Óræður Mikhael Sarris, fjármálaráðherra gríska hluta Kýpur, á leið af fundi með ráðamönnum í Moskvu í gær. Hann sagði fundinn hafa verið „uppbyggilegan“ en virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði, hvað sem síðar verður.
Óræður Mikhael Sarris, fjármálaráðherra gríska hluta Kýpur, á leið af fundi með ráðamönnum í Moskvu í gær. Hann sagði fundinn hafa verið „uppbyggilegan“ en virðist ekki hafa haft erindi sem erfiði, hvað sem síðar verður. — AFP
Kristján Jónsson kjon@mbl.is Stjórn Kýpur-Grikkja kom saman á neyðarfund í gær til að ræða björgunarleiðir vegna yfirvofandi bankahruns.

Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Stjórn Kýpur-Grikkja kom saman á neyðarfund í gær til að ræða björgunarleiðir vegna yfirvofandi bankahruns. Kýpur-Grikkir reyndu í gær í örvæntingu að fá ráðamenn í Moskvu til að hlaupa undir bagga með láni en höfðu ekki erindi sem erfiði, að því er best er vitað.

Ferðaþjónusta og fjármálaþjónusta eru undirstöður efnahagslífs Kýpur, umfang bankageirans er um áttföld landsframleiðsla. Aðalástæðan fyrir vanda Kýpverja núna eru tengsl við gríska banka. Kýpverska þingið hafnaði í fyrradag samkomulagi við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, AGS, um skilyrði fyrir láni upp á 10 milljarða evra, meðal annars að lagður yrði skattur á bankainnistæður. Efasemdir eru um að eyríkið muni geta ráðið við afborganir af svo háu láni.

Gagnrýni á lánaskilyrði af hálfu ESB og AGS

Margir hafa gagnrýnt harkalega skilyrðin sem Kýpur voru sett, bent á að í reynd væru reglur um innistæðutryggingar hunsaðar með því að leggja nýjan skatt á innistæðurnar. Engu skipti fyrir eigendur reikninganna hvaða nafn væri notað yfir þetta brot á reglunum um sameiginlegar innistæðutryggingar í ESB.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði í gær að það væri „skylda ESB“ að bjarga Kýpur.

En vitað er að hún vill ekki að kýpversku bankarnir fái beina aðstoð vegna þess að þá myndu rússneskir auðmenn, sem eiga tugmilljarða evra í kýpverskum bönkum, hrósa sigri. Merkel er með augun á þingkosningum næsta haust og óttast að gagnrýnt verði þá að fé þýskra skattgreiðenda sé varið í að bjarga bönkum annarra ESB-þjóða sem ekki kunni fótum sínum forráð og einnig rússneskum ólígörkum.

Efasemdir Svía

Fréttaskýrandi BBC , Robert Peston, segir skilyrðin staðfesta að ekki ríki nægileg samkennd milli þjóða evrusvæðisins. En hann furðar sig á því að fjármálaráðherrar evruríkja skyldu ekki átta sig á því að ef þeir brytu í reynd reglur um innistæðutryggingar myndi það draga úr tiltrú almennings í evrulöndum og markaðanna á tryggingakerfið.

Fjármálaráðherra Svíþjóðar, Anders Borg, sagði í gær að skilyrði ESB og AGS hefðu aukið efasemdir hans um ágæti þess að tengja sænskar innistæðutryggingar við tryggingakerfi evrusvæðisins.

„Sænskir skattgreiðendur skulu einfaldlega ekki þurfa að greiða fyrir fjárhagserfiðleika banka í öðrum ríkjum,“ sagði hann.

RÚSSNESKIR ÍBÚAR KÝPUR ÓRÓLEGIR VEGNA TALS UM SKATT

Hafa gestirnir sig á brott?

Limassol er næststærsta borgin á gríska hluta Kýpur, með um 160 þúsund íbúa. Rússar hafa árum saman haft mikil viðskipti við kýpverska banka og rússneskir glæpamenn nota þá m.a. til að þvætta illa fengið fé. Minna hefur verið rætt um þá mörgu Rússa sem hafa beinlínis sest að á eynni en þar er notalegt loftslag. Þeir eru um 30 þúsund í Limassol, sem oft er nú kölluð Limassolgrad, að sögn fréttastofu Reuters. Einnig búa nokkur þúsund Bretar í herstöð sem ekki heyrir undir ríki Kýpur-Grikkja. Bretar réðu eynni 1914-1960.

Tengsl Kýpur-Grikkja við Rússland eru margvísleg, báðar þjóðirnar eru í rétttrúnaðarkirkjunni. Rússar gætu haft hug á að koma sér upp flotastöð á Kýpur. Ólíklegt er að Bashar al-Assad forseti haldi völdum í Sýrlandi þar sem Rússar hafa litla flotastöð.

Kýpur-Grikkir hafa haft ábatasöm viðskipti við Rússana sem eru vel fjáðir og kaupa mun dýrari vörur og þjónustu en gengur og gerist um aðra íbúa eða ferðamenn. En margir Rússar á Kýpur eru nú reiðir yfir hugmyndum um að skattleggja fé þeirra og hóta að flytja. Er m.a. rætt um að Lettland sé með frjálslegt bankakerfi, eins og Kýpur. „Við veltum því fyrir okkur hvort við eigum að vera áfram hérna,“ er haft eftir rússneskri konu, Anastasíu, í Limassol.