Sergio Ramos
Sergio Ramos
Sergio Ramos, varnarmaður Spánarmeistara Real Madrid og spænska landsliðsins í knattspyrnu, segir að hann hefði frekar kosið að José Mourinho, þjálfari liðsins, hefði hrósað eigin liðið frekar en mæra Manchester United eftir að Spánarmeistararnir slógu...

Sergio Ramos, varnarmaður Spánarmeistara Real Madrid og spænska landsliðsins í knattspyrnu, segir að hann hefði frekar kosið að José Mourinho, þjálfari liðsins, hefði hrósað eigin liðið frekar en mæra Manchester United eftir að Spánarmeistararnir slógu út verðandi Englandsmeistara í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar á dögunum.

Mourinho sagði eftir leikinn að betra liðið hefði tapað leiknum en Real Madrid fagnaði 2:1 sigri á Old Trafford eftir að hafa leikið mestallan seinni hálfleikinn manni fleiri.

„Ég get bara talað fyrir sjálfan mig en eftir að hafa slegið út jafn gott lið og Manchester United hefur á að skipa hefði ég kosið önnur viðbrögð frá þjálfaranum því við lögðum allt í að slá þetta sögufræga lið út,“ sagði Ramos við spænska útvarpsstöð í gær. Oftar en ekki hefur andað köldu á milli Ramosar og Mourinho frá því Portúgalinn tók við þjálfun Madridarliðsins fyrir þremur árum en Ramos segist ekki vita hvort Mourinho verði áfram við stjórnvölinn.

„Ég veit það ekki. Hann er með samning og það er bara hans eigin ákvörðun hvað hann gerir í framtíðinni. En hvar verður hann ánægðari en að halda kyrru fyrir hjá besta liði í heimi?“ sagði Ramos, sem leikur sinn 100. landsleik fyrir heims- og Evrópumeistara Spánverja komi hann við sögu í leiknum við Finnland á morgun. gummih@mbl.is