við torgið bætandi vegna þess að á morgnana taka flestir þeir, sem koma í vesturátt „vinstri“ beygju inn á Suðurgötu á leið sinni í Háskólann, fara sem sagt ekki út úr hringtorginu fyrr en á þriðju beygju.

Þá ætla borgaryfirvöld nú að setja gangbrautarljós við Hringbrautina frá Sæmundargötu yfir í Hljómskálagarðinn. Víkverji áttar sig ekki á hvort það er gönguleið, sem hingað til hefur verið teppt af bílaflaumi. Þar stendur í það minnsta sjaldnast her manns og bíður eftir að komast yfir, en ef til vill á annað eftir að koma á daginn. Nokkru austar er brú yfir götuna. Hún er ekki að sligast undan umferð.