Kátir krakkar Það er gaman að skottast úti á sokkunum í sumarblíðu og teygja litríkar tásur út og suður.
Kátir krakkar Það er gaman að skottast úti á sokkunum í sumarblíðu og teygja litríkar tásur út og suður. — Ljósmynd/Aðalsteinn Leifsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hugmyndir er eitthvað sem þær eiga nóg af og það sést glögglega í nýju bókinni þeirra sem kemur út í dag, Hlýir fætur, en bókin sú geymir 54 uppskriftir að sokkum í öllum mögulegum stærðum og gerðum, bæði fyrir börn og fullorðna.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það lá beint við að gera bók með uppskriftum að sokkum þegar ég var búin að gera bókina Hlýjar hendur, sem er með vettlingauppskriftum,“ segir Ágústa Þóra Jónsdóttir, annar höfundur bókarinnar Hlýir fætur, sokkauppskriftir, en bókin sú kemur út í dag og inniheldur 54 uppskriftir af mjög svo ólíkum en gleðjandi sokkum, á börn og fullorðna. Benný Ósk Harðardóttir er hinn höfundur bókarinnar. „Ég gerði fyrri bókina um vettlingana ein og það var svo rosalega mikil vinna að ég vildi fá einhvern með mér. Ég þekkti Benný ekki neitt, ég hitti hana á prjónakvöldi í Grindavík, þar sem hún býr, og mér leist svo vel á hana og hún tók vel í hugmyndina að samstarfi við gerð þessar sokkabókar. Hún er handavinnukennari og mjög fær á sínu sviði svo þetta gekk allt mjög vel.“

Ágústa segir að þær hafi viljað hafa sokkana sem fjölbreyttasta og þær lögðu því upp með það. „Við vildum hafa uppskriftir að einföldum sokkum, flóknum sokkum og með mismunandi hæl. Stundum gróft, stundum fínt. Með það í farteskinu fórum við svo af stað með að semja uppskriftir. Það er ekki vandamál hjá okkur að fá hugmyndir, þannig að þetta gekk vel.“

Ágústa segist markvisst hafa sett inn í bókina leiðbeiningar sem nýtast vel fyrir þá sem aldrei hafa áður prjónað sokka. „Það er líka sérstakur kafli í bókinni fyrir fólk sem vill hanna sína eigin sokka, en er kannski alveg nógu öruggt með sig í prjónaskapnum til að gera það. Fólk má ekki mikla þetta fyrir sér og við hvetjum alla eindregið til að fara sínar eigin leiðir, blanda saman uppskriftum og vera óhrædda við að spinna. Endilega ekki festa sig í uppskriftunum.“

Ágústa segir að allt sé leyfilegt í sokkaprjóni, til dæmis að sauma bót í sokkinn. „Ef fólki finnst flókið að prjóna munstur, þá er um að gera að prjóna einfalt og setja svo líflega bót sem gerir sokkinn skrautlegan. Það er hægt að gera svo magt til að einfalda.“ Hún segir að frelsið í prjónaskap sé nokkuð nýtilkomið og sannarlega kærkomið. „Ég held að þetta frelsi sé líka vegna þess að það er svo fjölbreytt fólk farið að taka til við prjónaskap, það skilar sér í sköpuninni, hún verður ekki eins niðurnjörvað. Svo á netið líka stóran þátt í þessu, þar er endlaust hægt að finna hugmyndir og deila með öðrum. Sniðugar útfærslur eru fljótar að dreifa sér í tölvuheimum.“

Í kuldanum á Íslandi er sannarlega kærkomið að hlýir sokkar séu í tísku. „Dóttir mín sem er tvítug gengur til dæmis allan ársins hring í strigaskóm, og þá er afar gott að vera í ullarsokkum. Unglingar í dag vilja margir vera í þunnum skóm og þá koma skemmtilegir og hlýir sokkar sterkir inn. Við leggjum líka mikið upp úr því að fólk noti sokkagarn í sokka, því annars kemur strax gat á þá. Ég man eftir æðislegum sokkum sem mamma prjónaði einu sinni á dóttur mína úr venjulegu ullargarni og þeir voru nánast ónýtir á fyrsta kvöldi. Garn í sokkum verður að vera styrkt, sérstaklega það sem er á fætinum, svo þeir endist. Það gerir minna til með legginn.“ Sokkarnir í bókinni heita íslenskum staðarheitum, en Ágústa segir það hafa komið til af því að hún lét vettlingana í Hlýjum höndum heita fjallanöfnum. „Svo eru útlend nöfn innan um, til dæmis heitir eitt sokkaparið París, sem kemur til af því að ég var föst í París þegar Eyjafjallajökull gaus, og þar prjónaði ég þessa sokka.“

Ágústa segist hafa prjónað alveg frá því hún var lítil stelpa. „Amma mín kenndi mér að prjóna þegar ég var ung, en hún var alltaf prjónandi. Ég ólst því upp með prjóna í höndunum.“